(mynd: Hreinn Óskarsson)
(mynd: Hreinn Óskarsson)

Nýir leigjendur stöðvarinnar vilja halda henni við og skapa störf

Bændablaðið segir frá því í nýjasta tölublaði sínu frá 20. nóvember að líf hafi nú færst í gróðrarstöðina á Tumastöðum í Fljótshlíð sem Skógrækt ríkisins rak á sínum tíma við góðan orðstír. Sem kunnugt er rak Skógræktin nokkrar gróðrarstöðvar og framleiddi trjáplöntur þar til fyrir um tuttugu árum þegar stofnuninni var gert að hætta því af samkeppnisástæðum. Síðustu gróðrarstöðvar S.r. voru lagðar niður á tíunda áratugnum og svipaða sögu má segja um gróðrarstöðvar sem skógræktarfélög ráku. Eftir stóðu fjárfestingar sem hafa verið misjafnlega mikið nýttar. 

Aðstaða í stöðinni á Tumastöðum hefur áður verið leigð út en í vor tók athafnamaðurinn Óskar Magnússon stöðina á leigu og byrjað var á því að sá til um 160 þúsund birkiplantna. Óskar býr nú ásamt konu sinni, Hrafnhildi Ingu Sigurðardóttur, á Sámsstaðabakka í Fljótshlíð og haft er eftir honum í Bændablaðinu að þeim hjónum hafi þótt sárt að horfa á stöðina í niðurníðslu. Því hafi hann haft samband við Skógræktina og samið um leigu á stöðinni. Óskar segir meininguna með þessu aðallega vera að viðhalda þessari sögufrægu gróðrarstöð og skapa atvinnu í sveitinni.


Texti: Pétur Halldórsson
Mynd: Hreinn Óskarsson