Fagráðstefna skógræktar 2019 á Hallormsstað þótti heppnast mjög vel og var vel sótt. Næsta ráðstefna verður á Hótel Geysi 18.-19. mars 2020. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Nýafstaðin Fagráðstefna skógræktar, sem fram fór á Hallormsstað 3.-4. apríl, fór mjög vel fram í blíðuveðri. Ráðstefnan vakti talsverða athygli fjölmiðla. Að ári fer ráðstefnan fram á Hótel Geysi í Haukadal, 18.-19. mars 2020.
Ráðstefnan var vel sótt og þótti takast hið besta í alla staði. Sól og blíða var báða ráðstefnudagana og fóru ráðstefnugestir í skógarferð í Ranaskóg í Fljótsdal þar sem standa eldgömul birkitré, myndarlegur ræktaður skógur, reyniviður og fleiri trjátegundir sá sér út og umhverfið er allt hið glæsilegasta við gilið sem Gilsá rennur um. Erindin á ráðstefnunni voru hvert öðru betra og rötuðu fréttir frá ráðstefnunni í nokkra fjölmiðla. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra sat hátíðarkvöldverð fyrri dag ráðstefnunnar og hlýddi á flest erindin seinni daginn.
Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, flutti inngangsfyrirlestur á ráðstefnunni. Góður rómur var gerður að máli hans og var fyrirlesturinn bærði upplýsandi og innblástur sóknarhugar og bjartsýni þrátt fyrir alvarleika loftslagsmálanna í heiminum sem fjallað var um. Rúnar Snær Reynisson fréttamaður ræddi við Halldór á Hallormsstað og fréttin birtist í kvöldfréttum Sjónvarpsins í gær, 9. apríl. Halldór segir þar að þau alvarlegu viðfangsefni sem blasa við í röskun veðrakerfanna krefjist umbyltingar á kerfum okkar mannanna. Fínstilling núverandi kerfa dugi ekki. Skógrækt sé mikilvægur hluti af lausninni og með henni sé að auki hægt að skapa verðmæti. Hún sé vissulega hluti af lágkolefnissamfélagi framtíðarinnar sem unnið er að. Halldór segir Íslendinga hafa fulla burði til að ná kolefnishlutleysi 2040. Þær breytingar sem þetta krefst séu breytingar til góðs, endurheimt votlendis og skógrækt og einnig sé mikil þörf á stórátaki í landgræðslu. Kolefni í jarðvegi sé undirstaða frjósemi jarðvegs, minnkandi frjósemi jarðvegs í heiminum sé áhyggjuefni enda leiði hún til aukinnar notkunar á tilbúnum áburði.
Skýrt töluðu líka um loftslagsmál og tengd efni þeir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Árni Bragason landgræðslustjóri í erindum sínum á ráðstefnunni. Í Fréttablaðinu var rætt við Árna í kjölfar orða hans á Fagráðstefnu skógræktar um að taka þyrfti á beitarmálum í landinu. Árni vill að viðkvæmum afréttarsvæðum á hálendinu verði hlíft við beit og unnið verði að því að hætta lausagöngu búfjár á landinu. Orðrétt var haft eftir Árna í Fréttablaðinu 4. apríl og á Vísi.is: „Ég er svo sem ekkert að segja neinar nýjar fréttir en það hefur legið fyrir lengi að við eigum mikið af ónýtu og rofnu landi sem grasbítar eiga ekki heima á og beit á þannig landi er ósjálfbær,“ segir Árni. „Stór svæði hér á landi eru ekki hæf til beitar og við ættum að sjá sóma okkar í að banna beit á slíku landi.“
Brynhildur Bjarnadóttir, skógvistfræðingur og lektor við Háskólann á Akureryri, flutti erindi á Fagráðstefnu skógræktar um rannsóknir á kolefnisbindingu og losun asparskógar sem ræktaður er á framræstri mýri. Í ljós kemur að skógurinn bindur mjög mikið kolefni og getur bindingin verið töluvert meiri en sú losun sem að jafnaði er frá framræstu landi. Leifur Hauksson útvarpsmaður ræddi við Brynhildi í Samfélaginu á Rás 1. þriðjudaginn 3. apríl og þar sagði hún meðal annars: „Öspin er náttúrulega öflug tegund þó að hún sé ekki vinsæl alls staðar. Hún er öflug í vexti, ef það er hægt að nota orðið „kolefnisbindari“, sem mér finnst nú kannski ekki sérlega fallegt orð og ég veit ekki hvort að er til, þá er hún mjög góður kolefnisbindari á ákveðnum fasa í sínu lífsskeiði,“
Þá var einnig rætt við Árna Bragason landgræðslustjóra í frétt sem birtist í Útvarpinu og á ruv.is. Árni sendi sveitarfélögum landsins tóninn í erindi sínu á Fagráðstefnu og vísaði til þess að undanfarin misseri hefði meira verið framræst af votlendi á Íslandi en það sem endurheimt hefur verið. „Þetta er ekki bara í einu sveitarfélagi og því miður er þetta svo að menn eru ekkert að standa sig. Landgræðslan skrifaði öllum sveitastjórnum bréf í lok árs 2017 og ítrekaði það á síðasta ári. Það gerist ekkert,“ segir Árni Bragason í samtali við Rúnar Snæ Reynisson fréttamann.
Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfréttar, sat Fagráðstefnu skógræktar einnig og flutti fréttir af henni í miðlinum. Sagt var frá því að nafnspjöldin sem ráðstefnugestir báru um hálsinn væru með skógarilmi og rætt við Bergrúnu Örnu Þorsteinsdóttur, aðstoðarskógarvörð á Hallormsstað, sem fór út í skóg, safnaði barri af fjallaþin, maukaði það og bar á spjöldin svo þau ilmuðu svona vel. Einnig fjallaði Austurfrétt almennt um Fagráðstefnu skógræktar áður en hún hófst. Þar kom fram að nú færu væntanlega að verða til skógar sem ræktaðir yrðu eingöngu til þess að binda kolefni. Eins og kunnugt er voru loftslagsmálin meginviðfangsefni Fagráðstefnu skógræktar 2019 með yfirskriftinni „Öndum léttar, landnotkun og loftslagsmál“. Í prentútgáfunni, Austurglugganum 11. apríl, verður viðtal við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra og Skarphéðin Smára Þórhallsson, verkefnisstjóra með svæðisskipulagi Austurlands.
Þess má geta að lokum að við slit Fagráðstefnunnar á Hallormsstað var tilkynnt að næsta Fagráðstefna skógræktar yrði haldin á Hótel Geysi í Haukadal 18.-19. mars 2020.
Jafnframt er rétt að benda á að á síðu ráðstefnunnar má horfa á flesta fyrirlestrana og einnig eru glærur þeirra flestra aðgengilegar þar.
Upptökur og glærur