Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri stendur við ríflega aldargamla blæösp í Grundarreit í Eyjafirði og fræðir starfsfólkið um þennan sögulega reit.
Málefni stofnunarinnar rædd og skógar skoðaðir
Nær allir starfsmenn Skógræktarinnar komu í síðustu viku saman á Hótel Kjarnalundi í Kjarnaskógi. Farið var yfir hvernig til hefði tekist með hina nýju stofnun og ýmis mál reifuð. Að sjálfsögðu voru líka skoðaðir eyfirskir skógar.
Blíðuveður var dagana 25. og 26. apríl þegar fundurinn var haldinn. Þetta er fyrsti starfsmannafundur Skógræktarinnar eftir að stofnunin tók formlega til starfa 1. júlí 2016. Fundurinn hófst með því að haldin voru nokkur erindi um það sem efst er á baugi hjá Skógræktinni og verkefnin fram undan. Björn B. Jónsson greindi frá starfi sínu að markaðs- og afurðamálum og þriggja ára áætlun sem hann hefur lagt fram í þeim efnum. Verkefnið kallast Skógarfang. Ólafur Oddsson fræðslufulltrúi sagði m.a. frá undirbúningi diplómanáms í skógarleiðsögn sem hann vinnur nú að og Gunnlaugur Guðjónsson fjármálastjóri fór yfir fjárhaginn og ýmsar hagræðingarleiðir sem færar eru til að lækka kostnað í hinni sameinuðu stofnun, ekki síst í fjarskipta- og tölvumálum.
Sæmundur Þorvaldsson sagði frá framvindu búskaparskógræktarverkefna í Húnaþingi vestra sem lofa góðu. Fjögur verkefni eru í burðarliðnum og til viðbótar hyggjast nokkrir bændur gera hefðbunda skógræktarsamninga. Arnór Snorrason talaði um árangursmat í skógrækt, aðferðirnar sem þróaðar hafa verið til að mæla vöxt og ástand skóganna og mikilvægi slíkra mælinga. Sigríður Júlía Brynleifsdóttir ræddi stuttlega um samræmt verklag á þjónustu við skógarbændur og tilraunaútgáfu handbókar sem skógræktarráðgjafar vinna nú eftir. Aðalsteinn Sigurgeirsson fagmálastjóri fjallaði um frumvarp að nýjum skógræktarlögum sem nú bíður umfjöllunar Alþingis, einnig um Parísarsamkomulagið og hvort það myndi leiða til skógræktar og sömuleiðis benti hann á hversu vel skógrækt fellur að sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Að loknum hádegisverði fór Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri yfir stefnumálin sem Skógræktinni voru sett í aðdraganda þess að stofnanir voru sameinaðar og Skógræktin varð til. Mótun hinnar nýju stofnunar er enn í fullum gangi og með starfsmannafundinum gafst bæði tækifæri til að upplýsa starfsfólkið, heyra álit þess og ræða málin, hvað áunnist hefði og hvað mætti bæta.
Því næst var starfsmannahópnum skipt í sex vinnuhópa þar sem blandað var saman fólki af öllum sviðum og starfstöðvum Skógræktarinnar. Hóparnir fengu úthlutað ýmsum áherslumálum sem sett höfðu verið í sameiningarstarfinu. Hóparnir ræddu svo hvernig til hefði tekist með þau og hvað mætti betur fara. Fjallað var um gildi Skógræktarinnar sem eru fagmennska, samvinna og framsækni, og hvort þau stæðust enn. Einnig um áherslurnar næstu árin í rannsóknum, þjóðskógum, útivistarmálum almennings, skógarþjónustunni, landsáætlun, fræðslumálum, kynningar- og markaðsmálum. Ritarar og hópstjórar kynntu í lokin helstu niðurstöður umræðna í hverjum hópi en framkvæmdaráð Skógræktarinnar tekur við skýrslum hópanna og notar í áframhaldandi gæða- og stefnumótunarstarfi.
Að fundi loknum fór Hallgrímur Indriðason fyrir göngu starfsmannahópsins um elsta hluta Kjarnaskógar þar sem meðal annars var komið við í rauðgrenilundi frá 1947, elstu gróðursetningunni í skóginum. Einnig voru skoðaðar stríðsminjar, skotgrafir og loftvarnarbyssustæði sem er að finna í skóginum steinsnar frá Hótel Kjarnalundi. Þar virtist sem breski herinn hefði ekki alveg yfirgefið svæðið því fólki sýndist dáta með alvæpni bregða fyrir inn á milli trjánna. Um kvöldið var svo árshátíð starfsmanna með heimatilbúnum skemmtiatriðum og gamanmálum.
Síðari dag starfsmannafundarins var haldið í skoðunarferð um Eyjafjörð fram, gengið um Kristnesskóg þar sem nýlega var malbikaður 300 metra langur skógarstígur fyrir hreyfihamlaða og einnig um Grundarreit, einn elsta skógræktarreit landsins þar sem sjá má ríflega aldargamlar lindifurur, blæaspir og fleiri trjátegundir. Síðan var ekið inn fyrir Melgerðismela og til baka austan fjarðar en þar með lauk þessum fyrsta starfsmannafundi Skógræktarinnar sem þótti vel heppnaður í alla staði.
Fleiri myndir frá starfsmannafundinum, árshátíðinni og skógargöngunum má finna í myndasafninu hér á skogur.is. Kvikmyndagerðarmaður Skógræktarinnar, Hlynur Gauti Sigurðsson, setti líka saman í stutt myndband nokkur myndbrot úr skoðunarferðunum sem hér fylgir sömuleiðis.
Myndband: Starfsmannafundur Skógræktarinnar