Ársrit Skógræktarinnar er komið út á ársskýrsluvef stofnunarinnar. Í ritinu kennir ýmissa grasa og þar er fjallað um ýmsa þætti í starfsemi Skógræktarinnar. Rannsóknir eru einna fyrirferðarmestar að þessu sinni og nefna má skemmtilega og ríkulega myndskreytta ferðasögu skógmælingafólks í Lósöræfi og Stafafellsfjöll. Þá er í ritinu einnig fróðleg samantekt um hvar skógarbændur búa og starfa, grein um snjóalög í Vaglaskógi fyrr og nú ásamt myndaröð sem sýnir snjóbrot í norðlenskum skógum eftir óveðrin veturinn 2019-2020. Ársritið er nú eingöngu gefið út með rafrænum hætti.
Ritið hefst að venju á pistli skógræktarstjóra undir yfirskriftinni Gengið til skógar. Þar ræðir Þröstur Eysteinsson meðal annars um víðtæk áhrif veirufaraldursins COVID-19 á starfsemi Skógræktarinnar eins og annað í samfélaginu. Hann nefnir m.a. knúsátak Skógræktarinnar þar sem þjóðin var hvött til að leita sér huggunar í faraldrinum með því að njóta útiveru meðal trjáa og knúsa tré. Þröstur nefnir aukinn fjölda sumarstarfa í skógunum sem var jákvæð afleiðing faraldursins og sömuleiðis þá jákvæðu þróun að erlent fjármagn sækir nú til skógræktar á Íslandi. Hann nefnir aldarafmæli friðunar Þórsmerkur og sömuleiðis er grein um þann merka áfanga síðar í ritinu. Einnig söfnun á fræi af trjám, bæði söfnun fræs af nytjatrjátegundum og sérstakt átak til söfnunar á birkifræi sem efnt var til á árinu og einnig er fjallað um í sérstakri grein.
Ársritið er þannig byggt upp að á eftir pistli skógræktarstjóra kemur efni frá öllum fjórum sviðum Skógræktarinnar og byrjar á pistli viðkomandi sviðstjóra. Af rannsóknum sem fjallað er um í ritinu má nefna árlegan annál um skaðvalda á trjám en sérstök grein er líka um ertuyglu og loftslagsbreytingar. Fjallað er kvæmatilraun með íslenskt birki sem gefur áhugaverðar vísbendingar og líka óvæntar niðurstöður. Í ritinu er grein um rannsókn á skógræktarskilyrðum á Mosfellsheiði og önnur um sjálfsáningu stafafuru í Steinadal í Suðursveit. Rætt er líka um viðareiginleika lerkis sem hefur mun meiri beygjustyrk en önnur barrtré í skógrækt á Íslandi og loks um nemandaverkefni sem snertir skógarplöntuframleiðslu í Noregi.
Skipuriti Skógræktarinnar var breytt nokkuð á árinu 2020 og er farið yfir það í Ársritinu. Nú er sérstakt svið um skógarþjónustu þar sem hryggjarstykkið er þjónusta Skógræktarinnar við skógarbændur. Þar hefur mikið starf verið unnið að því að endurskoða verkeferla og vinnulag til að straumlínulaga starfsemina. Fjallað er um verkefnið Loftslagsvænan landbúnað, bæði í pistli sviðstjóra og í sérstakri grein. Einnig um hringferð sviðstjóra og skógræktarstjóra um landið sumarið 2020 til að hitta skógarbændur í landshlutunum og fleira. Auk áðurnefndrar greinar um búsetu og störf skógarbænda er sagt frá endurbættu fræðsluefni fyrir skógarbændur.
Þjóðskógar eru nú á sérstöku sviði hjá Skógræktinni og þar er m.a. rætt um aukna gróðursetningu á árinu og verkefni One Tree Planted sem hafinn var undirbúningur á að Ormsstöðum í Breiðdal á árinu. Fjallað er líka um það í sérstakri grein. Eitt af stærri verkefnum sviðsins er eldaskáli sem bygging hófst á í Vaglaskógi á sömu nótum og eldaskálinn sem reistur var í Laugarvatnsskógi fyrir fáeinum árum. Hér hafa áður verið nefndar greinar um friðunarafmæli Þórsmerkur, snjóbrotsveturinn mikla og snjóalög í Vaglaskógi.
Stærstu tíðindin á sviði mannauðsmála á árinu voru brautskráningar þriggja starfsmanna Skógræktarinnar í skógtækni frá LbhÍ og þá luku fjórir starfsmenn stofnunarinnar háskólagráðum á árinu, einn með BS-próf, tveir með meistarapróf og einn með doktorspróf. Sagt er frá verkefnum þeirra í Ársritinu. Fjallað er um Skógarkolefni og vottaða kolefnisbindingu sem gefur tækifæri til ábyrgrar kolefnisjöfnunar.
Aftast í ritinu er skrá yfir starfsfólk hjá Skógræktinni á árinu 2020, bæði fasta starfsmenn og sumarstarfsmenn. Einnig er að sjálfsögðu að finna rekstrartölur stofnunarinnar. Ársreikningur bíður þó enn birtingar en verður settur á sinn stað þegar hann hefur verið staðfestur af yfirvöldum.
Ársrit Skógræktarinnar 2020
Njótið lestrarins!