Með skemmtilegum vísum um trjáknús og fleira óskar Skógræktin öllum landsmönnum gleðilegra páska og góðrar ferðar innanhúss. Óhætt er þó að fara út að viðra sig, til dæmis í skógum í nágrenni sínu. Þar má auðvitað líka knúsa tré.

Vísurnar hér fyrir neðan orti Karl Benediktsson í tilefni af hvatningu Skógræktarinnar til fólks að knúsa tré, nú þegar því er beint til fólks að knúsa ekki nema sína allra nánustu. Með páskakveðju og góðfúslegu leyfi höfundar eru vísurnar góðu birtar hér.

Vorið og ég

Ég sprittaði fingur og sprændi á tær
og spúlað’ úr nefi horið,
tíndi úr lubbanum lýs bæð’ og flær
og léttfættur steig út í vorið.

Ég knúsaði Víði og káfað’ á Björk
og kyssti þó nokkra Hlyni.
Vart er sá andleg eyðimörk
sem á þessa drumbslegu vini.

Njótum útivistar í skógum landsins um páskana og gleðilega hátíð!

#knusumtre

Texti: Pétur Halldórsson