Fjölmenni var á málþingi um Hekluskóga sem samráðsnefnd þess verkefnis hélt í sal Íslenskrar Erfðagreiningar miðvikudaginn 12. október. Í samráðsnefnd um Hekluskóga sitja fulltrúar landeigenda á Hekluskógasvæðinu, Landgræðslu ríkisins, Landgræðslusjóðs, Skógræktarfélaga Árnesinga og Rangæinga, Skógræktar ríkisins og Suðurlandsskóga.

Málþingið var haldið í tilefni af því að uppi eru hugmyndir um ræktun skóga á miklu landflæmi í nágrenni Heklu sem þekur um 90 þúsund hektara lands eða tæpu 1% Íslands.

Með því að koma upp birkiskógum á svæðinu er ekki aðeins verið að varna því að gjóska frá Heklu valdi skaða á byggðum og náttúru, heldur er einnig verið að endurheimta hluta þeirra vistkerfa sem þarna hafa glatast.

Málþingið setti Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. Þvínæst var sýnd stutt kynningarmynd um Hekluskógaverkefnið sem Profilm gerði. Árni Hjartarson flutti fróðlegt erindi um gossögu og vá tengda Heklu og Sveinn Sigurjónsson bóndi á Galtalæk rakti sögu skóg- og gróðureyðingar og uppblásturs á Hekluslóðum. Ása L. Aradóttir og Hreinn Óskarsson, fulltrúar í samráðsnefndinni um Hekluskóga, fjölluðu ítarlega um hugmyndafræði verkefnisins og lögðu fram skýrslu þar að lútandi.

Að loknum framsögufyrirlestrum fóru fram pallborðsumræður og að þeim loknum sleit Guðni Ágústsson landbúnaðaráðherra málþinginu.

Skýrslu um verkefnið má nálgast hér

og myndir af þinginu má sjá á www.skog.is