Óskar Grönholm skógvélamaður og Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi við höggvélina í Haukadalsskógi. Verulegt magn grisjunarviðar fæst við þessa grisjun í Haukadalsskógi. Eftir standa tré sem verða margfalt verðmætari vegna grisjunarinnar og gefa í framtíðinni gæðatimbur. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson
Grisjun í Haukadalsskógi í Biskupstungum sem unnið er að þessa dagana mun skila minnst 800 rúmmetrum af timbri. Stórvirk vinnuvél er notuð við verkið sem gengur því greiðlega fyrir sig, nú í mildu haustveðrinu. „Skógarnir eru auðlind sem skilar okkur sífellt meiri afurðum,“ segir Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, í samtali við Morgunblaðið.
Fjallað var um málið á forsíðu Morgunblaðsins í gær og ítarlegar á innsíðu. Fram kemur þar að grisjunarviðurinn sem nú fellur til í Haukadal er að stórum hluta rauðgreni og stafafura sem nýtast mun sem eldiviður í ofnum járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga.
„Vissulega fara ekki allir trjábolirnir í iðnvið. Talsvert nýtist til dæmis í fiskihjalla og girðingarstaura og eitthvað er smíðaviður. Almennt talað er mjög ánægjulegt að sjá núna hvaða verðmæti skógurinn skapar og þó erum við aðeins á fyrstu metrunum þar,“ segir Trausti skógarvörður í blaðinu. Víða um landið séu skógarreitir sem nú þurfi að grisja og í því sambandi tiltekur hann bændaskóga sem gróðursett var til fyrir um aldarfjórðungi. Í þeim lundum séu sprottin stæðileg tré sem þurfi að fella en þannig geti þau líka skapað og skilað miklum verðmætum rétt eins og til var sáð í upphafi.
Áfram heldur blaðið:
Fellt í hálfrar aldar lundum
Trén sem felld eru í Haukdalsskógi núna eru að mestu lökustu trén í reitunum, rauðgreni, stafafura og sitkagreni, gjarnan 8-12 metra há og þvermálið gjarnan um 15 cm. Flest koma þau úr lundum sem var gróðursett í fyrir um hálfri öld eða svo. Nú er skógurinn þar yfirleitt orðinn þéttur og því er grisjun nauðsynleg. Verktakafyrirtækið 7-9-13 ehf. á Fljótsdalshéraði annast fellingu trjánna og notar til þess stórvirkar vinnuvélar sem Óskar Grönholm, eini menntaði Íslendingurinn í skógarhöggi með vél, stýrir.
Starfsmenn Skógræktarinnar eru til halds og trausts og kvista upp tré ef þörf er á. Trjábolunum er raðað upp í myndarlegar stæður og verða á næstunni sóttar, settar á flutningavagn og ekið með þær í verksmiðjuna í Hvalfirðinum. „Vissulega fara ekki allir trjábolirnir í iðnvið og í ofnana á Grundartanga. Talsvert nýtist til dæmis í fiskihjalla og girðingarstaura og eitthvað er smíðaviður. Almennt talað þá er mjög ánægjulegt að sjá núna hvaða verðmæti skógurinn skapar og þó erum við aðeins á fyrstu metrunum þar,“ segirTrausti.
Víða reitir sem þarf að grisja
Áður hefur verið tekinn góður skurkur við grisjun í Haukadalsskógi, rétt eins og var gert í Norð-tunguskógi í Borgarfirði á síðasta ári. „Skógræktin á líka talsvert inni til dæmis í skógunum í Þjórsárdal, á Tumastöðum í Fljótshlíð og víðar. Þar eru reitir sem þarf að grisja rækilega á næstu árum. Sama er uppi á teningnum í bændaskógum víða um land. Þar eru víða reitir sem var gróðursett í fyrir aldarfjórðungi og því er þar kominn grisjunarviður sem skilar verðmætum, rétt eins og til var sáð,“ segir Trausti Jóhannsson að lokum.
Vefur Morgunblaðsins