Guðni Ágústsson, f.h. Framsóknarflokksins.
Ræða flutt á stjórnmálafundi um skógræktarmál, Elliðavatni, 3. maí 2007.
Ég þarf nú ekki að verja mig hér í dag, því verkin sýna merkin. Ég hef verið ráðherra trésins í átta ár og meira gerst á Ísland í skógrækt en nokkru sinni fyrr nú síðustu árin. Til hamingju skógræktarmenn; þið eruð komnir á brautina.
Ég minnist þess þegar ég varð ráðherra, þá sagði ég strax eftir nokkra daga, þar sem að mesti frumkvöðull til að ná þjóðarsátt um skógrækt, þar sem að Frú Vigdís Finnbogadóttir var stödd - að skógrækt væri landbúnaður. Hún kom til mín og sagði: „Þetta hefur enginn landbúnaðarráðherra orðað svo fyrr. Þetta var rétt hjá þér; skógrækt um allan heim er landbúnaður.“ Skógrækt er landbúnaður um allan heim, hann er það hér, hann er líka yndi og áhugamál fjöldans. Þess vegna segi ég það við ykkur, svona sem eina hugsjón frá mínu hjarta, af því að Íslendingar elska sitt land, og vilja taka þátt í því að auðga náttúruna, hafa græna fingur og hver maður er betri sem kynnist landi sínu, fæst við moldina, býr eitthvað til og skilur eitthvað eftir sig.
Þessvegna er það mitt áhugamál og mín hugsjón, það ætti í rauninni að vera svo, að hver einasti Íslendingur væri nánast skyldugur til þess að vinna í náttúru Íslands á einherju tímabili ævi sinnar, kannski á aldrinum 14 til 18 ára, í 2-3 mánuði, það yrði tilhlökkun grunnskólaáranna, að komast í þessa vinnu. Hún þyrfti ekki að vera einsog sagt var forðum, einhver hernaður eða þegnskylduvinna. Við munum, þegar menn settu þá hugmynd fram forðum, að þá var hún kveðin í hel með þessari vísu:
Mikið yrði margur sæll
og myndi elska landið heitt,
Mætti hann í mánuð vera þræll
og moka skít fyrir ekki neitt.
Þetta yrði auðvitað að vera verk sem yrði borgað fyrir, nemandinn yrði að fá eitthvert kaup af ríkisins hálfu, eða til skólans hans fyrir ferðalagið og þetta gæti verið mjög áhugavert fyrir íslenska bændur, íslenska skógræktarmenn, svo ég tali ekki um fyrir íslenska þjóð að það myndi gefa henni mikið börnum okkar og unglingunum. Ég set þetta fram sem mína hugsjón.
Í dag er það svo, að 94% þjóðarinnar styður íslenskan landbúnað og íslenska bændur, elskar þeirra vörur og vilja sjá þá öfluga í sínu landi. Þannig að þessa þróun þakka ég fyrir og ég verð að segja það fyrir mig, að eitt skemmtilegasta verkefni mitt á síðustu árum hefur verið samstarfið við skógræktarmennina, skógræktarfélögin, skógræktarbændurna sem nú eru allt í einu orðnir um eitt þúsund á Íslandi. Íslenskir bændur eru í samstarfi við Skógrækt ríkisins og vísindamenn landshlutaverkefnanna, að planta nýrri auðlind á Íslandi sem verður kannski eftir 100 ár ein dýrmætasta auðlind þessa lands, einsog hjá frændum okkar Írum.
Eitt er víst, landið verður fallegra, það verður búsetulegra. Það fundum í héraðsskógaverkefnunum þegar þeim var hrint af stað, að þaðan flutti ekki fólk, landið hækkaði í verði og varð eftirsóknarverðara. Því er það hin pólitíska stefnumörkun sem átt hefur sér stað í gegnum landshlutabundnu skógræktarverkefnin, og þetta að fá loksins íslenska bændur, með sína þekkingu og sinn vélaflota, til þess að taka þetta verkefni að sér fyrir þjóð sína, og jafnframt að gefa skógræktarfélögunum, þúsundum manna um allt Ísland, tækifæri til að fá land, til þess að rækta skóg og taka þátt í þessu starfi. Að þessu höfum verið að vinna að á síðustu árum og gert með þeim markvissa hætti að nú er Ísland að skrýðast þeim skógi sem að æskunni um þarsíðustu aldamót dreymdi um og söng um og ég fagna því og styð ykkur.
Eitt mikilvægt verkefni er nú unnið að til viðbótar við landshlutabundnu skógræktarverkefnin, eru Hekluskógar, sem verður eitt merkilegasta vísindalega verkefnið hér á Íslandi; endurheimt á gamalli auðlind sem mun hafa mikla þýðingu á því svæði til að verjast Heklu gömlu, vikrinum, til að styrkja byggð, til þess að gefa öflugum einstaklingum sem eiga peninga tækifæri til þess að koma til hjálpar og leggja fram upphæðir til þess að auðga það svæði sem Hekla hefur oft leikið grátt. Þannig að ég segi hér við ykkur, að þeir peningar, 800 milljónir, sem nú fara til þessara verkefna, þeir eru að skila sér til þjóðarinnar. Skoðanakannanir hér sýna að það er sátt um þessi störf, þau störf sem koma til í kringum skógræktina. Menntað fólk hefur verið að flytja heim og setjast að á landsbyggðinni, hjá landshlutabundnu verkefnunum og Skógræktinni. Skógrækt ríkisins hefur nú annað hlutverk, hún er ekki með fólkið á ríkislaunum sem að plantar skóginum. Þar eru ráðgjafarnir og sérfræðingarnir, ásamt landshlutabundnu verkefnunum, sem hafa gríðarlega þýðingu. Þannig að hin gömlu grónu fyrirtæki, Skógrækt ríkisins og Landgræðsla ríkisins, hafa enn mikilvægara hlutverki að gegna en oft áður. Ég óska ykkur til hamingju með hvernig þetta hefur þróast.
Það hefur verið gaman að vinna með skógræktarfólkinu og við sjáum verulegan árangur sem er að eiga sér stað um allt land í þessu efni. Og það sem skiptir öllu máli, það er auðvitað sú mikla samstaða, sá mikli áhugi íslenskrar þjóðar sem skiptir okkur nú öllu máli til þess að halda áfram þessu mikilvæga verkefni. Þannig að það hefur verið gaman að vinna með ykkur og ég fer óhræddur hér úr þessu pallborði, því hér mun enginn skamma mig eða sækja að mér, menn vita að ég hef verið virkur með ykkur einsog íslenskum bændum, einsog íslenskri þjóð. Ég get sagt einsog Pétur heitinn í Vallanesi, sem var einhver skemmtilegasti stjórnmálamaður fyrir nokkrum áratugum, og sagði gamansögur á fundum. Hann var ekkert að standa í því að verja Sjálfstæðisflokkinn fyrir austan. Það fréttist suður. Það voru sendir menn austur á Hérað til að athuga hvað væri að kallinum, af hverji hann myndi ekki verja Sjálfstæðisflokkinn, þá sagði Pétur: „Þarf nokkuð að verja hann, hefur hann nokkuð gert af sér?“ Þannig að hér er Illugi og ætlar að verja mig. En ég þakka fyrir samstarfið við þingið, það hefur verið mér gott þessi ár sem ég hef verið landbúnaðarráðherra, og vonandi verð ég það áfram til þess að geta unnið með ykkur. En að lokum þetta, þakka samstarfið. Og ég sé vin minn, Ómar Ragnarsson, ég var að horfa á hans stóra merki, ég er bara með svona litið merki, og ég segi eins og kerlingin forðum: „Það er nú krafturinn og úthaldið sem skiptir máli en ekki stærðin“. Og ég segi hér við Ómar:
Ómar er enn óskrifað blað
í okkar pólitíska sigurverki.
Ekki þarf nokkur að efast um það,
að hann eflist eins og Guðni sterki.
Og svo ætla ég að færa honum merkið sem vinir mínir hafa gefið mér úr félagi áhugamanna um Guðna Ágústsson, Guðni sterki.