Fjölmennur fundur í Ártúnsskóla 31.ágúst 2004
Lesið í skóginn og grenndarskógar


Nemendur Ártúnsskóla sungu við mikla hrifningu gesta


Ellert Borgar Þorvaldsson, skólastjóri sagði frá opnun grenndarskógar Ártúnsskóla 8. júní 2004 og áætlunum skólans í að nýta grenndarskóginn. Skólinn byggir á langri umhverfismennt og er kominn með markmið, verkefnalista og áætlanir um þverfaglega samþættingu í skólastarfinu til að nýja skólastofan ? grenndarskógurinn nýtist sem best.

Anna Oddsdóttir, smíðakennari sagði frá kennsluáætlun og fyrirhuguðum áherslum um nám í grenndarskóginum og áætlunum um rannsóknarvinnu í grenndarskóginum sem tengist mörgum námsgreinum.

Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins kynnti verkefnið Lesið í skóginn. Á landsbyggðinni eru nú 6 Skógarskólar og 1 í Reykjavík en 4 skólar eru komnir með grenndarskóg í Reykjavík. Kennurum verður boðið á námskeið á Heiðmörk. Áhersla verður lögð á að styðja við verkefnið með skólanámskeiðum fyrir þá skóla sem eru staðráðnir og virkir í að samþætta grenndarskóginn í skólastarfið. Búið er að opna gátt á netinu: skogur.is sem á að hafa gagnvirkt gildi.

Guðrún Þórsdóttir stjórnaði fundinum. Nokkrir sögðu frá reynslu í sínum skólum. Nemendur í Öskjuhlíðaskóla bjuggu meðal annars til skýli og búið er að setja upp bekki í grenndarskóg skólans úr efni sem kom tilskorið frá Umhverfis- og heilbrigðisstofu. Einnig hafa nemendur selt unnar afurðir úr grenndarskóginum. Vesturbæjarskóli á grenndarskóg í Hólavallagarði og þar bætist sögufræðsla við rannsóknir á könglum, nýtingu greina og að hlusta á fuglana.

Nauðsynlegt er að búa til kort um grenndarskógaskólana svo skólar geti skipulag grenndarskógagöngur milli skóla. Enginn grenndarskógur eða skóli er eins og því er um að gera að nýta sér sérstöðu hvers skógar og styðja við breytileikann. Kennurum var bent á að safna leikjum sem má nota í skógi.
Helsti árangur grenndarskógarins á að vera sá að nemendur læri að njóta og nýta umhverfi sitt og öðlist löngun til að bæta umhverfi sitt það sem eftir er ævinnar.

Næsta námskeið verður fimmtudaginn 30. september kl. 13:00 ? 16:30. Staður síðar.
Skráning er á netfang: oli@skogur.is eða í síma 8630380.
Innihald: Unnið á 5 ólíkum lærdómsstöðvum með áherslu á að efla öryggi kennarans.

Ljósmyndir: Ólafur Oddsson
Texti: Guðrún Þórsdóttir og Ólafur Oddsson