Arnór Snorrason, deildarstjóri loftslagsdeildar rannsóknasviðs Skógræktarinnar, segir Magnúsi Hlyn Hreiðarssyni fréttamanni frá því að skógarþekja á Íslandi sé nú komin yfir tveggja prósenta markið. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Vel heppnaðri fagráðstefnu skógræktar 2022 lauk á Hótel Geysi í gær, miðvikudag, og lýstu þátttakendur mikilli ánægju með viðburðinn. Fjölbreytt erindi voru flutt seinni dag ráðstefnunnar þar sem áhugaverðar niðurstöður komu fram, meðal annars að nú væri skógarþekja á Íslandi komin yfir 2%. Í lok ráðstefnunnar var tilkynnt að hún yrði næst haldin á Ísafirði í mars 2023.
Á dagskrá síðari dags fagráðstefnu skógræktar á Hótel Geysi fjallaði Berglind Ósk Alfreðsdóttir hjá RML um ýmis tækifæri sem felast meðal annars í ræktun skóga og skjólbelta á löndum bænda í verkefninu Loftslagsvænum landbúnaði. Í framhaldi af því fjallaði Arnór Snorrason, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, um bindingu og losun gróðurhúsalofttegunda skóglenda í fortíð, nútíð og framtíð. Niðurstöður spár sem gerð hefur verið um útbreiðslu skóglendis á Íslandi sýna að ræktaðir skógar munu rúmlega tvöfaldast fram til ársins 2040 og náttúrulegir skógar munu bæta við sig 12.000 hekturum. Flatarmál skóga og kjarrs á Íslandi er áætlað um 260.000 hektarar árið 2040 (2,6% af flatarmáli Íslands). Steinunn Garðarsdóttir hjá Landbúnaðarháskóla Íslands fjallaði um tilraunir með aðferðir við að endurheimta staðargróður á framkvæmdasvæðum til að draga úr áhrifum framkvæmda á yfirbragð lands. Því næst fjallaði Elísabet Atladóttir, aðstoðarmaður sérfræðinga á rannsóknasviði Skógræktarinnar, um endurkortlagningu ræktaðra skóga á Íslandi. Þar kom meðal annars fram að nú hefur samanlagt skóglendi á Íslandi, villt og ræktað, náð tveimur prósentum af flatarmáli landsins sem má telja nokkur tímamót. Síðasta erindið fyrir kaffihlé fjallaði um notkun dróna og LiDAR-tækni til að mæla lífmassa skóga. Tryggvi Stefánsson frá Svarma fór yfir þau mál og sýndi hvernig þessi tækni getur með frekari þróun gert skógmælingar auðveldari, fljótlegri, nákvæmari og hagkvæmari.
Helmingur bindingar í jarðvegi
Að loknu morgunkaffi fór Lárus Heiðarsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, yfir vaxtarjöfnur fyrir sitkagreni sem m.a. nýtast til að skipuleggja ræktunina með tilliti til markmiða um viðarvöxt og kolefnisbindingu. Gústaf Jarl Viðarsson hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur sagði frá verkefni þar sem metin var kolefnisbinding með skógrækt á Heiðmörk, Nesjavöllum og Ölfusvatni. Þetta var öðrum þræði reynsluverkefni um hvernig meta má bindingu fyrir einstaka skógareigendur en meðal áhugaverðra niðurstaðna var ekki síst hversu mikil binding mældist í jarðvegi þessara skóga. Hún reyndist álíka mikil og í lífmassa skóganna. Frekari rannsókna er þörf en þetta gefur vísbendingu um að íslenskir skógar bindi mögulega enn meira kolefni en áætlað hefur verið til þessa. Því næst fjallaði Páll Sigurðsson, doktorsnemi og brautarstjóri við LbhÍ, um áhrif jarðvegshlýnunar á umsetningu fínróta í sitkagreni. Þar er nýtt til rannsókna svæði í Hveragerði þar sem jarðvegur hlýnaði í kjölfar Suðurlandsskjálfta og út frá þeim má fá vísbendingar um hvað gerist þegar hitnar á jörðinni með loftslagsröskuninni. Í ljós kom að með hlýnun jarðvegs minnkaði magn fínróta og umsetning þeirra ókst sem hefur áhrif á tilurð lífræns efnis neðanjarðar. Christine Palmer, dósent við háskólann í Vermont, fjallaði um rannsóknir sínar á sveppa- og örverulífi í jarðvegi nýrra skóga sem nýst gætu til aukins árangurs í skógrækt. Frumniðurstöður hennar á sýnum sem tekin voru víða um land benda til að hagnýtrar vitneskju sé að vænta á því sviði.
Sunnlenskt birki best um allt land
Eftir hádegisverð fjallaði Hallur S. Björgvinsson, skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni, um áhrif skjóls á nærviðri og plöntuvöxt þar sem hann sýndi augljósa kosti skjólbelta fyrir blaðvöxt og þrif birkiplantna sem nutu skjólsins. Björn Traustason fjallaði um rannsóknir á því hvort trjáplöntur gætu vaxið í beitarhólfi á Mosfellsheiði. Rannsóknirnar benda til að núverandi beitarálag hafi svo mikil áhrif að þar sé ekki vænlegt að ráðast þar í skógrækt að óbreyttu. Björk Kristjánsdóttir skógfræðingur fjallaði um rannsókn sína á dreifingu, magn og spírun stafafurufræs í rjóðurfelldum reitum í Norðtunguskógi. Hún komst að því að líklega hefði afrán á fræi og fræplöntum áhrif ellegar skortur á fræsetum sem henta til öruggrar spírunar. Jarðvinnslu væri því þörf við þessar aðstæður til að ýta undir endurnýjun skógarins. Brynjar Skúlason, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, greindi frá niðurstöðum á mælingum svokallaðrar Rarik-tilraunar á íslenskum birkikvæmum þar sem í ljós koma miklir yfirburðir birkikvæma af Suður- og Suðausturlandi í öllum landshlutum. Síðastur fyrir síðdegiskaffið var Valdimar Reynisson, skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni, sem sýndi góðan árangur af gróðursetningu á degli í stormföllnum reit í Stálpastaðaskógi í Skorradal. Tré sem gróðursett voru 2016 lifa vel og eru sum hver komin í 130 sentímetra hæð með myndarlega árssprota. Niðurstaða Valdimars var að degli væri framtíðartegund sem komið væri að því að huga meira að.
Skógrækt dró ekki úr líffjölbreytni
Eftir kaffi fjallaði Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, um náttúrulega óvini meindýra á trjám og fór meðal annars yfir mögulegan innflutning á slíkum óvinum og allt sem taka þyrfti tillit til ef slíkt kæmi til greina. Guðríður Baldvinsdóttir hjá Landbúnaðarháskóla Íslands fjallaði um TreProX-verkefnið um aukin viðargæði í skógrækt og úrvinnslu skógarafurða og síðasta erindið flutti Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LbhÍ, um líffjölbreytni æðplantna í Tilraunaskóginum í Gunnarsholti. Í þessum rannsóknum kom m.a. í ljós að tilkoma skógarins hefur ekki dregið úr líffjölbreytni á svæðinu.
Nánar má kynna sér erindin á síðu ráðstefnunnar þar sem er að finna útdrætti úr þeim öllum. Þá er stefnt að því að birta glærur fyrirlesaranna á síðunni að fengnu leyfi þeirra og jafnframt stendur fyrirlesurum til boða að birta ítarlegri útdrætti eða smágreinar í ráðstefnuriti sem kemur út á næstu mánuðum. Öll ráðstefnan var einnig tekin upp og verða myndbönd með fyrirlestrum og kynningum birt á Youtube eftir því sem leyfi fæst hjá höfundum.
Næsta ráðstefna á Ísafirði
Hreinn Óskarsson, sviðstjóri hjá Skógræktinni flutti samantektráðstefnunnar í lok hennar og áður en hann sleit henni tilkynnti hann að næsta fagráðstefna skógræktar færi fram að ári á Ísafirði. Um 150 manns tóku þátt í fagráðstefnu skógræktar 2022 sem fór fram við góðar aðstæður og í blíðviðri á Hótel Geysi í Haukadal. Skoðunarferð var farin fyrri daginn í Laugarvatnsskóg þar sem notið var samveru, veitinga og söngs Kórs Menntaskólans á Laugarvatni.