Við upphaf verkefnisins Lesið í skóginn með skólum í Reykjavík upp úr árinu 2001 var hugtakið grenndarskógur notað sem heiti yfir skólaskóga sem ætlaðir voru til útináms. Það hefur fest sig í sessi sem slíkt en grenndarskógur getur verið  stálpaður skógur, garður, væntanlegur skógur eða ungskógur sem er í ræktun. Oft heita lundirnar ákveðnu nafni sem kennt  er við ræktandann eða hefur fengið nafn frá nemendum, gjarnan að undangenginni nafnasamkeppni.

Um 35 grunn- og  leikskólar á landinu hafa fengið aðgang að grenndarskógi í formlegu samstarfi við verkefnið Lesið í skóginn sem nú leggur af stað inn í tíunda starfsár sitt sem skólaþróunarverkefni um þverfaglega fræðslu um skóg og skógarnytjar. Margir aðrir skólar, vítt og breytt um landið, eru að nota skógarsvæði Skógræktar ríkisins og fleiri aðila í þessum tilgangi án þess að vera í formlegu samstarfi. Grenndarskógurinn gegnir lykilhlutverki í samstarfi Lesið í skóginn og skólanna í þróun skógartengds útináms. Frá upphafi hefur verið unnið með það að markmiði að tengja allar námsgreinar grunnskólans við nám í grenndarskóginum í samþættu útinámi. Eftir því sem unnið er að fjölbreyttari viðfangsefnum í sama umhverfi hefur  það meira og mikilvægara uppeldislegt gildi. Skógurinn hefur þá fjölbreytni sem þarf í þessu tilliti. Útinám er í eðli sínu  þverfaglegt vegna þess að erfitt er að skoða einn afmarkaðan þátt án þess að kynna sér annan. Af því leiðir að samstarf skóla, skógaraðila o.fl. er mikilvægt til að ná góðum árangri í notkun grenndarskógarins. Samkvæmt ströngustu skilgreininguum útinám fer námið reglubundið fram utandyra, það hefur skýr markmið, kemur í stað hefbundins innináms og er skipulega undirbúið, framkvæmt úti og jafnvel unnið áfram þegar inn er komið. Grenndarskógur verður að vera í göngufæri frá skólanum svo hann geti talist grenndarskógur. Hægt þarf að vera að ganga í hann innan marka tveggja kennslustunda og dvelja þar um stund við nám og leik..

Gerður er samningur á milli skólans og landeigandans um afnotin og við Lesið í skóginn verkefnið um aðstoð við innsetningu á útináminu með fræðslu fyrir starfsfólk í grenndarskóginum. Með samningnum getur skóli leitað eftir ráðgjöf og leiðbeiningum hvenær sem er. Skólafólk leitar oftast eftir aðstoð vegna  nýtingar á skóginum, verkefna fyrir nemendur og ráðgjöf varðandi uppbyggingu á aðstöðu til útikennslu. Fyrir suma kennara getur reynst erfitt að vera með nemendur í grenndarskógi án þess að hafa aðstöðu, s.s. skýli,  orð og bekki en fyrir aðra skiptir það minna máli. Flestir eru þó sammála um að það sé  gott og nauðsynlegt að hafa góða aðstöðu til útinámsins. Fyrst og fremst þurfi að huga að því hvernig hún er gerð og að það sé fólk úr skólanum og nærumhverfinu sem byggir hana upp. Í Reykjavík er það Umhverfis- og samgöngusvið sem hefur umsjón með langflestum grenndarskógunum. Undantekning er t.d. Hólavallakirkjugarður sem er grenndarskógur tveggja skóla í vesturbæ Reykjavíkur og er í umsjá Kirkjugarða Reykjavíkur.



Texti og mynd: Ólafur Öddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins.