Vettvangsferð í fræhöllina á Vöglum í Fnjóskadal var á dagskrá ráðstefnunnar fyrri daginn. Þar var fræframleiðsla Skógræktarinnar kynnt og kynbótastarf með lerki, fjallaþin, stafafuru og fleira. Hér ávarpar Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri hópinn og segir frá ræktun lerkiblendingsins Hryms sem fram fer í fræhöllinni.
Skógrækt nýtur vaxandi athygli
Fagráðstefna skógræktar sem haldin var í átjánda sinn í liðinni viku er ein sú fjölmennasta frá upphafi. Meira en 150 manns voru skráðir á ráðstefnuna sem haldin var í menningarhúsinu Hofi. Skógrækt á Íslandi hefur fengið talsverða athygli í fjölmiðlum undanfarið í tengslum við ráðstefnuna.
Þetta var í átjánda sinn sem Fagráðstefna skógræktar er haldin. Hefur ráðstefnan skipað sér fastan sess í tilveru skógræktarfólks. Fyrst og fremst er ráðstefnan fræðilegs eðlis eins og heiti hennar gefur til kynna og endurspeglar margt af því sem er efst á baugi í skógræktarrannsóknum hverju sinni en einnig í skógtæknilegum efnum, úrvinnslu- og umhirðumálum.
Alls voru fluttir 22 fyrirlestrar á ráðstefnunni. Fyrri dagurinn var þemadagur í samvinnu við NordGen Skog, skógasvið norrænu erfðavísindastofnunarinnar. Yfirskriftin var „Fræframleiðsla og trjákynbætur“. Voru erindin á þemadeginum helguð því málefni og öll flutt á ensku. Fjórir erlendir fyrirlesarar héldu erindi á þemadeginum og tveir íslenskir. Erlendir gestir á ráðstefnunni voru sextán talsins, flestir á vegum NordGen en einnig fáeinir erlendir nemar við Háskóla Íslands. Að loknum erindum þennan fyrri dag ráðstefnunnar var haldið í Vaglaskóg þar sem kynnt var fræframleiðsla Skógræktarinnar og kynbótastarf með lerki, fjallaþin og stafafuru.
Beit og framrás skóga
Margt bar á góma á seinni degi ráðstefnunnar. Sæmundur Þorvaldsson kynnti verkefnið Búskaparskógrækt í Vestur-Húnavatnssýslu sem þykir hafa tekist vel og aukið áhuga bænda í hefðbundnum búskap á að nýta kosti trjáræktar til stuðnings öðrum búgreinum. M.a. vöktu athygli tilraunir með að rækta lerkiskóg á beittu landi án girðingar sem ættu að gefa niðurstöður innan fárra ára. Guðríður Baldvinsdóttir tíundaði í erindi sínu niðurstöður tilrauna sinna með mismikla beit á 0-4 m hátt rússalerki þar sem komu í ljós litlar sem engar skemmdir á trjánum vegna fjárins.
Stórkostleg framrás villts birkis á Skeiðarársandi var umfjöllunarefni Kristínar Svavarsdóttur sem sýndi m.a. myndir af nokkurra metra háum birkitrjám þar sem vart var birkihríslu að sjá fyrir 15-20 árum. Þór Kárason talaði um árangur landgræðslu og skógræktar á Hólasandi og benti á að ef nota ætti lúpínu við skógrækt á auðn þyrfti að gróðursetja trjáplönturnar í tengslum við sáningu lúpínunnar svo að trjágróðurinn ætti meiri möguleika í samkeppninni við hana um ljósið.
Mikilvægt að gróðursetja lerki þétt?
Í fróðlegum fyrirlestri sagði Brynja Hrafnkelsdóttir frá skaðvöldum sem herja æ meir á íslenskt birki og einkum birkikembunni, mismiklum áhrifum hennar eftir kvæmum og tíundaðir líka útbreiðslu kvikindisins á landinu. Einnig var fróðlegt erindi Lucile Delfosse með spá um lifun grenitrjáa í ungskógum á Íslandi þar sem hún beitti tölfræðilegu líkani. Líkanið sýnir vel hvað frostpollar á láglendi geta reynst sitkagreninu skeinuhættir en lífslíkur þess eru mun meiri í hæðóttu landi og brekkum þar sem gætir skjóls. Bjarki Þór Kjartansson sagði frá drögum að spám um hvar birkiskógar eru líklegir til að geta vaxið á Íslandi á komandi áratugum. Þær sýna að birkið á eftir að geta vaxið um mestallt landið, þar á meðal á Sprengisandi. Lárus Heiðarsson sýndi niðurstöður þéttleikatilraunar í rússalerki á Héraði sem benda til þess að þéttir reitir skili mun meiri vexti á fyrstu 16 árunum en gisnari reitir og samkvæmt því er mikilvægt að gróðursetja lerkið þétt.
Mikil binding aspar á framræstu landi
Eftir hádegi síðari dag ráðstefnunnar vakti mikla athygli fyrirlestur Brynhildar Bjarnadóttur sem Bjarki Þór Kjartansson, samstarfsmaður hennar, flutti í fjarveru Brynhildar. Um þessar mundir eru að koma niðurstöður úr rannsóknum þeirra Brynhildar, Bjarka og Bjarna Diðriks Sigurðssonar á loftslagsáhrifum skógræktar á framræstu mýrlendi. Þetta eru niðurstöður sem beðið hefur verið eftir um bindingu aspanna í hlutfalli við losunina frá framræsta landinu. Í stuttu máli kemur í ljós að bindingin á þeim tveimur árum sem mælingar fóru fram var gríðarmikil. Nettóbinding (heildarbinding að frádreginni losun) nam yfir 20 tonnum á hektara á ári en asparskógurinn er í fullum vexti.
Traktorar og brunavarnir
Valdimar Reynisson sagði því næst frá ferð sem nokkrir skógræktarmenn fóru til Finnlands á dögunum í boði Jötuns. Þar bar margt fyrir augu en einkum var tilgangur ferðarinnar að kynnast notkun dráttarvéla við vélgrisjun skógar með krana og fellihaus. Aðferðin þykir nokkuð álitleg því kominn er góður búnaður á dráttarvélar sem gerir auðvelt að nota þær bæði til að grisja og draga út úr skógi. Þetta ætti því að auka notkunarmöguleika dráttarvéla í skógarvinnu og með þessu má víða komast af án sérhæfðra höggvéla. Síðasta erindið á ráðstefnunni fluttu nafnarnir Björn B. Jónsson og Björn Traustason erindi um brunavarnir í skógi. Sagt var frá fyrstu brunavarnaráætluninni fyrir skóga og annan gróður sem gerð er hérlendis, bæklingi sem er í vinnslu og nýjum vef um málefnið, grodureldar.is, sem opnaður verður á næstunni.
Tæki til skógarvinnu voru kynnt og hér er skeggrætt um kosti þeirra.
Mikil fjölmiðlaathygli
Talsvert var fjallað um skógrækt í íslenskum fjölmiðlum dagana í kringum Fagráðstefnuna. Fréttablaðið fjallaði t.d. um þær hugmyndir sem stofnanir og samtök í skógrækt hafa haldið á loft undanfarna mánuði um fjórföldun skógræktar til bindingar gróðurhúsalofts og styrkingar byggðar í landinu. Þá var fjallað í Bændablaðinu um nýja könnun sem sýnir yfirgnæfandi fylgi við skógrækt meðal landsmanna, Morgunblaðið fjallaði um brunavarnir í gróðurlendi og mikla bindingu asparskógar í framræstu landi, Ríkisútvarpið um tilraunir með sauðfjárbeit í ungum lerkiskógi og góðan vöxt lerkiblendingsins Hryms. Fleira mætti nefna af aðsendum greinum og fréttum sem tengjast skógrækt sem birst hafa undanfarna daga og vikur og ekki annað að sjá en vaxandi áhugi sé á skógrækt í landinu.
Efni aðgengilegt á vefnum
Skyggnur flestra íslensku fyrirlesaranna hafa nú verið birtar á vef Skógræktarinnar ásamt ráðstefnuriti með útdráttum úr erindum o.fl. Skyggnur erlendu fyrirlesaranna hafa verið birtar á vef NordGen og hlekkir eru einnig komnir á ráðstefnusíðu Skógræktarinnar.
Fagráðstefna skógræktar verður næst haldin í Valaskjálf á Egilsstöðum dagana 3-4. apríl 2019. Að Fagráðstefnu skógræktar standa auk Skógræktarinnar Skógfræðingafélag Íslands, Skógræktarfélag Íslands, Landssamtök skógareigenda og Landbúnaðarháskóli Íslands.