Dagana 19. – 22. ágúst verður ráðstefna samtakanna SNS (Samstarf um norrænar skógarrannsóknir) haldin í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Á fundinum kemur saman hópur fólks sem sér um skógarútektir, aðallega landsskógaútektir, og langtíma áætlanagerð. Meðal gesta eru nemar í doktorsnámi sem kynna rannsóknir sínar á þessu sviði. Hópurinn ber saman bækur sínar og skiptist á nýrri þekkingu. Þema fundarins verður aðlögun úttekta og áætlanagerðar vegna breytts veðurfars og landnýtingar, með áherslu á hvernig skógar hafa áhrif á veður og öfugt.

Fundir SNS hafa verið haldnir í áraraðir, annað hvert ár. Íslendingar hófu þátttöku í samstarfinu fyrir 4 árum síðan. Hvers vegna skiptir máli að taka þátt í norrænu samstarfi um skógarrannsóknir?


Jón Loftsson, stjórnarmeðlimur SNS frá Íslandi:
„Samstarf Norðurlanda í skógræktarrannsóknum hefur verið ómetanlegt fyrir íslenska skógræktarmenn. Við höfum orðið þátttakendur í rannsóknaverkefnum með vísindamönnum sem skara framúr á heimsvísu. Fyrir tilstuðlan þeirra höfum við orðið þátttakendur í bæði norrænum og evrópskum rannsóknarverkefnum þar sem við höfum verið fullgildir aðilar. Ísland, sem í dag er skógfátækasta land Evrópu, hefur uppá að bjóða aðstæður til rannsókna á breytingum í vistkerfum vegna gróðurhúsaáhrifa sem er eftirsóknavert fyrir aðrar þjóðir og því höfum við verið fullgildir og eftirsókaverðir samstarfsaðila í fjölda verkefna sem tengjast verkefnum um vistfræði skóga."

Niels Elers Koch, stjórnarmeðlimur SNS frá Danmörku:
„Eftirspurn eftir afurðum skógarins og þjónustu tengdum skógi eykst á sama tíma og vandamál í rannsóknum og þróun skógargeirans verða flóknari. Þörfin fyrir mikið og skilvirkt samstarf innan SNS hefur því aldrei verið jafn mikil. Skógarnir eru „græna gull” norrænna þjóða. Þar sem við eigum sameiginlegan menningarlegan bakgrunn, sama vistkerfi og stöndum frammi fyrir sömu vandamálunum, þá skilar norræn samvinna og verkaskipting mikilli samvirkni á norræna vísu."

Tróndur Leivsson, meðstjórnandi SNS frá Færeyjum:
„Þó það reynist litlum löndum oft erfitt að láta í sér heyra inna Evrópusambandsins, þá geta þau miðlað sérþekkingu sinni og reynslu til alþjóðasamfélagsins. Færeyjar henta vel til prófana á ræktun tjáa og runna í harðneskjulegu loftslagi. Sú reynsla sem við öflum okkur getur ekki aðeins nýst okkur, heldur líka öðrum samfélagum sem vilja auka þekkingu sína. Norræn samvinna gengur yfirleitt mjög vel, þar sem við höfum sömu gildi og það gerir okkur kleyft að deila niðurstöðunum með mun fleirum."