Ný bók á vegum Future Forests
Útlit er fyrir að bitist verði um skógana á Norðurlöndunum á komandi árum. Vaxandi eftirspurn eftir viði á heimsmarkaði togist á við kröfuna um bindingu koltvísýrings og umhverfissjónarmið. Um þetta er fjallað í bók sem kom út nýlega hjá Springer-forlaginu
Bókin heitir á ensku „The Future Use of Nordic Forests – A Global Perspective“, sem útleggst sem nýting norrænna skóga í framtíðinni í alþjóðlegu samhengi. Hún kemur út á vegum Future Forests sem er þverfagleg rannsóknaráætlun á vegum sænska landbúnaðarháskólans SLU, háskólans í Umeå og sænsku skógrannsóknarstofnunina Skogforsk. Áætlun þessi nýtur fjármagns frá Mistra sem er stofnun um brýnar umhverfisrannsóknir, sænska skógariðnaðinum og samstarfsaðilum þeirra.
Í bókinni er kafað ofan í þau viðfangsefni sem við er að etja nú þegar og þau sem útlit er fyrir að skógareigendur og stjórnvöld, meðal annars á Norðurlöndunum, þurfi að kljást við á komandi árum. Annars vegar er litið til Svíþjóðar, Finnlands og Noregs og hins vegar til sambærilegra svæða annars staðar, svo sem í Kanada.
Ritstjórar bókarinnar eru þrír, Erik Westholm, prófessor við sænska landbúnaðarháskólann SLU, Karin Beland Lindahl, dósent við tækniháskólann í Luleå, og Florian Kraxner, yfirmaður deildar um vistkerfisþjónustu og -stjórnun hjá IIASA-stofnuninni í Austurríki. Ásamt þeim skrifa sjö sérfræðingar í bókina. Í frétt um útkomu bókarinnar á vef SLU er haft eftir Florian Kraxner að þau þremenningarnir hafi tekið að sér að skrifa bókina til þess að komast að því hver helstu viðfangsefnin yrðu í norrænu skógunum á komandi árum en einnig að meta áhrif skóganna á vistkerfið og þjónustu skóganna við samfélag manna.
Skógariðnaður er rótgróinn í Skandinavíu og mikilvægur hluti af hagkerfi landanna. Pappír og viður er fluttur þaðan út um gjörvalla Evrópu. En nú eru breytingatímar í heiminum sem valda vaxandi togstreitu um skógana og skógariðnaðinn. Talið er að breytingar í samfélögum um allan heim muni auka eftirspurn eftir auðlindum skóganna um leið og ásókn eykst eftir landi til annarra nota, svo sem landbúnaðar og lífeldsneytisframleiðslu. Stafræna byltingin og breyttar framleiðsluaðferðir þýða líka að erfiðara er orðið að áætla eftirspurnina.
Rannsóknir leiða æ betur í ljós hversu mikilvægt hlutverk norðlægir skógar hafa í heiminum, ekki síst það hlutverk að binda koltvísýring úr andrúmsloftinu og hamla gegn loftslagsbreytingum. Þar fyrir utan metur fólk sífellt meir gildi skóganna til útivistar og til varðveislu líffjölbreytni.
Erik Westholm segir í spjalli við vef SLU vandasamt að spá fyrir um þróun loftslagsbreytinganna eða hvernig brugðist verði við þeim. Þar með séu allar greinar sem reiða sig á náttúruauðlindir í mjög mikilli óvissu.
Leiðir til sjálfbærni
Svo að nýta megi skógana með sjálfbærum hætti við þessar aðstæður duga ekki hefðbundnar aðferðir eða vinnubrögð skógargeirans að mati bókarhöfunda. Því eru lagðar til nýjar aðferðir. Jafnvel þótt norrænu ríkin séu þekkt fyrir sjálfbærar skógarnytjar er bent á að skógargeirinn sæti vaxandi gagnrýni. Til dæmis er gagnrýnt að viðteknar aðferðir hafi ekki dugað til að viðhalda líffjölbreytni. Erik Westholm segir að norræna skógalíkanið hafi brugðist. Með þeim aðferðum sem beitt hafi verið hafi ekki tekist að ná settum umhverfismarkmiðum. Aðferðirnar hafi heldur ekki dugað til að sætta sjónarmið skógariðnaðarins og þeirra sem talað hafa fyrir umhverfislegum hagsmunum.
Vaxtarlotan í norðlægum skógum er að jafnaði 80 til 100 ár áður en að lokauppskeru er komið. Því er nauðsynlegt að gera áætlanir langt fram í tímann. Í bókinni nýju er kafað ofan í rannsóknir á líforku, þróun mannfélaga, félagslegum og efnahagslegum breytingum, samkeppni um landnýtingu, loftslagsstefnu og öðrum mikilvægum þáttum sem snerta skógargeirann. Með þessu er reynt að gefa hugmynd um hvaða stefnu hlutirnir muni taka í framtíðinni.
Jafnframt eru í bókinni tíundaðar ýmsar leiðir sem færar séu til stjórnar þessum málum. Ein leiðin sé að taka stefnuna á fjölþætt grænt hagkerfi þar sem skógarnir gefa af sér margvíslegar afurðir en veita um leið ýmsa vistkerfisþjónustu sem snertir útivistarmöguleika, líffjölbreytni og loftslagsmál. Önnur leið sé að leggja áherslu á framboð afurða úr skógunum en fórna í staðinn möguleikum skóganna til að veita annars konar þjónustu eða verðmæti.
Ritstjórar bókarinnar benda á að togstreita um skógana muni að öllum líkindum aukast í framtíðinni frekar en hitt. Brýn þörf sé á víðtækri umræðu meðal almennings um þessi efni, hvert skuli stefna með skóga Norðurlandanna.
Í fyrrnefndri umfjöllun á vef SLU er líka haft eftir þriðja ritstjóra bókarinnar, Karin Beland Lindahl, stjórnmálafræðingi við tækniháskólann í Luleå, að með skilvirkri stjórn á alþjóðavísu og í hverju landi fyrir sig geti heimsbyggðin komið sér upp nægu skóglendi og landbúnaðarlandi til að standa undir þörfum komandi kynslóða. Nauðsynlegt sé að stjórnmálamenn taki nú þegar höndum saman um aðgerðir, bæði í alþjóðlegu samstarfi og norrænu.
Tilvísun í bókina:
Westholm E, Beland Lindahl K, Kraxner F, eds. The Future Use of Nordic Forests – A Global Perspective. (Springer, 2015). DOI 10.1007/978-3-319-14218-0