Í febrúar, mars og apríl var grisjað á vegum verkefnisins á innanverðu Héraði. Alls voru höggnir um 2000 rúmmetrar af timbri. Töluverðar breytingar urðu á vinnutilhögun þegar tekið var upp ákvæðisvinnukerfi. Í þessari breytingu fólst einnig breyting á vinnutilhögun þar sem samband Héraðsskóga og einstakra grisjunarmanna er komið meira út í verksamband frá því sem áður var.
Á jörðum sem eru með skógræktarsamning við Héraðsskóga eru skógarhöggsmennirnir ekki á launum hjá verkefninu, heldur fær viðkomandi skógareigandi framlag til grisjunar sem hann greiðir til skógarhöggsmannanna. Inn í þeirri upphæð eru öll laun og tryggingar, matarpeningar, akstur og vinnufata- og verkfæragjald.
Til að halda utan um grisjunina var leitað til Tölvusmiðjunnar ehf. til að hanna gagnagrunn til að halda utan um grisjunarverkefnin.
Umfang grisjunar á einstökum jörðum |
|
Jörð |
Rúmmetrar |
Einarstaðaskógur |
u.þ.b. 395 m3 |
Geitagerði |
423 m3 |
Mjóanes |
283 m3 |
Mýrar |
u.þ.b. 10 m3 |
Strönd |
135 m3 |
Útnyrðingsstaðir |
u.þ.b. 50 m3 |
Víðivellir 1 |
417 m3 |
Víðivellir 2 |
287 m3 |
Samtals |
u.þ.b. 2000 m3 |
Samtals störfuðu 15 manns við grisjunina, flestir samfellt þann tíma sem hún stóð yfir. Allt voru það skógarbændur með samning við Héraðsskóga. Í upphafi voru menn tortryggnir á að ákvæðisvinnukerfið myndi henta og voru í því sambandi haldnir tveir fundir með skógarhöggsmönnum þar sem rætt var um akkorðskerfið frá ýmsum sjónarhornum. Niðurstaðan er sú að kerfið virkar. Laun skógarhöggsmannanna voru að jafnaði hærri þegar þeir voru í akkorði en jafnframt jukust afköst. Á sumum jörðum var þó ekki unnið í akkorði. Það var á Einarsstöðum, Mýrum og Útnyrðingsstöðum. Ástæður þess voru að annars vegar voru reitirnir svo litlir að það hentaði ekki (Mýrum og Útnyrðingsstöðum) og hins vegar að grisjað var greni (Einarsstaðaskógur), en í forvinnunni við akkorðskerfið var eingöngu notast við tímamælingar í lerkigrisjun. Þar sem ákvæðisvinnukerfið byggir á rúmmáli trjánna var hægt að áætla grisjunarúrtak í teningsmetrum og dreifa á stærðarflokka.
Á súluritinu hér til hliðar má sjá grisjunarúrtak í teningsmetrum viðar (með berki). Flokkarnir (15-105) tákna stærðarflokka trjánna í lítrum. Kostnaður í fyrstu grisjun í lerki er milli 2500-6000 kr/m3 og fer hann aðallega eftir stærð trjánna. Útdráttur var með minnsta móti. Ástæðurnar fyrir því eru margar. Í fyrsta lagi vantar raunhæfar hugmyndir varðandi nýtingu á lerki í þessum stærðarflokk í annað en stauravinnslu. Efni til stauragerðar var dregið út í Geitagerði og svolítið á Víðivöllum. Í öðru lagi var tíðarfar þannig seinnihluta vetrar 2003 að jörð var þýð og illfær til útdráttar. Miklar vegaskemmdir hefðu orðið og eins verða bolir sem dregnir eru út við slíkar aðstæður mjög skítugir og fara illa með viðarvinnslutæki. Vegna þessara ástæðna var ákveðið að nýta fjármagn og mannskap í grisjun. Þó var dregið út efni til stauragerðar fyrir girðingarvinnu á vegum verkefnisins.