Í sumar og haust hefur töluvert verið gróðursett af sitkagreni og fleiri tegundum í Mosfell í Grímsnesi. Skógrækt hefur verið stunduð á leigulandi í Mosfelli í Grímsnesi sem er jörð í eigu þjóðkirkjunnar, síðan árið 1989.

16102012-(3)16102012-(2)16102012-(4)Fyrstu árin var mest gróðursett af stafafuru og lerki. Stafafuran spratt vel en lerkið átti erfitt uppdráttar. Upphaflega var lerkið gróðursett í aðra hverja rás og var hugmyndin að nýta skjólið af lerkinu fyrir aðrar tegundir, s.s. sitkagreni, og nú um tuttugu árum síðar er verið að bæta greni inn í gisna lerkireiti. Verktakar sáu um gróðursetningu í sumar og nú á haustdögum kom hópur frá 4. flokki handknattleiksdeildar Ungmennafélags Selfoss og gróðursetti í um 7 ha lands. Alls hefur verið gróðursett í tæplega 40 ha af gisnum lerkiskógi og standa vonir til að lerkið hjálpi greninu af stað yfir erfiðasta hjallan sem eru fyrstu árin. Eftir nokkur ár verður lerkið smám saman grisjað úr skóginum og upp vex nytjaskógur af sitkagreni og sitkabastarði.


Myndir og texti: Hreinn Óskarsson