Bandarískir háskólanemar heimsækja Þjórsárdal

Háskólanemar frá Bandaríkjunum heimsóttur Þjórsárdalsskóg í lok febrúar og fræddust um sögu skóga og jarðvegseyðingu í Þjórsárdal. Hópurinn er hér á landi á vegum háskólafélags er kallast CELL (Center of Ecological Learning and Living) sem sendir ttvisvar á ári hóp nemenda til landsins til að læra um sjálfbærni og umhverfismál. Dvelja þau nokkrar vikur á Sólheimum í Grímsnesi. Hafa hóparnir t.d. heimsótt Hekluskógaverkefnið undanfarin ár, gróðursett trjáplöntur og borið áburð á sanda til uppgræðslu.

Flestir þessara nema stunda nám í umhverfisfræðum og eru frá ýmsum háskólum í Bandaríkjunum. Auk þess að fræðast um skóga, skógarnytjar og uppgræðslu vikra í Þjórsárdal unnu nemendurnir að því að klippa greinar frá gömlu þjóðleiðinni frá Skriðufelli sem liggur í gegnum Þjórsárdalsskóg, þaðan alla leið yfir Sprengisand, norður í Bárðardal. Skógrækt ríkisins þakkar CELL hópnum kærlega fyrir aðstoðina og komuna.

Sjá má vefsíðu CELL hér

Fróðleikur um Þjórsárdalsskóg


Myndir: Hreinn Óskarsson