Áð í Langadal á Þórsmörk
Áð í Langadal á Þórsmörk

Gróður á Þórsmörk hefur mikið breyst á 80 árum

Við hleypum nú af stað nýrri myndasyrpu hér á vef Skógræktar ríkisins og köllum hana „Fyrr og nú“. Fyrsta myndaparið sendi Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi. Myndirnar eru teknar í Langadal á Þórsmörk. Sú eldri fannst í bókarslitrum. Myndir úr bókinni höfðu verið skornar úr en sjálf bókin glötuð, en glöggur sjálfboðaliði sem starfaði á Þórsmörk fann upprunalegu bókina á vefnum og heitir hún Across Iceland: The Land of Frost and Fire. Höfundur var Olive Murray Chapman og bókin kom út á árinu 1930. Lesa má bókina á netinu þótt myndir séu í lélegri upplausn. Smellið hér til að lesa.

Seinni myndina tók Hreinn Óskarsson nú í sumar frá svipuðu sjónarhorni og sést vel hvað birkið hefur sótt fram í Langadal á þessum rúmu áttatíu árum sem liðin eru frá því að eldri myndin var tekin. Þess má geta að þetta var eitt af best grónu svæðum Merkurinnar á sínum tíma og hefur framför birkiskóga víða um svæðið verið mun meiri en sést á þessari mynd. Til gamans eru báðar myndirnar hafðar í svart-hvítu en neðst fylgir litmynd sem Hreinn tók líka nú í sumar á svipuðum stað.

Lesendur vefsins eru hvattir til að senda inn myndir sem sýna skóglendi fyrr og nú. Víst er að hjá mörgum leynast slíkar myndir en svo er líka upplagt að skoða gamlar myndir og gera sér ferð með myndavél á sama stað til að smella af nýrri. Myndirnar má senda Skógrækt ríkisins á netfangið skogur@skogur.is.

 

Úr Langadal á Þórsmörk.

 

Texti: Pétur Halldórsson og Hreinn Óskarsson