Skólabörn úr Kópavogi við gróðursetningu í tilefni af vígslu fræðslumiðstöðvarinnar ásamt Bernhard J…
Skólabörn úr Kópavogi við gróðursetningu í tilefni af vígslu fræðslumiðstöðvarinnar ásamt Bernhard Jóhannessyni, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Kópavogs, Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra Kópavogs, Guðna Th. Jóhanessyni, forseta Íslands, og Kristni H. Þorsteinssyni formanni Skógræktarfélags Kópavogs. Ljósmynd: Kópavogsbær

Skógræktarfélag Kópavogs hefur í samvinnu við Kópavogsbæ opnað fræðslusetur í Guðmundarlundi í Kópavogi. Þar er fyrsta flokks aðstaða til útikennsla og lögð verður áhersla á náttúrulæsi, umhverfis- og náttúruvernd og áhrif loftslagsbreytinga á umhverfið.

Á vef Kópavogsbæjar segir frá því þegar fræðslusetrið var vígt við hátíðlega viðhöfn í kvöld á föstudaginn var, 30. ágúst. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs og Kristinn H. Þorsteinsson formaður Skógræktarfélags Kópavogs tóku til máls við athöfnina. Þá gróðursettu börn úr Kópavogi tré í lundinum við hið nýja setur með dyggri aðstoð forseta Íslands, bæjarstjóra og fulltrúa Skógræktarfélags Kópavogs.

Fræðslusetrið verður meðal annars nýtt af leik- og grunnskólum í Kópavogi en stefnt er að því að í Guðmundarlundi verði boðið upp á fyrsta flokks aðstöðu til útikennslu þar sem lögð verður sérstök áhersla á náttúrulæsi, umhverfis- og náttúruvernd og áhrif loftlagsbreytinga á umhverfið.

Á vef Kópavogsbæjar er haft eftir Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra að fræðslusetrið sé í samræmi við þá áherslu sem bærinn hafi lagt á útikennslu í skólastarfi í Kópavogi en í bænum séu útikennslustofur við alla skóla. „Þá er áhersla á umhverfismál og áhrif loftslagsbreytinga mikilvæg og í takt við innleiðingu bæjarins á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna,“ er haft orðrétt eftir Ármanni á vígsludeginum.

Húsið er í eigu Kópavogsbæjar og Skógræktarfélags Kópavogs en skógrækt hefur verið í Guðmundarlundi frá sjöunda áratugnum og er svæðið mjög vinsælt til útivistar.

Vígsla setursins var haldin í tengslum við aðalfund Skógræktarfélags Íslands sem fram fór í Kópavogi um helgina

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson