Bjarki Þór Kjartansson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, við tölvurnar í Hörpu þar sem…
Bjarki Þór Kjartansson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, við tölvurnar í Hörpu þar sem gestir Loftslagsdagsins gátu kynnt sér Skógarkolefnisreikni. Ljósmynd: Edda S. Oddsdóttir

Skógræktin tók þátt í Loftslagsdegi Umhverfisstofnunar sem fram fór í Hörpu í Reykjavík fjórða maí, bæði með erindi og umræðum um loftslagsmál og kolefnisbindingu og einnig með kynningarbás þar sem Skógarkolefnisreiknir var kynntur. Gestir sýndu reikninum mikinn áhuga. 

Arnór Snorrason talar um áhrif aukinnar skógræktar á umfang íslenskra skóga. Ljósmynd: Edda S. OddsdóttirAð loknum upphafsávörpum var umfjöllun um hvernig okkur Íslendingum miðaði í átt að kolefnishlutleysi. Þar var m.a. fjallað um losun Íslands 1990-2040 og um það höfðu framsögu Nicole Keller, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, Arnór Snorrason, deildarstjóri hjá Skógræktinni og Jóhann Þórsson, fagteymisstjóri hjá Landgræðslunni.

Arnór kynnti hlut skógræktar í kolefnislosunarbókhaldi Íslands og benti á þá einföldu staðreynd að tré vaxa, jafnvel þótt við tökum ekki mikið eftir því meðan það gerist. Í vextinum felst kolefnisbindingin og binding íslenskra skóga hefur sautjánfaldast frá 1990. Arnór brá upp sviðsmynd um væntanlega bindingu íslenskra skóga til 2040 miðað við annars vegar óbreytt ástand en hins vegar auknar aðgerðir þar sem miðað er við að gróðursett sé í tvöfalt meira land eða 50 ferkílómetra á ári með tilkomu verkefna með fjármagni úr einkageiranum. Hann sýndi líka á korti að þrátt fyrir slíka tvöföldun verða skógarnir ekki sýnilega meira áberandi á Íslandskortinu. Með viðbótarsviðsmyndinni myndu skógarnir stækka úr um fimm prósentum láglendis í tæplega sjö og þar af yrðu um 75% birkiskógur en 25% nytjaskógur.

Arnór sýnir áhugasömum gesti hvernig Skógarkolefnisreiknir virkar. Ljósmynd: Edda S. OddsdóttirAð lokinni formlegri dagskrá Loftslagsdagsins í Hörpu gátu gestir Loftslagsdagsins blandað geði og kynnt sér ýmislegt sem var til kynningar, meðal annars Skógarkolefnisreikni Skógræktarinnar, reiknivélina sem byggð er á áratugamælingum rannsóknasviðs Skógræktarinnar á íslenskum skógum. Reiknivélina má nota til að áætla bindingu mismunandi trjátegunda á völdum svæðum sem koma til greina til skógræktar á láglendi Íslands. Kynningin tókst vel og margir sýndu reikninum áhuga.

Þess má geta að nú er unnið að nýju útliti fyrir Skógarkolefnisreikni og lítur reiknirinn í nýju útliti vonandi dagsins ljós síðar í mánuðinum.

Horfa má á alla dagskrá Loftslagsdagsins á vef viðburðarins, loftslagsdagurinn.is.

 

Frétt: Pétur Halldórsson