Álfheiður Ingadóttir, f.h. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.
Ræða flutt á stjórnmálafundi um skógræktarmál, Elliðavatni, 3. maí 2007.
Komið þið sæl og þakka ykkur fyrir ánægjulegan fund og mjög fróðleg og skemmtileg erindi. Ég vissi nú ekki að Guðni landbúnaðarráðherra væri ráðherra trésins, ég vissi ekki betur en að hann væri ráðherra hestsins og hesturinn er eitt af vandamálunum í gróðrinum okkar sem við þurfum að kljást við; það er sparkið eftir hrossin. En mig langar að fjalla hér um tvennt. Mig langar að benda á að hér er ekki pólitískur ágreiningur milli flokka um skógrækt sem slíka og mig langar til að óska ykkur kærlega til hamingju með ykkar kraftmikla félagsstarf og með þann mikla árangur sem þið hafið náð í ykkar störfum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er sérstakur flokkur að því leyti að við lítum til framtíðar. Við byggjum okkar afstöðu í öllum málum og stefnumörkun á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Og tímatal í sjálfbærri þróun eru mannsaldrar en ekki kjörtímabil. Þess vegna er það að við kynnum hér með stolti plagg sem ég lagt hér á nokkra bekki sem heitir „Græn framtíð“ og er gott lesefni líka eftir kosningar og kannski f.o.f. eftir kosningar. Vegna þess að þetta er ekki slagorðakennd, niðursoðin kosningastefnuskrá. Við erum líka með hana og hún er hér og þetta vil ég gjarnan að fólk taki með sér heim og kynni sér. Í þessu riti þá tökum við ekki einungis á þessari hefðbundnu náttúruvernd, heldur fjöllum við um meðal annars landnýtingu og víðernin okkar, náttúru og landslag, og gróður og jarðvegsvernd. Það er auðvitað freistandi að fara mjög ítarlega í þetta, en hér fjöllum við m.a. um það hversu dýrmæt íslensk náttúra er og hversu mikilvægt það okkar hlutverk er, sem nú lifum, að vernda hana og fjölbreytileika hennar, til langrar framtíðar. Við leggjum hins vegar áherslu á það, varðandi endurheimt lands, og landgræðslu og skógrækt, að þar sé gerður nokkur greinarmunur annars vegar á því sem er endurheimt vistkerfa (eða vistheimt sem við köllum) og svo ræktun. Við leggjum líka áherslu á og gjöldum varhug við mikilli notkun innfluttra tegunda, hvort heldur er plantna eða dýra, þetta á líka við um skógrækt. Og við leggjum áherslu á að gjalda varhug við notkun erfðabreyttra lífvera í íslenskri náttúru. Við teljum mjög mikilvægt að vinna að endurheimt landgæða, skógrækt og landgræðslu, í samvinnu ekki aðeins við bændur heldur einnig við félagasamtök eins og ykkar, og við alla landeigendur, hvar svo sem þeir eru, sem og ferðamenn og sumarbústaðaeigendur. Þetta eru auðvitað þeir hópar sem mestu ráða um ásýnd landsins okkar þegar kemur til ræktunar.
Ég, fyrir mitt leyti, óttast svolítið þann tón sem nú er uppi varðandi eflingu skógræktar til að vega upp á móti fleiri álverum í landinu. Og það er ekki að ófyrirsynju að það er verið að fjalla hér um loftslagsmálin í sömu andrá og verið er að tala um skógrækt. Og vegna þess að það er ekki mikill ágreiningur um skógræktina að þá langar mig, ef ég má, að segja nokkur orð um loftslagsmálin. Það fór um mig svolítill kuldahrollur þegar ég heyrði það að alaskaöspin skili að meðaltali 10 tonnum CO2 á hektara á ári, en birkið innan við 2,5. Því ef menn ætla að pressa þá stefnu að auka skógrækt í því skyni að f.o.f. til þess að vega upp á móti loftslagsbreytingunum, þá vil ég nú heldur sjá það gert með íslensku birki heldur en með alaskaösp, jafnvel þó svo það sé svona miklu meira sem það skilar. Ég tel að við þurfum að horfa á loftslagsmálin í mjög víðu samhengi. Og í tillögum okkar hér leggjum við til að sett verði á laggirnar loftslagsráð sem fari yfir þessa útreikninga varðandi kolefnisbókhaldið okkar og leggi niður leiðir til þess að draga úr losun um 50-75% fyrir árið 2050 miðað við árið 1990. Það er verið að tala um að við eigum að standa við Kýótóbókunina. Þar er gert ráð fyrir 1600 þús. tonna losun vegna álvera, vegna orkufreks iðnaðar. Með þeim ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar er sýnt að það verður ekki minna en 2100 þús. tonn á ári. Við erum semsagt að sprengja Kýótóbókunina nú þegar. Ég vil líka vekja athygli á nýjum hugmyndum, nýjum rannsóknum, ekki bara þeirri sem Arnór var að nefna hér áðan um áhrif endurkasts á norðlægum slóðum til þess að draga úr hlýnuninni, heldur líka á rannsóknum sem sýna það að jökulleir sem jökulárnar okkar bera til hafs, bindur þar töluvert mikið af koldíoxíði. Fyrir nú utan að það hefur verið sýnt fram á að jökulleirinn skiptir töluverðu máli varðandi hrygningarstöðvar og uppeldisstöðvar þorsks og botnfiska. Þetta er eitt; annað er að í lónunum, einsog í Hálslóni. Þetta lón losar alveg gríðarlega mikið af koldíoxíði vegna þeirrar gróðureyðingar sem í því er fólgin þegar fellur til botns mikið af gróðri og jarðvegi sem rotnar og losar frá sér koldíoxíð. Þetta er mjög flókið samspil og af því ég er nú með skógræktarmönnum, sem ég veit að vilja hag landsins okkar sem bestan og mestan, þá vil ég hvetja til þess að við horfum á alla þessa þætti þegar við horfum til framtíðar, og til hlutverks skógræktarmanna í landinu. Þakka ykkur fyrir.