Fræ af flestum skógartrjám sem bera fræ á Íslandi
Nýr uppfærður frælisti er nú kominn á vef Skógræktar ríkisins. Frælistinn er lagfærður reglulega eftir því sem berst af fræi í fræbanka Skógræktarinnar í fræmiðstöðinni á Vöglum í Fnjóskadal. Nýr hnappur fyrir frælistann hefur verið settur á forsíðu vefsins skogur.is.
Á Vöglum í Fnjóskadal er fræmiðstöð Skógræktar ríkisins og þar er líka framleitt fræ af úrvalsbirki og lerkiyrkinu Hrym í stóru gróðurhúsi sem kallað er Fræhúsið. Fræmiðstöðin á Vöglum selur trjáfræ af flestum skógartrjám sem bera fræ á Íslandi. Á listanum er nú til dæmis fræ af ilmbjörk frá 21 stað á Íslandi (Betula pubescens), steinbjarkarblendingur frá Tumastöðum og úr Múlakoti (Betula ermanii x pubescens), nokkrar tegundir af elri frá sömu stöðum, mest af sitkaelri (Alnus sinuata). Nefna má auk ilmreynis knappareyni (Sorbus americana) og úlfareyni (Sorbus x hostii), auðvitað líka hið frábæra lerkiyrki ,Hrym' og svo mýrarlerki, líka fjallaþin, rauðgreni og að sjálfsögðu sitkagrenifræ sem tekið hefur verið af trjám á einum tíu stöðum hérlendis. Nokkrar furutegundir eru á listanum og loks er gaman að nefna fræ af tveimur tegundum eðallauftrjáa sem þarna eru á lista. Þar er bæði askur (Fraxinus excelcior) og garðahlynur (Aceer pseudoplatanus). Fræin eru af trjám sem vaxa á Tumastöðum og í Múlakoti.
Fyrirferðarmest í starfsemi fræmiðstöðvarinnar á Vöglum er framleiðsla á fræi af lerkiyrkinu ,Hrym' sem er blendingur af rússalerki og evrópulerki. Þetta yrki hefur reynst mjög vel, ekki síst þar sem lerkirækt hefur gengið illa hérlendis, á Suður- og Vesturlandi. ,Hrymur' þolir betur návígið við hafið og það sem því fylgir.
Einnig hefur komið í ljós að þetta yrki vex betur en það rússalerki sem mest hefur verið ræktað hérlendis og jafnvel óhætt að tala um að það vaxi margfalt betur þegar best lætur. Trén verða líka beinvaxnari og fallegri og vonir standa til þess að þetta yrki geti gefið meira viðarmagn og hraðar, jafnvel þannig að vaxtarlota lerkis í íslenskri nytjaskógrækt verði umtalsvert styttri en áætlað hefur verið með lerki hingað til. Bjartsýnustu menn tala um að hugsanlega megi fá borðvið með þessu yrki á 50 árum en þetta á eftir að koma betur í ljós.
Hvað sem því líður er ljóst að sú fræframleiðsla sem nú er á Vöglum stendur ekki undir þeirri eftirspurn sem útlit er fyrir að verði og því er gert ráð fyrir að auka við framleiðsluna á næstu árum, hætta birkifrærækt í Fræhúsinu og fylla húsið af lerki. Mögulega þarf svo að bæta við öðru fræhúsi á komandi árum til að auka enn framleiðsluna enda er langt þangað til hægt verður að safna fræi af ,Hrym' í stórum stíl í íslenskum skógum.
Nokkuð hefur borið á því að jafnvel reynt ræktunarfólk viti ekki af þessari þjónustu Skógræktar ríkisins og því er vakin sérstök athygli á henni hér. Þjónusta fræmiðstöðvarinnar er öllum opin og aðgengileg.
Nánari upplýsingar gefur Valgerður Jónsdóttir, umsjónarmaður fræmiðstöðvarinnar. Vinnusími hjá henni er 461-5640 eða 862-7854. Einnig má senda fyrirspurnir og pantanir á netfangið valgerdur[hjá]nls.is.
Fleiri hafa áhuga á fræjum skógartrjáa en skógræktarfólk. Hér nælir auðnutittlingur sér í furufræ.
Þetta er karlfugl í vorskrúða enda myndin tekin í aprílmánuði.