Í fyrsta rokkskóginum í Vatnsnesi Grímsnesi. Mynd af Facebook-síðu Kristins Sæmundssonar
Grein eftir Daníel Godsk Rögnvaldsson, meistaranema í sjálfbæri minjastjórnun við Árósaháskóla
Ýmis merkileg skógræktarverkefni hafa litið dagsins ljós í gegnum tíðina. Margt hugsjónafólk hefur látið til sín taka í stórhuga áætlunum með oftar en ekki prýðilegum árangri. Sum verkefni hafa þó fallið í það er virðist gleymskunnar dá. Dæmi um slíkt verkefni voru Rokkskógar Íslands. Þá sameinuðust popparar landsins til að safna fé til skógræktar og landgræðslu. Rokkskógar á Íslandi hafa þó látið bíða eftir sér.
Landgræðsluskógar 1990
Árið 1990 voru 60 ár liðin frá því að Skógræktarfélag Íslands var stofnað og í tilefni þess var ákveðið að fara í víðtækt landgræðsluátak með skógrækt. Gekk það undir heitinu Landgræðsluskógar. Landsmenn lögðu hönd á plóg í ýmsum viðburðum, fjáröflunum og sjálfboðaliðastarfi sem miðaði að því að græða land og skreyta það skógi. Afleiðingin varð að miklu lífi var blásið í alla skógrækt á Íslandi. Verkefnið er enn í fullu fjöri og eru fjölmörg tré enn gróðursett undir merki þess í samstarfi við skógræktarfélögin. Ávextina má sjá vítt og breitt um landið og er meðal annars umfangsmikill skógur við Úlfljótsvatn dæmi um slíkt. Á upphafsárinu var stemmningin fyrir landgræðsluskógunum mikil og popparar landsins ætluðu ekki að láta sitt eftir liggja. Sykurmolarnir Bragi Ólafsson og Einar Benediktsson lofuðu því í beinni útsendingu að rokkskógur myndi rísa á Íslandi og umfangsmikið tónleikahald var haldið í tengslum við Rokkskógana helgina kringum þjóðhátíðardaginn 1990.
Átti að verða Bubbalundur
Rokkskógar Íslands voru hugarfóstur Kristins Sæmundssonar, innsta kopps í tónlistarsenunni á tíunda áratugnum. Hann fékk með sér í lið landskunna listamenn í þeim tilgangi að safna fé til skógræktar og landgræðslu. Sú hugmynd kviknaði fyrst að gróðursetja í tilefni tíu ára starfsafmælis Bubba Morthens svokallaðan „Bubbalund“, en hún vatt upp á sig svo úr urðu Rokkskógar Íslands. Markmið hópsins var að gróðursetja 200-300 þúsund tré og ræktaður yrði að lokum „rokkskógur“ í öllum fjórðungum.
Listamenn áttu meðal annars að taka beinan þátt í að planta trjám með æsku landsins. Rokkskógar Íslands tengdu saman nær allt tónleikahald þjóðhátíðarhelgina 1990 til styrktar skógrækt og hluti af miðasölu á þessa viðburði var eyrnamerktur rokkskógunum. Rúsínan í pylsuendanum átti svo að vera veglegir stórtónleikar í Laugardalshöll 16. júní. Ekkert var til sparað við undirbúning tónleikahaldsins. Haldinn var mikill blaðamannafundur í flutningaskipinu Laxfossi þar sem tónleikahaldið var kynnt. Flutt voru inn hljómtæki og ljósabúnaður fyrir mikið fé og fylgdi meira að segja tæknimaður að utan. Landslið íslenskra tónlistarmanna tók þátt í verkefninu: Sykurmolarnir, Megas, Bubbi Morthens og Sálin hans Jóns míns stigu öll á stokk í Laugardalshöllinni
Stórtónleikar í Laugardalshöll
Tónleikarnir sjálfir fóru ágætlega fram. Árni Matthíasson blaðamaður gerði þeim skil í Morgunblaðinu. Hann skrifar að stjórn á hljóð og ljósatækjum hafi „verið í molum“ framan af og ekki verið með góðu móti fyrr en undir lok tónleikanna þegar Sálin og Sykurmolarnir hófu leik. Að öðrum ólöstuðum hafi Bubbi Morthens borið höfuð og herðar yfir kollega sína þótt lítið færi fyrir honum á sviðinu. Rúmlega 3000 manns hafi sótt viðburðinn og flestir skemmt sér vel. Sú aðsókn stóðst hins vegar alls ekki væntingar og þrátt fyrir mikinn áhuga á uppátækinu varð tap á tónleikunum. Það varð því ekkert úr þeim háleitu markmiðum sem Rokkskógar Íslands settu sér í upphafi og rokkskógurinn hefur þurft að bíða þess að líta dagsins ljós. Í bili. Það virðist þó vera að rofa til hjá áhugamönnum um rokk og skógrækt því áðurnefndur forsprakki Rokkskóga Íslands, Kristinn Sæmundsson, hefur hafist handa við ræktun fyrsta rokkskógar Íslands rúmlega þrjátíu árum eftir að popparar landsins lofuðu að rokkskógur myndi rísa.
Ekki lengur bara „þaraskógur í Faxaflóa“
Kristinn segir að „festivalmenningin“ á Íslandi hafi verið hornreka í samfélaginu í upphafi tíunda áratugarins. Rokkskógur Íslands hafi ekki bara átt að vera hefðbundið skógræktarverkefni, heldur tækifæri fyrir listafólk til að hafa greiðan aðgang að plássi til hvers kyns viðburða- og tónleikahalds. Rokkskógarnir undu fljótt upp á sig og úr varð risavaxið verkefni á landsvísu. Tónleikarnir í Laugardalshöll hafi markað kaflaskil í tónleikahaldi á Íslandi, aldrei hafi umgjörðin utan um íslenskt tónlistarfólk verið svo metnaðarfull og áhrifanna gætir víða, segir Kristinn. Áætlanir um skógrækt hafi því miður runnið út í sandinn, taprekstur og of metnaðarfull markmið hafi þar haft sitt að segja. Kristinn segist oft hafa grínast með að Rokkskógur Íslands hafi endað sem „þaraskógur í Faxaflóa“.
Í kjölfarið af endurnýjuðum áhuga á Uxa '95 fór Kristinn aftur á stúfana í leit að heppilegu svæði til tónleikahalds. Bændur á Suðurlandi voru flestir boðnir og búnir að lána land til hátíðarinnar. Úr varð að Kristinn útvegaði sér pláss á jörðinni Vatnsnesi í Grímsnes- og Grafningshreppi. Þar hefur hann fengið aðstoð ýmissa við að planta hinum og þessum trjátegundum í skógarreit sem verður vonandi að heppilegum tónleikastað í framtíðinni. Gestir og gangandi geta vonandi bráðlega gert sér ferð í fyrsta rokkskóginn. Hvað sem því líður vitna Rokkskógar Íslands um merkilegan tíma í sögu bæði skógræktar og tónlistar á Íslandi.