Myndarleg ilmbjörk í Kjarnaskógi, sést í grenitré í baksýn beggja vegna. Björkin fyllir út í stóran …
Myndarleg ilmbjörk í Kjarnaskógi, sést í grenitré í baksýn beggja vegna. Björkin fyllir út í stóran hluta myndarinnar alsett gulum haustlaufum. Blár himinn yfir en grænn brunahani framan við tréð hægra megin. Mynd: Pétur Halldórsson

Ekki virðist rétt að tré hætti að mestu að binda kolefni þegar þau eldast

Um þetta er fjallað í nýjasta hefti tímaritsins Nature sem kom út 15. janúar. Alþjóðlegur rannsóknarhópur skrifar þar að 97% af 403 trjátegundum sem vaxa í hitabeltinu og heittempraða beltinu vaxi því hraðar sem þær verði eldri. Rannsókninni stýrði Nate L. Stephenson hjá Western Ecological rannsóknarmiðstöð bandarísku jarðfræðistofnunarinnar U.S. Geological Survey.

Vísindafólkið notaði rannsóknargögn frá sex heimsálfum og niðurstöður þess eru byggðar á mælingum á hátt í 700.000 einstökum trjám. Elstu mælingarnar voru gerðar fyrir meira en áttatíu árum. Rannsóknin hefði ekki verið möguleg nema vegna þess hversu víða eru til mælingar á trjávexti sem gerðar hafa verið á löngum tíma.  

Óvenjulega mikill vöxtur sumra trjátegunda er ekki bundinn við fáeinar tegundir risatrjáa eins og ástralskan tröllagúmvið (Eucalyptus regnans), eða rauðviðurinn stórvaxni (Sequoia sempervirens). Þvert á móti virðist hraður vöxtur gamalla trjáa vera reglan frekar en hitt hjá trjátegundum og stærstu tré geta þyngst um meira en 600 kíló á ári. Í greininni í Science er þessu líkt við það að vöxtur okkar mannanna héldi áfram að aukast eftir gelgjuskeiðið í stað þess að á honum hægði. Þá myndi meðalmanneskja vega hálft tonn um miðjan aldur og vel ríflega eitt tonn þegar hún færi á eftirlaun.

Meðal rannsókna sem þessi stóra alþjóðlega rannsókn var byggð á eru nefndar athuganir sem ná allt aftur til áranna eftir 1930 og gerðar voru við Kyrrahafsströnd Norður-Ameríku. Þar var mældur vöxtur á tegundum eins og degli eða dögglingsvið, marþöll, sitkagreni, risalífvið og hvítþin. Annað dæmi er rannsókn sem gerð var í Kamerún árið 1996 þar sem mældur var vöxtur trjáa af tæplega 500 tegundum.

Höfundar greinarinnar í Nature taka fram að jafnvel þótt þetta eigi við um sjálf trén þýði það ekki að vöxtur skógar aukist stöðugt eftir því sem skógurinn eldist. Á endanum taki tré að deyja sem sé hluti af eðlilegri hringrás byggingar- og næringarefna í skóginum. Við það hægir auðvitað á bindingu kolefnis.

Nánar má lesa um þetta í tímaritinu Nature á slóðinni http://www.nature.com/nature/journal/vaop/ncurrent/full/nature12914.html

Frétt um þetta birtist í vísindafréttaritinu Science Daily http://www.sciencedaily.com/releases/2014/01/140115132740.htm