Skógræktarmenn ræða við RARIK-menn að verki loknu
Skógræktarmenn ræða við RARIK-menn að verki loknu

Verður upplagður skógarvegur þegar línan hverfur

Rafmagn var tekið af bæjum á Þelamörk í Hörgárdal í fjórar klukkustundir í gær meðan tré voru höggvin undan háspennulínunni sem færir íbúum sveitarinnar rafmagn. Hætta var orðin á að tré gætu sveiflast utan í línurnar eða fokið á þær í ofviðrum.

Grisjun stendur nú yfir í skóginum á Vöglum á Þelamörk. Kristján Már Magnússon skógverktaki og starfsmaður hans, Óskar Einarsson, vinna að grisjuninni með grisjunarvél. Í samvinnu við RARIK sem á og rekur háspennulínuna var fundinn hentugur tími til að hreinsa undan línustæðinu og þurfti að skipuleggja vel vinnuna svo þessir fjórir klukkutímar sem rafmagnið var tekið af nýttust sem best. Verkið tókst vel.

Háspennulína þessi á Þelamörk er orðin sextíu ára gömul. Undanfarin ár hefur RARIK unnið að því að leggja línur sem þessa í jörð og er stefnt að því að þessi verði tekin niður og ný lögð í jörð á næstu fimm árum. Ekki var þó hægt að bíða svo lengi án þess að hreinsa frá línunni því bæði getur skapast hætta og skemmdir orðið ef trjágróður snertir eða fellur á háspennulínur.

Þegar línan var lögð upp úr miðri síðustu öld voru einungis leifar birkiskógar í landi Vagla á Þelamörk. Síðan hefur verið ræktaður þar upp skógur með lerki, stafafuru, rauðgreni og fleiri tegundum. Þetta er mjög gróskumikill skógur og mikið um myndarleg tré sem hafa vaxið mjög vel síðustu áratugi eins og glögglega sést á árhringjum. Undanfarin misseri hefur mikið verið grisjað á Vöglum og enn er þó mikið eftir enda grisjun víða orðin löngu tímabær í skóginum.

Þegar háspennulínan verður tekin niður á línustæðið eftir að nýtast mjög vel til vegagerðar og verður góð leið til að fara um skóginn þegar vinna þarf í honum.


Línustæðið verður fyrirtaks vegstæði
fyrir skógræktarmenn að komast
um skóginn þegar línan verður tekin niður.

Rúnar Ísleifsson skoðar árhringina á stubbnum
af myndarlegu rauðgrenitré.

Benjamín Örn Davíðsson kvistar upp rauðgreniboli
og sker í lengdir.


Texti og myndir: Pétur Halldórsson