Veggspjald til kynningar á ráðstefnu EFI í París þar sem rætt verður um leiðir að kolefnishlutlausu samfélagi með aukinni áherslu á skógrækt og nýtingu skógarafurða í orkuframleiðslu, framkvæmdum og samgöngum.
Evrópska skógastofnunin EFI heldur ráðstefnu í París
um leiðir að kolefnishlutlausu samfélagi
Í tengslum við stóru loftslagsráðstefnuna í París í byrjun desember stendur evrópska skógastofnunin EFI fyrir ráðstefnu 1. desember þar sem spurt verður hvað evrópskir skógar og skógargeirinn um allan heim geti lagt til málanna svo ná megi settum markmiðum í loftslagsmálum. Meginspurningin er hvernig heimurinn geti orðið kolefnishlutlaus í orkumálum, framkvæmdum og samgöngum.
Markmið loftslagsráðstefnunnar í París er að þjóðir heims komist að bindandi samkomulagi um aðgerðir í loftslagsmálum. Í fyrri loftslagsviðræðum hefur fólk náð saman um að kolefnisbinding skóga sé mikilvægur þáttur í baráttunni við loftslagsbreytingar af manna völdum. Þar með hafa skógarmálefni fengið fastan sess í viðræðunum. Samt sem áður þykja allir þeir möguleikar sem skógargeirinn í heild hefur fram að færa í loftslagsmálunum ekki enn hafa hlotið nægilegan hljómgrunn í umræðunum.
Bent er sérstaklega á þann mikilvæga þátt sem skógargeirinn geti átt í því að sett markmið náist vegna þess hversu mikið hann leggur til lífhagkerfisins eða lágkolvetnissamfélagsins.
Í Evrópu og mörgum öðrum hlutum heimsins er orku- og framkvæmdaiðnaðurinn ábyrgur fyrir bróðurpartinum af losun gróðurhúsalofttegunda. Enn þann dag í dag byggist starfsemi í þessum greinum að verulegu leyti á notkun jarðefnaeldsneytis - kola, jarðgass og olíu - hvort sem það er til brennslu eða sem hráefni í ýmiss konar framleiðslu. Þess vegna skiptir sköpum að tekið verði til hendinni á þessum sviðum í baráttunni gegn loftslagsbreytingunum. Taka þarf upp nýja orkugjafa og nýjar byggingaraðferðir sem hafa litla kolefnislosun í för með sér samhliða því að fólk breyti lifnaðarháttum sínum og skipt verði yfir í kolefnishlutlausa orkugjafa í samgöngum.
Í Pódalnum á Ítalíu er þessi svartasparskógur (Populus nigra">) sem vex á ógnarhraða. Nokkurra metra aspargræðlingum var stungið í jörð og trén hafa náð þessari stærð á 6-8 árum síðan. Viðinn má nýta til ýmiss konar framleiðslu, sem orkugjafa, í byggingariðnaði eða til framleiðslu á eldsneyti til samgangna. Á Íslandi getur alaskaösp, (Populus trichocarpa">) gefið söluhæfan kurlvið á tuttugu árum og jafnvel smíðavið á litlu lengri tíma. Mynd: Ólafur Eggertsson.
Skógargeirinn getur átt þátt í því gegnum lífhagkerfið að öll þessi markmið náist. Skógarnir geta gefið bæði endurnýjanlega orku, hráefni og varning sem leyst getur olíu, gas og kol af hólmi.
Það er vissulega ekki svo að skógarnir eigi allsherjarlausnir á öllum þeim vandamálum sem glíma þarf við til að ná settum loftslagsmarkmiðum en þeir geta samt sem áður lagt mikilvægan skerf að þessum málum. Þar fyrir utan fylgir með í kaupunum að orkukerfi jarðarinnar verða sveigjanlegri og þola betur áhrif loftslagsbreytinga. Skógarhagkerfi stuðlar líka að hagvexti og skapar störf víða um lönd, sérstaklega til sveita.
Ráðstefnan Climate policy targets: How can European forests contribute? er haldin á vegum evrópsku skógarstofnunarinnar EFI, European Forest Institute. Markmið hennar er að taka saman og miðla þekkingu um þessi efni og efla samstarf með það að markmiði að umbreyta orkukerfum, framkvæmdagreinum og samgöngum í Evrópu, en líka heiminum öllum, þannig að þessar meginstoðir nútímasamfélags verði kolefnishlutlausar og betur búnar undir ýmsar sveiflur og breytingar sem vænta má á komandi tíð. Megináhersla er lögð á að taka vísindin til kostanna og virkja þau til athafna. Á ráðstefnunni verður spurt: Hvernig getum við fetað veginn áfram og mótað stefnu og aðferðir til að liðka fyrir þessari umbreytingu?
Ráðstefna EFI í París fer fram 1. desember og fundarstjóri verður Göran Persson, forseti EFI og fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar. Hér má sjá myndband þar sem Gert-Jan Nabuurs, prófessor við Alterra-stofnun Wageningen UR háskólans í Hollandi talar um þetta málefni sem nú er ofarlega á baugi í heiminum.
A new role for forests and the forest sector in climate targets
Hagnýtar slóðir