Lesið í skóginn með skólum
Grenndarskógar opna ný tækifæri til skólaþróunar
Á málþingi í Kennaraháskóla Íslands þann 19. febrúar síðastliðinn kynnti Þuríður Jóhannsdóttir, lektor við Kennaraháskóla Íslands skýrslu um skólaþróunarverkefnið Lesið í skóginn sem er samstarfverkefni nokkurra grunnskóla vítt og breitt um landið við Skógrækt ríkisins, Kennaraháskóla Íslands og fleiri. Í skýrslunni er lýst þátttöku 7 grunnskóla sem tóku þátt í verkefninu frá árinu 2003 til og með ársins 2006. Dregnir eru fram styrkleikar og veikleikar í framkvæmd verkefnisins til þessa og möguleikar til að þróa það áfram skoðaðir í ljósi þess.
Með verkefninu hafa skólarnir fengið aðstöðu til að skipuleggja kennslu úti, í grenndarskógi og á skólalóð. Nemendur hafa fengið tækifæri til að fást við hefðbundnar námsgreinar með nýjum hætti en einnig hefur nýr þáttur bæst inn í námið sem er skógarfræðsla. Skógræktarmenn hafa leiðbeint við skógarvinnuna og lagt fram sína sérþekkingu sem kennarar eru svo smám saman að tileinka sér til að geta leiðbeint nemendum. Dýrmæt reynsla og þekking hefur orðið til í skólunum og nýting á skóginum hefur margfaldast frá upphafi verkefnisins. Æ fleiri skemmtilegar hugmyndir koma fram til nýtingar á skóginum.
Þuríður nefndi í kynningu sinni að verkefnið væri einstakt í skólastarfi að því leyti að í því vinna kennarar og nemendur SAMAN að því að bæta umhverfi sitt og með uppbyggingu á aðstöðu í grenndarskógum skólanna eru þeir að skapa einstaka námsaðstöðu fyrir nemendur þar sem er útikennslustofa í skógi. Einnig var á það bent að þátttaka foreldra og grenndarsamfélags væri mikilvæg í þessu verkefni. Að byggja upp og hlú að grenndarskógi gefur foreldrum nýtt tækifæri til samstarfs við skólana sem kemur námi barna þeirra til góða.
Í vitnisburðum allra skógarskólanna og skólanna í Reykjavík sem eru með grenndarskóg kom fram að skógarfræðslan hafi haft áhrif til skólaþróunar innan skólanna til dæmis leitt til fjölbreyttari kennsluhátta. Með aukinni fjölbreytni er líklegra að komið sé til móts við ólíkar þarfir nemenda. Skólarnir meta það svo að framlag Skógræktarinnar til verkefnisins sé forsenda þess að svo vel hefur tekist til sem raun ber vitni. Gildi LÍS- verkefnisins felst m.a. í því að það hefur staðið yfir í nokkuð langan tíma og safnast hefur reynsla og þekking sem hægt er að byggja á í áframhaldandi þróun þess.
Verkefnið hefur víða gert umgjörð skólastarfsins skemmtilega. Dæmi eru um að kennarafundir hafi verið haldnir úti í skógi og skólahátíðir vor og haust eru gjarna haldnar í skólaskóginum. Nauðsynlegt er að kynna foreldrum kosti útináms í grenndarskógi og vekja athygli á gildi þess náms sem þar fer fram. Það getur bæði verið hefðbundið nám t.d. í náttúrufræði en líka nám sem felst í því að skynja og njóta útiveru í náttúrunni.
Í viðhorfakönnun meðal nemenda að vori kemur fram að starfið í grenndarskóginum er mörgum eftirminnilegast og skemmtilegast! Nemendum líður vel í skjóli skóganna!
Nánari upplýsingar um rannsókn og mat skólanna:
Þuríður Jóhannsdóttir – Grenndarskógur, ný tækifæri í skólastarfi
tjona@khi.is - s: 8930826
Björk Alfreðsdóttir - Viðhorf skóla til skógarfræðslu
bjork.alfredsdottir@reykjavik.is - s: 4111700
Ólafur Oddsson, verkefnisstjóri, s: 8630380
oli@skogur.is