Fræðslunet Suðurlands styrkir tvo unga vísindamenn - vinna að rannsóknum í skógrækt (Morgunblaðið, 18. desember 2004)


Tveir nemendur við líffræðiskor Háskóla Íslands, Jón Ágúst Jónsson og Margrét Lilja Magnúsdóttir, fengu vísindastyrk úr vísindasjóði Fræðslunets Suðurlands sem hélt hátíðarfund á dögunum. Styrkur úr sjóðnum er árlega veittur námsfólki sem vinnur að lokaprófsverkefni á háskólastigi. Verkefnið þarf að tengjast Suðurlandi og líklegt þarf að vera að það leiði til frekari rannsókna og atvinnuuppbyggingar. 
 
Vísindastyrkir afhentir; Ólafur Ragnar Grímsson ásamt verðlaunahöfunum, Margréti Lilju Magnúsdóttur og Jóni Ágústi Jónssyni.  Mynd: Morgunblaðið/Sigurður Jónsson

Þau Jón Ágúst og Margrét Lilja segja styrkinn kærkominn til þess að vinna frekar að verkefnunum. Bæði vinna að mastersverkefni til lokaprófs. Fræðslunetið hefur verið starfrækt í fimm ár og þetta er í þriðja sinn sem styrkir sem þessir eru afhentir. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti styrkina og fagnaði um leið þessari áherslu í starfi Fræðslunetsins.


Sjálfstæður háskóli
Mastersverkefni Jóns Ágústs nefnist: Áhrif skógræktaraðgerða á viðarvöxt og flæði kolefnis í asparskógi. Meginmarkmið þess er að auka skilning á skammtímaáhrifum skógræktaraðgerða, grisjun og áburðargjöf á kolefnisupptöku og viðarvöxt sunnlensks asparskógar og eru rannsóknirnar unnar í Gunnarsholti.
Mastersverkefni Margrétar Lilju nefnist: Áhrif glycinebetaine á seltu- og þurrkþol trjáplantna. Verkefnið er unnið í Þjórsárdal en Margrét er í rannsóknarteymi með aðstöðu í Garðyrkjuskóla ríkisins. Teymið stefnir að því að koma upp þekkingarmiðstöð á Suðurlandi á sviði trjáræktar í örfoka landi og á særokssvæðum.
Sveinn Aðalsteinsson, skólameistari Garðyrkjuskóla ríkisins og varaformaður stjórnar Fræðslunets Suðurlands, hvatti styrkþega til dáða í ávarpi til þeirra og sagði meðal annars að nauðsynlegt væri að stofna til sjálfstæðrar starfsemi háskóla á Suðurlandi og finna þar vettvang fyrir vísindastarfsemi.
Fræðslunet Suðurlands flutti í nýtt húsnæði í Fjölbrautaskóla Suðurlands síðastliðið haust og fékk um leið betri aðstöðu fyrir starfsemi sína. Það hefur yfir að ráða þremur stofum með fjarfundabúnaði en auk þess er fjarbundabúnaður á Flúðum, Aratungu, Hvolsvelli, Vík og Kirkjubæjarklaustri. Talið er að um 150 Sunnlendingar stundi fjarnám af einhverju tagi en 100 einstaklingar eru í námi á vegum Fræðslunetsins. Auk þess láta sífellt fleiri skólar Fræðslunetið sjá um próf en 430 próf hafa verið tekin á 6 stöðum á þessu ári. Fræðslunetið er í samstarfi við Háskólann á Akureyri um sérhæfðar námsbrautir og hafa kennarar komið frá Reykjavík til að kenna á þessum námsbrautum og þá hafa þeir kennt frá aðstöðu Fræðslunetsins á Selfossi.

Ásmundur Sverrir Pálsson starfsmaður Fræðslunetsins sagði fjölda starfstengdra námskeiða og tómstundanámskeiða í boði á hverju ári en Fræðslunetið hefði það markmið að hvetja fólk til náms. Hann benti á að 50 til 60 % vinnuafls á Suðurlandi væru ófaglærðir starfsmenn og sameiginlegt átak þyrfti til að rétta þann hlut. Hann sagði Fræðslunetið stefna að tilraunaverkefni árið 2007 með menntunarátaki.