Birt með leyfi Austurfréttar
Birt með leyfi Austurfréttar

Líf og fjör er í skógunum fyrir jólin

 

Hallormsstaður
Hæsta jólatréð sem fellt er á Hallormsstað þetta árið er tæplega fjórtán metra hátt og stendur við álverið á Reyðarfirði. Felld voru um sextán tré sem eru yfir fjórir metrar á hæð og öll þeirra verða ljósum skreytt á Austurlandi nema eitt. Það er bæjartré Dalvíkinga, um tíu metra hátt. Fljótsdalshérað gefur vinabæ sínum í Færeyjum, Runavík, fallegan þin, fjögurra til fimm metra háan. Og til gamans má segja frá því að skógarvörðurinn á Austurlandi og starfsfólk hans hefur í áratugi sent forsetaembættinu tvo fjallaþini. Stærra tréð stendur í móttökusalnum á Bessastöðum, þriggja til fjögurra metra tré og hitt úti við. Tegundirnar sem seldar eru í ár eru rauðgreni, blágreni og lítilræði af fjallaþin og stafafuru, en flest þessi tré eru seld á Austurlandi. Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Hallormsstað, vildi ekki staðhæfa að hann hefði vinninginn yfir aðra skógarverði með hæsta jólatré ársins en benti á að verið væri að setja upp tré við verslunina Nettó á Egilsstöðum. Jón Loftsson skógræktarstjóri segði að það væri gríðarhátt og fallegt. Síðan hefur frést að tréð hafi mælst 15 metrar og að það hafi verið 16 metrar þar sem það stóð í garði Kristins Kristmundssonar, sem jafnan hefur verið kenndur við Videofluguna. Þetta er 47 ára gamalt tré. Einn dag í desember gefst almenningi kostur á að ganga í skóginn og velja sér jólatré til að fella. Þá er boðið upp á ketilkaffi að skógarmanna sið ásamt lummum sem eldaðar eru yfir báli. Þetta verður sunnudaginn 15. desember milli kl. 12 og 15 á Hallormsstað.

Hreðavatn
Hæsta tréð frá skógarverðinum á Vesturlandi í fyrra var tólf metra hátt. Því var laumað svo lítið bar á að hafnarbakkanum í Reykjavík og kallað Hamborgartré því venjubundin sending frá Hamborg brást. Valdimar Reynisson, skógarvörður á Vesturlandi, segir að í ár séu hæstu trén af svæði hans um tíu metra há. Þetta séu ríflega fimmtíu torgtré frá 2,5-3 metra trjám upp í þessi tíu metra tré. Flest eru í stærðunum 5-6 metra og 6-7 metra, samtals um tuttugu stykki. En þótt Valdimar geti ekki státað af hæsta jólatrénu í ár segist hann viss um að hann sé með þau fallegustu, tvo fjallaþini, 3-4 metra háa. Annar þeirra verður jólatréð í samkomusal elliheimilisins Grundar. Mjög falleg rauðgrenitré koma nú úr skógunum á Vesturlandi en lítið verður um stafafuru þetta árið því illviðri og snjóþyngsli brutu mikið af henni í helstu furureitunum í hitteðfyrra. Valdimar segir að eins og venjulega verði hægt að koma í Selskóg og saga sér jólatré eina helgi í desember. Annars eru helstu fréttir þaðan þessa dagana að í blautviðrinu hefur vegurinn breyst í forarsvað og jafnvel verið illfær fólksbílum, kaflinn við Hvammslandið þar sem malbikið endar, fram hjá bækistöð Skógræktarinnar og inn að Stálpastöðum.

Gunnarsholt
Þá lítum við á Suðurlandið þar sem Hreinn Óskarsson er skógarvörður með bækistöðvar í Gunnarsholti. Hann gefur ekki mikið fyrir yfirlýsingar starfsbróður síns á Vesturlandi um fallegasta tréð því að þau eigi í sunnlensku skógunum marga fallega þini en tími ekki að höggva þá. Óstaðfestar fregnir eru af því að í ár hafi verið fellt 12,5 metra hátt tré sem reyndar hafi þurft að stytta því viðskiptavinurinn bað ekki um svo stórt. Þetta átti að vísu ekki að fréttast fyrir jól því eystra reyna menn víst alltaf að finna enn hærra tré ef fréttist af stórum trjám í öðrum landshlutum. Hæsta tréð sem fellt var í sunnlensku skógunum á árinu, gæðatré, tæpir tuttugu metrar, reyndar ekki jólatré heldur timburtré úr grisjun. Hæsta jólatréð sem fellt hefur verið þar syðra, var fellt í Haukadal í góðærinu, 17,2 metra hátt tré sem Orkuveita Reykjavíkur keypti dýru verði, ef skógarvörðinn minnir rétt. Annars koma milli 55 og 60 torgtré úr sunnlensku skógunum í ár, mest 3-4 metra há. Stofutré verða milli þrjú og fjögur hundruð talsins, rauðgreni, blágreni, stafafura og einstaka fjallaþinur. Greinar í búntum verða til sölu í verslunum eins og Blómavali og Byko. Jólatrjáasala fyrir almenning fer fram í Haukadalsskógi laugardagana 7. og 21. desember  á meðan bjart er milli kl. 11:00 og 16:00. Tré á bilinu 0,5-2 m á hæð kosta 5.000 kr. en 2-3 m 6.000 kr.  Dagana 8., 14. og 15. desember verður gestum jólahlaðborðs á Geysi boðið að kaupa jólatré í skóginum og sökum þess hversu margir gestir sækja það hlaðborð er ekki hægt að bjóða öðrum gestum á sama tíma í skóginn. Það er einfaldlega ekki pláss fyrir fleiri bíla á mjóum vegum.

Vaglir
Skógarvörðurinn á Norðurlandi, Sigurður Skúlason á Vöglum, segist ekki taka þátt í þessum metingi starfsbræðra sinna um hæsta jólatréð enda sér Skógræktarfélag Eyfirðinga að mestu um að útvega þau torgtré sem seld eru á svæðinu. Flest eru það 6-7 metra tré. Sigurður segir að nú væri hægt að aka þó nokkuð af 8-9 metra háum trjám en þau séu óþarflega stór í flestum tilvikum. Dalvíkingar þurfa tíu metra hátt tré en þau er ekki enn að fá fyrir norðan. Dalvíkurtréð kemur því austan frá Hallormsstað eins og fyrr segir. Hins vegar sendir Sigurður  rúmlega 100 rauðgrenitré í jólatréssöluna hjá Sólskógum í Kjarnaskógi. Þessa dagana fer mesta púðrið hjá Sigurði og starfsliði hans í að útvega trjávið sem járnblendiverksmiðja Elkem á Grundartanga kaupir. Á næstunni fara þangað 6-7 bílfarmar að norðan. Sigurður segir að þetta sé grisjunarviður og samningurinn við Elkem geri að verkum að timbursalan standi vel undir kostnaði við grisjunina.  En þótt þau á Vöglum taki ekki þátt í keppninni um hæsta jólatréð segist Sigurður anda alveg rólega því að hann þykist vita að í Vaglaskógi sé hæsta birkitré landsins og það dugi. Birki í Vaglaskógi hefur mælst tæpir fjórtán metrar og slík tré eru orðin ríflega hundrað ára gömul. Væntanlega fara lerki- og aspartré fram úr birkinu í Vaglaskógi innan fárra ára. Fyrir norðan getur almenningur fellt eigin jólatré í Laugalandsskógi á Þelamörk tvær síðustu helgarnar fyrir jól milli kl. 11 og 15 á vegum Skógræktarfélags Eyfirðinga Þar vex aðallega stafafura en einstaka rauð- eða blágreni má finna líka. Ketilkaffi og kakó verður á boðstólum. 

 

Mynd: Austurfrétt/Gunnar Gunnarsson