Yfirlýsing um sitkagrenitrén við Miklubraut
Forsvarsmenn Skógræktar ríkisins, Skógræktarfélags Reykjavíkur og Skógræktarfélags Íslands hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem varað er við því að fella í fljótfærni stór sitkagrenitré sem standa við Miklubraut í Reykjavík. Trén nái sér aftur eftir sitkalúsafaraldur síðasta árs og erfiðan vetur.
Tilefni yfirlýsingarinnar er frétt á Stöð 2 laugardaginn 10. maí sem mátti skilja á þá leið að sitkagrenitré sem væru illa farin af biti sitkalúsar væri best að fella.
Hér til hliðar er mynd af myndarlegu sitkagrenitré sem vafalaust á eftir að ná sér þótt það sé hafi orðið fyrir barðinu á sitkalúsinni og sé óásjálegt eins og er.
Fyrir neðan er gömul mynd frá því um 1950 sem sýnir sitkagrenitré við Miklubraut austan Lönguhlíðar. Þar fyrir neðan eru tvær myndir sem sýna sitkagrenitré í Elliðaárdal. Sú sem er til vinstri er tekin 2003 og sýnir skemmdir af völdum sitkalúsar en myndin til hægri sýnir sömu tré nú í vor, alheilbrigð og falleg. Þá koma fjórar myndir sem Einar Gunnarsson tók nú í maímánuði.
Neðst má svo lesa umrædda yfirlýsingu.
Miklabraut 1950
Sömu tré í Elliðaárdal 2003 t.v. og 2014 t.h.
Við Miklubraut í maí 2014
Grenitrén fái að standa
Yfirlýsing frá Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélagi Íslands og Skógræktarfélagi Reykjavíkur vegna fréttar á Stöð 2, laugardaginn 10. maí, um sitkalúsafaraldur á höfuðborgarsvæðinu[i]
Vegna umræðu um að sitkagrenitré við Miklubraut í Reykjavík séu ónýt og réttast sé að fella þau álykta forsvarsmenn Skógræktar ríkisins, Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarfélags Reykjavíkur:
Myndarleg barrtré við fjölfarnar umferðargötur gera margvíslegt gagn. Þess vegna ber að fara mjög varlega með þau og fella ekki tré nema að mjög vel athuguðu máli. Sitkagrenitrén við Miklubraut, á Klambratúni og austan Lönguhlíðar, eru illa skemmd eftir sitkalúsarfaraldur á síðasta ári og erfiðan vetur sem nú er að baki. Trén líta illa út en eru flest vel lifandi. Þau hafa margoft áður verið verr leikin eftir lúsavetur og misst flestar barrnálar, án þess að verða fyrir varanlegum skaða. Þau munu mynda nýja ársprota og verða aftur fagurgræn er líða tekur á sumarið þótt þau beri þessa áfalls merki nokkru lengur.
Trén eru 40-50 ára gömul og að þeim væri mikill sjónarsviptir ef þau hyrfu. Skjól við götuna myndi minnka og umferðarhávaðinn aukast í nálægum hverfum. Trén skýla bæði fyrir vindi og hávaða. Þau eru mikilvæg til hreiðurgerðar þröstum og öðrum smáfuglum sem lifa meðal annars á lúsum og maðki á trjám og runnum. Trén stuðla þannig beint og óbeint að því að garðeigendur í Hlíða- og Háaleitishverfi úða minna eitri gegn meindýrum í görðum sínum. En grenitrén stóru taka líka í sig mikið svifryk vegna þess hve yfirborð barrnála og greina er gríðarmikið, jafnt sumar sem vetur. Samanlagt yfirborð sitkagrenitrjánna við Miklubraut samsvarar yfirborði fjölmargra knattspyrnuvalla. Rykið sest á trén allan ársins hring, líka á vetrum þegar svifryksmengun er mest, því barrtré fella ekki lauf á haustin. Rykið loðir vel við trén og í rigningu skolast það niður í jarðveginn í stað þess að svífa um með vindinum og berast í öndunarfæri manna þegar þornar.
Rétt er að skora á forsvarsfólk umhverfismála í Reykjavík að leyfa sitkagrenitrjánum við Miklubraut að standa og hlúa vel að þeim með vægri grisjun og áburðargjöf. Reynslan í Reykjavík og víðar, bæði hérlendis og erlendis, sýnir að aðeins lítill hluti þeirra grenitrjáa sem misst hafa flestar barrnálar deyr af þessum völdum. Skemmst er að minnast þess að í suðurhlíðum Öskjuhlíðar og víðar voru sitkagrenitré ámóta illa farin vorið 2003 en náðu sér þó fljótt. Það er vel þess virði að bíða í fáein ár og sjá hvort trén ná sér ekki og verða falleg aftur. Annars verður ekki lengur af trjánum það gagn sem þau gera fyrir borgina og vegfarendur. Sérfræðingar Skógræktar ríkisins, Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarfélags Reykjavíkur eru ávallt reiðubúnir til skrafs og ráðagerða við borgaryfirvöld um efni af þessum toga sem snerta velferð trjánna í borginni og þar með velferð íbúanna.