Þessa daganna er verið að grisja í lerkireitum í Hallormsstaðaskógi sem gróðursettir voru árið 1983. Nú vill svo óvenjulega til að unnið er á tveimur vélum samtímis að grisjuninni, þ.e. fellingu og afkvistun. Efnið er síðan keyrt út úr skóginum með traktor og komið fyrir á timburvagni. Fellingin er unnin af verktökum á Fljótsdalshéraði, þeim Sveini Ingimarssyni og Einari Guðsteinssyni, sem eru með 6 og 10 tonna gröfur með felli og afkvistunarhaus annars vegar og klippihaus hins vegar. Áætlað er að fella og keyra út úr skóginum um 450 m3 af grisjunarviði þetta vorið.

Við grisjun eru lökustu trén felld, þ.e. kræklótt og tvístofna tré, en þau bestu skilin eftir. Í þessu tilfelli verða um tólfhundruð tré eftir á hverjum hektara. Næsta grisjun er áætluð í þessum reitum eftir 10-15 ár. Efnið er nýtt í kurlkyndistöðina á Hallormsstað en bestu og sverustu trén eru flett í borð.

25042012-2

25042012-3

Myndir og texti: Þór Þorfinsson, skógarvörður á Hallormsstað