Birkið veður upp vestan Fnjóskár
Hér eru tvær myndir teknar á nokkurn veginn sama stað og sjónarhorni í Vaglaskógi með 108 ára millibili. Á elleftu stundu var síðustu stóru birkiskógunum í landinu bjargað frá eyðingu og nú er birkið hvarvetna í sókn þar sem einhver fræforði er og beit hamlar ekki. Lengi vel var ekkert birki vestan Fnjóskár andspænis Vaglaskógi en nú veður það upp. Eldri myndina hér til hægri tók Christian E. Flensborg árið 1906 en yngri myndin næst fyrir neðan er tekin á sama stað í október 2014.
Skipulögð skógrækt á Íslandi hófst sem þróunaraðstoð frá Dönum. Danskur skipstjóri, Carl H. Ryder, sá að margir erfiðleikar sem fylgdu almennri fátækt á Íslandi stöfuðu af skógleysi. Hann fékk til liðs við sig skógfræðiprófessorinn Carl V. Prytz og skógfræðinginn Christian E. Flensborg, til að gera tilraunir með skógrækt á Íslandi á árunum 1899 til 1906. Árið 1905 hvöttu þeir hina nýju íslensku heimastjórn til að taka skógrækt á sínar hendur. Studdi Hannes Hafstein málið og barðist fyrir setningu laga þar um. Þeir Ryder og Prytz sömdu frumvarpið sem loks varð að lögum um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands 22. nóvember 1907. Á grundvelli þeirra var Skógrækt ríkisins stofnuð og tók hún til starfa 1. mars 1908. Frá upphafi var sandgræðslumaður starfsmaður Skógræktar ríkisins en árið 1914 skildi leiðir og frá því þróuðust Sandgræðslan, sem síðan varð Landgræðsla ríkisins, og Skógrækt ríkisins hvor í sínu lagi en þó sem systurstofnanir.
Helstu hlutverk Skógræktar ríkisins hafa frá upphafi verið vernd skóga og skógarleifa, ræktun nýrra skóga og fræðsla um skóga og skógrækt. Þegar Skógrækt ríkisins tók til starfa fékk hún í vöggugjöf Hallormsstaðaskóg, Vaglaskóg og umsjón með smáreitunum á Þingvöllum og að Grund í Eyjafirði. Vaglaskógur hafði náð athygli Dananna og var þegar búið að reisa litlar girðingar til undirbúnings gróðrarstöðvar svipað og gert var í Mörkinni á Hallormsstað. Strax var hafist handa við að friða skóginn í heild.
Vaglaskógur er að jafnaði beinvaxnari og hávaxnari en aðrir íslenskir birkiskógar. Allt frá því Skógrækt ríkisins tók við skóginum hafa miklar nytjar verið hafðar af honum, einkum til eldiviðar og kolagerðar. Birkið er ekki síður eftirsótt til reykingar á kjöti og fiski.
Ljós börkurinn er einkennandi fyrir birkið í Vaglaskógi.
Meðferðin á skóginum miðast við að viðhalda honum, sérstaklega með stakfellingu. Þá eru stök tré, yfirleitt þau elstu hverju sinni á hverju svæði, felld án þess að í skóginum myndist veruleg rjóður. Trén endurnýja sig síðan með teinungi upp af stúfnum. Við þessa meðferð myndast misaldra skógur með 2-4 aldursflokkum trjáa eftir því hversu oft hafa verið felld tré á hverju svæði. Þessari aðferð hefur nú verið beitt í Vaglaskógi i hartnær 100 ár, sem er lengur en flest birkitré lifa. Gömlu trén, sem verið er að fella nú og breyta í arinvið til að hita pitsuofna og sumarbústaði landsmanna, hófu að vaxa eftir svipaða fellingu snemma á 20. öld. Allan þann tíma hefur skógurinn vaxið og dafnað án þess að gestir hafi tekið mikið eftir því að kynslóðaskipti yrðu hjá trjánum. Þessi meðferð gerir líka að verkum að birkiskógurinn er opinn og greiðfær. Hann verður því betri til útivistar en óhreyfður, villtur skógur.
Í Vaglaskógi má segja að hvort tveggja hafi tekist, að vernda náttúrlegan birkiskóg svo hann gæti breiðst út og að koma á fót arðbærri skógrækt og skógarnytjum landinu til heilla. Fyrir 40 árum sást varla birkihrísla hinum megin í Fnjóskadal andspænis Vaglaskógi. Miklu fremur var landið þar merkt af langvarandi beit með rofabörðum og berum melum. Nú sækir birkið þar fram af miklum þrótti og dalurinn fær sífellt á sig hlýlegra yfirbragð.
Séð úr Vaglaskógi yfir Fnjóská í júlí 2015. Vel sést hvernig birkið er smám saman
að nema ný lönd í austurhlíðum Vaðlaheiðar þar sem ekkert birki var
fyrir nokkrum áratugum.
Séð fram Fnjóskadal (til suðurs). Vestan árinnar hafa bændur gróðursett
nokkuð af lerki en mestu munar um birkið sem breiðist hratt út.
Texti: Pétur Halldórsson
Eldri mynd: Christian E. Flensborg
Yngri myndir: Pétur Halldórsson