Fyrsta námskeiðið í skógarviðburðastjórnun var vel sótt. Þátttakendur voru 25 talsins frá Suður- og …
Fyrsta námskeiðið í skógarviðburðastjórnun var vel sótt. Þátttakendur voru 25 talsins frá Suður- og Suðvesturlandi.

Fram undan námskeið á Akureyri í lok aprílmánaðar

Fyrsta námskeiðið í „skógarviðburða­stjórnun“ sem haldið er hérlendis fór fram í Hveragerði fyrir skömmu. Markmiðið með slíkum námskeiðum er að efla skógar­tengda fræðslu í landinu, hvetja til ýmissa viðburða í skógum landsins og fjölga þeim sem hafa þekkingu og færni til að skipu­leggja og halda slíka viðburði. Næstu námskeið verða haldin á Akureyri 27. og 28. apríl.

Námskeiðið var haldið í Garðyrkjuskóla Landbúnaðarháskóla Íslands í Hveragerði og voru þátttakendur 25 talsins af Suð­vestur- og Suðurlandi, ýmist skógar­bændur, fé­lag­ar í skógræktarfélögum eða starfsfólk  Land­græðslunnar og Skógræktarinnar. Í mati þátttakenda á framkvæmd nám­skeiðs­ins kom glögg­lega í ljós áhugi og mikil þörf á þessari tegund fræðslu þar sem krafna um aukna þjónustu við almenning á fjöl­breyttri skógar­tengdri afþreyingu fer stöðugt vaxandi. Námskeiðið var sameiginlegt verkefni samstarfs­aðila um skógarfræðslu þ.e. Landbúnaðarháskóla Íslands, Landgræðslunnar, Landssamtaka skógareigenda, Skóg­ræktarfélags Íslands og Skógræktarinnar.

Miðlað af reynslu og þekkingu

Blandað var saman á námskeiðinu reynslusögum og faglegum hugleiðingum um viðburðastjórnun í skógi. Skóg­ar­verðirnir Gústaf Jarl hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur í Heiðmörk og Þór Þorfinnsson hjá Skógræktinni á Hallorms­stað miðluðu langri reynslu sinni af margs konar skógaviburðum og skógardögum. Jón Ásgeir Jónsson, starfsmaður Skógræktarfélags Íslands, og Eygló Rúnarsdóttir, kennari við Menntavísindasvið HÍ, fjölluðu um faglega viðburða­stjórnun fyrir skógardaga og bentu á fjölmörg atriði sem gott væri að hafa í huga við undirbúning og framkvæmd skógar­viðburða. Haldnir voru ítarlegir fyrirlestrar og skipt upp í umræðuhópa þar sem málin voru rædd af miklum áhuga. Teygðist sú umræða fram í alla matar - og kaffitíma en þetta var dagsnámskeið og stóð frá kl. 9 til 17.

Að lokum flutti Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktarinnar, kynningu á þátttökumiðuðum viðburðaverkefnum fyrir skógardaga s.s. tálgun, útileldun, fuglsakoðun, skordýraskoðun og í ljósi afar góðra undirtekta þátttakenda verða haldin leiðbeinendanámskeið í einstökum viðburðaverkefnum fyrir fólk sem vill stjórna slíkum verkefnum á skógar­viðburðum í framtíðinni.

Næstu námskeið á Akureyri

Með námskeiðinu var stigið fyrsta skrefið í þá átt að efla fræðslu á þessu sviði hérlendis. Næsta skrefið verður að halda tvö námskeið á Akureyri 27 og 28. apríl á Akureyri. Annars vegar verður leiðbeinendanámskeið í skógarfræðslu föstudaginn 27. apríl og hins vegar viðburðastjórnunarnámskeið fyrir skógræktarfólk laugardaginn 28. apríl með yfir­skriftinni „Boðið heim í skóg - skemmtun fræðsla og upplifun í skógi“. Fyrrnefnda námskeiðið verður í Kjarnaskógi og þar verður kennd tálgutækni, útieldun, eldiviðargerð og fleira. Það síðarnefnda með bóklegri kennslu fer fram í Gömlu-Gróðrarstöðinni við Krókeyri. Skráning fer fram á vef Endurmenntunar LbhÍ.

Námskeiðin eru ætluð áhugafólki um skógrækt, skógareigendum og starfsfólki í skógrækt og öðrum þeim sem hafa áhuga á að taka á móti hópum í skóglendi, læra að leiðbeina fólki að tálga og standa að útieldun á skógarviðburðum, eins og skógardögum, útikennslu o.fl.

Kennarar verða Eygló Rúnarsdóttir, kennari HÍ, Þór Þorfinnsson, skógarvörður Hallormsstað, Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, og Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktarinnar.






Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Ólafur Oddsson