Börn sem alast upp við stafafuru á jólunum virðast líta á það sem hið eina sanna jólatré. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Hér er sagt frá íslenskum jólatrjám, hvaðan þau eru, hvernig þau eru ræktuð og eiginleikum viðkomandi tegunda sem jólatrjáa. Eins og margt fólk veit er minnihluti þeirra jólatrjáa sem seld eru hér á landi fyrir jólin íslensk tré. Flest trjánna eru flutt til landsins frá útlöndum og vaxandi hluti þeirra hefur undanfarin ár verið gervitré komin alla leið frá Asíu. Ástæða innflutningsins er meðal annars sú að ekki eru ræktuð nægilega mörg tré á landinu. En hvernig á að meðhöndla lifandi jólatréð þegar heim í stofu er komið?
Flest sunnlensk jólatré eru ræktuð í Haukadal og Þjórsárdal, auk nokkurra annarra minni svæða, s.s. á Snæfoksstöðum í Grímnesi. Frá Hallormsstað koma flest jólatré af Austurlandi en um allt land kemur stór hluti jólatrjáa nú úr skógum skógræktarfélaga og í vaxandi mæli úr bændaskógum.
Fyrr á árum var jólatrjáaræktun stunduð í kjarrlendi en á síðustu árum er nær eingöngu gróðursett í mólendi. Trén eru sett niður sem litlar bakkaplöntur og er borið á þau a.m.k. einu sinni eftir gróðursetningu. Trén vaxa svo upp á 10-25 árum, allt eftir tegund og landsvæði. Gott er að huga að snyrtingu trjánna síðustu árin fyrir högg, t.d. með því að klippa tvítoppa eða brjóta brum á furu snemmsumars til að þétta trén. Sumarið fyrir högg getur verið gott að gefa væntanlegum jólatrjám áburðarskammt. Eykur þetta á barrheldni og gerir þau grænni á litinn. Trén eru svo höggvin frá miðjum nóvember og fram í desember. Vilji er til að auka framleiðslu jólatrjáa og vonandi verðum við Íslendingar okkur sjálfum okkur nógir með lifandi jólatré eftir fáeina áratugi. Liður í að auka sölu íslenskra trjáa er að kynna nýjar tegundir sem nýst gætu sem jólatré
Tegundir jólatrjáa
Skógræktarfólk hefur lengi bent á kosti stafafuru sem jólatrés, einkum vegna þess að hún heldur barrinu einna lengst íslenskra jólatrjáa. Ef þess er gætt að alltaf sé nægilegt vatn á stafafuru heima í stofu fer hún að teygja úr vaxtarsprotum, ilma og heldur að sjálfsögðu nálunum enn betur en ella. Þá hefur stafafura líka þann góða kost að hún getur vaxið á rýrum móum upp í hentuga jólatrjáastærð á 10-15 árum án áburðargjafar. Ókosturinn, sem líklega hefur komið í veg fyrir að sumt fólk veldi stafafuru, er hversu grófgerð hún er. Hún minnir þannig að einhverju leyti á heimagerð jólatré sem notuð voru hér á landi fyrir miðja öldina sem leið. Reglan er samt sem áður sú að það fólk sem einu sinni hefur reynt stafafuru og sætt sig við grófleikann vill ekki aðrar tegundir. Ímynd hvers og eins um hið eina rétta jólatré er líka að langmestu leyti af huglægri rót.
Auk stafafuru eru aðallega rauðgreni, blágreni, sitkagreni og fjallaþinur nýtt sem jólatré hérlendis. Blágrenið er mjög fallegt, oft bláleitt eins og nafnið gefur til kynna og ilmar. Sitkagrenið er grófgerðara og nálar mjög hvassar. Flest torgtré eru sitkagreni. Fjallaþinurinn er eitt sjaldgæfasta íslenska jólatréð og líklega það dýrasta. Hann líkist nokkuð innfluttum þin og heldur barrinu a.m.k. jafnlengi, ef ekki lengur en sá innflutti. Reyndar kemur fyrir að fleiri tegundir eins og lindifura og síberíuþinur sjáist í jólatrjáasölum. Í framtíðinni gæti degli bæst við.
Rétt meðhöndlun mikilvæg
Það er ekki sama hvernig tré eru meðhöndluð sem jólatré, enda eru þau lifandi.
- Nýhöggvið íslenskt tré þarf að standa á köldum stað, t.d. utan dyra eða í kaldri geymslu, þangað til það er tekið inn í stofu.
- Ekki skemmir fyrir að láta tréð standa í vatnsbaði í geymslunni, sérstaklega ef ekki er frost úti og hægt að geyma það frosið.
- Sumt fólk segir best að tréð standi upp á endann meðan það er geymt í kulda en ekki liggjandi.
- Þegar tréð er skreytt í stofunni er þjóðráð að saga 5-10 sm sneið neðan af stofninum og stinga því í góðan vatnsfót.
- Sumt fólk hefur mælt með að stofninum sé stungið í sjóðandi vatn til að opna viðaræðarnar og auðvelda vatnsupptöku. Þetta gæti fólk þó miklað fyrir sér, t.d. ef eldhúspláss er takmarkað.
- Jafngott ráð er að setja sjóðheitt vatn í fótinn í fyrsta sinn sem vatn er sett á tréð.
- Þess verður að gæta að aldrei þorni í fætinum meðan tréð stendur í stofunni.
- Athugið að tréð getur drukkið í sig talsvert vatn, sérstaklega fyrstu dagana.
Ef þessum reglum er fylgt eru mun meiri líkur á að tréð standi ferskt og ilmandi yfir hátíðirnar.
Íslenskt, innflutt eða gervi?
Miklu máli skiptir hvers konar tré fólk velur fyrir jólin.
- Íslensk jólatré eru umhverfisvænni en innflutt lifandi tré eða gervitré.
- Við ræktun íslenskra jólatrjáa er ekkert notað af mengandi efnum.
- Við ræktun víða erlendis er notað mikið af illgresis- og skordýraeitri sem ekki þarf hér.
- Eldsneytisnotkun er meiri þegar trén eru flutt inn frá útlöndum.
- Gervijólatré eru flest flutt yfir hálfan hnöttinn frá Asíu hingað til lands.
- Gervijólatré eru unnin úr olíuefnum (plasti)
- Gervijólatré er nær ómögulegt að endurvinna
- Lifandi tré eru því umhverfisvænni en gervitré
- Lifandi tré má endurvinna
Með því að velja íslenskt jólatré í ár styður þú við skógrækt á Íslandi og eykur líkurnar á því að Íslendingar geti orðið sjálfum sér nógir um jólatré í framtíðinni.
Byggt á eldri grein eftir Hrein Óskarsson: Pétur Halldórsson