Fyrsta námskeiðið í skógarviðburðastjórnun var vel sótt. Þátttakendur voru 25 talsins frá Suður- og Suðvesturlandi.
Fram undan námskeið á Akureyri í lok aprílmánaðar
Fyrsta námskeiðið í „skógarviðburðastjórnun“ sem haldið er hérlendis fór fram í Hveragerði fyrir skömmu. Markmiðið með slíkum námskeiðum er að efla skógartengda fræðslu í landinu, hvetja til ýmissa viðburða í skógum landsins og fjölga þeim sem hafa þekkingu og færni til að skipuleggja og halda slíka viðburði. Næstu námskeið verða haldin á Akureyri 27. og 28. apríl.
Námskeiðið var haldið í Garðyrkjuskóla Landbúnaðarháskóla Íslands í Hveragerði og voru þátttakendur 25 talsins af Suðvestur- og Suðurlandi, ýmist skógarbændur, félagar í skógræktarfélögum eða starfsfólk Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Í mati þátttakenda á framkvæmd námskeiðsins kom glögglega í ljós áhugi og mikil þörf á þessari tegund fræðslu þar sem krafna um aukna þjónustu við almenning á fjölbreyttri skógartengdri afþreyingu fer stöðugt vaxandi. Námskeiðið var sameiginlegt verkefni samstarfsaðila um skógarfræðslu þ.e. Landbúnaðarháskóla Íslands, Landgræðslunnar, Landssamtaka skógareigenda, Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarinnar.
Miðlað af reynslu og þekkingu
Blandað var saman á námskeiðinu reynslusögum og faglegum hugleiðingum um viðburðastjórnun í skógi. Skógarverðirnir Gústaf Jarl hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur í Heiðmörk og Þór Þorfinnsson hjá Skógræktinni á Hallormsstað miðluðu langri reynslu sinni af margs konar skógaviburðum og skógardögum. Jón Ásgeir Jónsson, starfsmaður Skógræktarfélags Íslands, og Eygló Rúnarsdóttir, kennari við Menntavísindasvið HÍ, fjölluðu um faglega viðburðastjórnun fyrir skógardaga og bentu á fjölmörg atriði sem gott væri að hafa í huga við undirbúning og framkvæmd skógarviðburða. Haldnir voru ítarlegir fyrirlestrar og skipt upp í umræðuhópa þar sem málin voru rædd af miklum áhuga. Teygðist sú umræða fram í alla matar - og kaffitíma en þetta var dagsnámskeið og stóð frá kl. 9 til 17.
Að lokum flutti Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktarinnar, kynningu á þátttökumiðuðum viðburðaverkefnum fyrir skógardaga s.s. tálgun, útileldun, fuglsakoðun, skordýraskoðun og í ljósi afar góðra undirtekta þátttakenda verða haldin leiðbeinendanámskeið í einstökum viðburðaverkefnum fyrir fólk sem vill stjórna slíkum verkefnum á skógarviðburðum í framtíðinni.
Næstu námskeið á Akureyri
Með námskeiðinu var stigið fyrsta skrefið í þá átt að efla fræðslu á þessu sviði hérlendis. Næsta skrefið verður að halda tvö námskeið á Akureyri 27 og 28. apríl á Akureyri. Annars vegar verður leiðbeinendanámskeið í skógarfræðslu föstudaginn 27. apríl og hins vegar viðburðastjórnunarnámskeið fyrir skógræktarfólk laugardaginn 28. apríl með yfirskriftinni „Boðið heim í skóg - skemmtun fræðsla og upplifun í skógi“. Fyrrnefnda námskeiðið verður í Kjarnaskógi og þar verður kennd tálgutækni, útieldun, eldiviðargerð og fleira. Það síðarnefnda með bóklegri kennslu fer fram í Gömlu-Gróðrarstöðinni við Krókeyri. Skráning fer fram á vef Endurmenntunar LbhÍ.
Námskeiðin eru ætluð áhugafólki um skógrækt, skógareigendum og starfsfólki í skógrækt og öðrum þeim sem hafa áhuga á að taka á móti hópum í skóglendi, læra að leiðbeina fólki að tálga og standa að útieldun á skógarviðburðum, eins og skógardögum, útikennslu o.fl.
Kennarar verða Eygló Rúnarsdóttir, kennari HÍ, Þór Þorfinnsson, skógarvörður Hallormsstað, Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, og Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktarinnar.