Í grenndarskógi Flúðaskóla söfnuðu nemendur í 8. bekk nýverið birkisafa til að búa til að heilsudrykk. Í leiðinni var bakað brauð yfir eldi og útiverunnar notið í blíðskaparveðri, enda stóð ekki á birkitrjánum að skila vökvanum í flöskurnar sem fylltust mjög hratt.

Við skýlið mátti sjá tvær kistur undir grind sem notaðar eru sem sæti og fráleggsborð í útináminu en í annarri er geymdur eldiviður og í hinni ýmiss tól sem m.a. eru notuð í stærðfræðinámi. Þar er um að ræða keilur ýmis konar sem nemendur tóku þátt í að búa til. Á þeim eru tölur og voru þar einnig teningar sem notaðir eru í stærðfræðinni og öðru námi.

Flúðaskóli er einn af fyrstu skólunum til að taka þátt í verkefninu Lesið í skóginn (LÍS) og ekki er að sjá annað en hann sé í forystusveit útinámsskóla á Íslandi. Grenndarskógurinn er mikið notaður allt skólaárið, af mörgum kennurum og tengist um leið ólíkum fögum og aldurshópum nemenda.


frett_05052009(2)

frett_05052009(3)

frett_05052009(4)