Skógræktin hlýtur rúmar tuttugu milljónir króna til endurbóta á nokkrum þeirra ferðamannastaða sem s…
Skógræktin hlýtur rúmar tuttugu milljónir króna til endurbóta á nokkrum þeirra ferðamannastaða sem stofnunin hefur umsjón með. Í sumar verður lokið við endurbætur sem unnið hefur verið að við Hjálparfoss undanfarin misseri. Mynd: Hreinn Óskarsson.

Fjögur verkefni Skógræktarinnar fá styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Skógræktin fær rúmar tuttugu milljónir króna úr Framkvæmdasjóði ferðamanna­staða á þessu ári til verkefna á fjórum svæð­um í umsjá stofnunarinnar. Hæsti styrk­urinn, 15 milljónir króna, rennur til stíga­gerðar og -viðhalds á Þórsmerkur­svæðinu en einnig rennur fé til verkefna við Hjálparfoss, Laxfoss og á Kirkjubæjar­klaustri.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferða­mála hefur staðfest tillögu stjórnar Fram¬kvæmdasjóðs ferðamannastaða um úthlutun úr sjóðnum. Alls eru veittir styrkir til 58 verkefna hringinn í kringum landið og nemur heildarfjárhæð styrkja 610 milljónum króna. Með úthlutuninni í ár nemur heildarupphæð styrkveitinga úr sjóðnum 3,56 milljörðum króna frá upphafi. Í hlut Skógræktarinnar koma á þessu ári samanlagt 20,2 milljónir.

Verkefnin sem Skógræktin hlýtur styrk til eru þessi:


1. Frágangur við Hjálparfoss

Veittur er 1.200.000 króna styrkur til loka­frágangs á bílastæði við Hjálparfoss, jöfn­un jarðvegs kringum salernishús, upp­græðslu, áburðardreifingu í jaðra stíga og á svæði þar sem er mikill ágangur ferða­fólks. Enn fremur er nauðsynlegt að af­marka gönguleiðir með böndum og loka þarf eldri rofsárum vegna ágangs ferða­manna. Þetta er mikilvægt verkefni til loka­frágangs vegna þeirra framkvæmda sem farið hafa fram undanfarin ár en einnig er þetta mikilvægt verkefni til að vernda nátt­úru svæðisins og byggja upp innviði fyrir ferðamenn.


2. Lokafrágangur útsýnispalls við Laxfoss

Tvær og hálf milljón króna renna úr sjóðn­um til smíði stiga og millipalla niður útsýnis­stað sem nýlega var gerður við Laxfoss í Norðurá í Borgarfirði. Féð verður nýtt til loka­frágangs staðarins svo sem að ljúka við malarstíg, sá í kanta, loka gróðursárum og setja upp stikur og skilti. Laxfoss er ein­stök náttúruperla en umhverfi hans var far­ið að láta á sjá og einnig er þörf á að gera staðinn öruggari fyrir gesti. Verkefnið er gott öryggis- og náttúruverndarverkefni.


3. Uppbygging og viðhald gönguleiða á Þórsmerkursvæðinu.

Til uppbyggingar og viðhalds gönguleiða á Þórsmerkur­svæðinu fær Skógræktin 15 milljónir króna úr sjóðnum til að vernda náttúru, bæta aðgengi og auka öryggi ferðamanna. Þórsmörk og Goðaland eru eitt mikilvægasta svæði landsins fyrir gangandi ferðamenn en gönguleiðir þar krefjast umfangsmikils viðhalds og uppbyggingar vegna brattlendis og rofgjarns jarðvegs.

4. Viðhald gönguleiða og áningarstaðar á Kirkjubæjarklaustri

Til þjóðskógarins á Kirkjubæjarklaustri rennur ein og hálf milljón króna til áfram­haldandi viðhalds, endurbóta, uppgræðslu og afmarkanna á göngu­leiðum í Klausturskóginum og ofan við Systrafoss. Vinna Skógræktarinnar að svipuðum verkefnum hefur borið mikinn árangur og verið til fyrirmyndar um náttúruvernd og aukið öryggi ferðafólks

Á vef ráðuneytisins kemur fram að þetta sé sjötta árið sem Framkvæmda­sjóður ferðamannastaða úthlutar styrkjum. Hlutverk sjóðsins er samkvæmt lögum að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt, leitast við að tryggja öryggi ferða­manna og vernda náttúru landsins en einnig að fjölga viðkomustöðum ferða­fólks til að draga úr álagi á fjölsóttum ferðamannastöðum.

Tíundað er að fyrir dyrum sé endurskoðun á hlut­verki Framkvæmdasjóðs ferða­manna­staða sem taki mið af því að komin er til sögunnar landsáætlun á vegum um­hverfis- og auðlindaráðuneytisins um upp­bygg­ingu innviða vegna álags af völdum ferðamennsku og útivistar. Drög að laga­breyt­ingu um sjóðinn hafa verið birt á vef atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytis­ins og í þeim er gert ráð fyrir að sjóðurinn sinni verk­efnum á ferðamannastöðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Verði þessi lagabreyting að veruleika er gert ráð fyrir að fé verði veitt til landvörslu og fleiri verkefna, meðal annars verkefna í þjóðskógunum. Frestur til að gera athuga­semdir við frumvarpsdrögin er til 23. mars.


Texti: Pétur Halldórsson