Mynd: Ólafur Oddsson
Mynd: Ólafur Oddsson

Í Þjórsárskóla er unnið eftir hugmyndafræði Grænfánaskóla – skóli á grænni grein. Sérstaða skólans liggur í áherslu á umhverfið og kennslan fer oft fram utan skólahúsnæðisins í nærumhverfi skólans. Í framhaldi af þessari áherslu hefur þjóðskógurinn í Þjórsárdal verið nýttur til kennslu síðan haustið 2008.

Samstarfssamningur milli skólans og verkefnisins Lesið í skóginn á vegum Skógræktar ríkisins um þróun á skólastarfi í Þjóðskóginum í Þjórsárdal var undirritaður vorið 2009. Eitt markmiða samstarfssamningsins er að fræða nærsamfélagið um hvernig skógurinn nýtist skólanum og öllum íbúum. Jóhannes Hlynur Sigurðsson, aðstoðarskógarvörður á Suðurlandi og Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi frá Skógrækt ríkisins komu í skólann fyrir skömmu og fræddu starfsfólk um nýtingu skógarafurða til húsagagnagerðar. Allir bjuggu til bekki eða koll og fóru með heim í lok dags. Auk þess var nærsamfélaginu og fagfólki úr öðrum skólum boðið upp á ókeypis fræðslu um samstarf Þjóarsárskóla og Skógræktar ríkisins. Fjallað var um samstarfið og hvernig skóli og skógur vinna saman og sækja hvorn annan heim. Boðið var upp á að gera bekk, koll, ausu, sleif, skeftun áhalda og eldun pizzugreina. Drukkið var kakó og ketilkaffi. Starfsmenn skólans vinna saman sem ein heild og miðluðu reynslu sinni af verkefnum í skóginum og útskýrðu forsendur og rök fyrir skógarkennslu. Þátttakendur voru um 30 talsins. 

„Skólalóðin iðaði af lífi. Þessar aðstæður og vinna er öflugt tæki í að efla liðsheildina hjá nemendum og starfsfólki," segir Ingibjörg María Guðmundsdóttir, skólastjóri Þjórsárskóla.


frett_13092010_1

frett_13092010_2

frett_13092010_3

frett_13092010_5

frett_13092010_4

frett_13092010_6

frett_13092010_8


Texti: Þjórsárskóli
Myndir: Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógaræktar ríkisins