Mynd tekin í norðurátt úr birkireitnum vestast í Hvammsfjöllum í Ódáðahrauni. Sellandafjall í baksýn. Ljósmynd: Árni Sigurbjarnarson
Birkiskógur er mögulega fundinn í meiri hæð en vitað er um annars staðar á landinu. Skógur þessi eða kjarr vex í um 590-630 metra hæð yfir sjávarmáli og virðist í framför. Sumarvöxtur á bæði birki og víði mælist 20 sentímetrar eða meira. Með friðun og markvissum aðgerðum mætti breiða út birkileifar sem víða er að finna á öræfunum sunnan Mývatnssveitar, allt frá Búrfellshrauni í norðaustri að Hvammsfjöllum í suðvestri.
Vestast í Hvammsfjöllum í Ódáðahrauni er brekka sem snýr mót vestri. Innan ferhyrnings sem er um þrír og hálfur hektari að stærð vex gróskumikið birki á um það bil helmingi svæðisins og ýmis annar gróður, svo sem fjallavíðir, loðvíðir, einir, gulmaðra, grös og fleiri tegundir. Svæðið nær upp í ríflega 600 metra hæð yfir sjó og þekja birkis virðist vera vel yfir þeim mörkum sem skilgreina skóglendi. Margt bendir til þess að þarna sé því kominn sá birkiskógur eða birkikjarr sem vex er hæst yfir sjó á Íslandi þótt birkihríslur megi finna hærra yfir sjó annars staðar.
Árni Sigurbjarnarson, skógræktarmaður á Húsavík, var á ferð um Ódáðahraun nýlega ásamt félögum sínum og komu þeir við í þessari gróðurtorfu sem er sannkölluð vin í eyðimörkinni. Hann segir að nú í sumar megi þarna sjá a.m.k. 20 sentímetra sprota á bæði birki og víði og telur að hvort tveggja sé í framför, þrátt fyrir að á svæðið slæðist stöku sauðkindur á hverju sumri. Fé hefur hins vegar fækkað mjög á þessum slóðum á síðari árum og nú sést þarna nýliðun hjá bæði birki og víði.
Framvindan er þó ekki hröð en án efa má þakka hlýrri sumrum að undanförnu og minnkandi beit því að þessu svæði skuli ekki fara aftur. Þessi gróðurtorfa ber þess merki að á þessum slóðum hafi land verið mun betur gróið á öldum áður. Ekki er ósennilegt að langt fram eftir öldum hafi vaxið birkikjarr víða á öræfunum sunnan Mývatnssveitar. Enn er að finna birkileifar hingað og þangað um svæðið, til dæmis í Sellandafjalli og Bláfjallsfjallgarði, í Lúdent og víðar. Þar er víða hvítstofna, fallegt birki, leifar af víðáttumiklu skóglendi sem áður var. Gróskumest og þéttast er birkið austast í Búrfellshrauni þar sem er eitt víðfeðmasta birkikjarr á landinu. Þar erum við að vísu komin niður í um 375 metra hæð yfir sjávarmáli en í jaðri hálendisins engu að síður.
Birkitorfan í Hvammsfjöllum er minnisvarði um forna gróðurþekju en segir okkur jafnframt að víða á hálendinu eru vaxtarskilyrði fyrir birki- og víðikjarr. Þau skilyrði hafa batnað undanfarin ár með hlýnandi veðri. Með beitarfriðun og markvissum landeflingaraðgerðum má breiða út slíkt gróðurlendi á ný eins og gert hefur verið með góðum árangri víða, til dæmis á Þórsmörk og á Hekluskógasvæðinu. Þótt sumar sé stutt í Ódáðahrauni verða sumardagar þar gjarnan mjög hlýir og hafgolu gætir ekki.
Meðfylgjandi ljósmynd hér efst tók Árni Sigurbjarnarson í sumar í birkikjarrinu í Hvammsfjöllum og einnig stutt myndband hér að neðan sem hjálpar fólki að glöggva sig á aðstæðum. Myndbandið endar á því að horft er í norðvesturátt til Sellandafjalls. Skjámyndirnar tvær eru teknar af map.is. með góðfúslegu leyfi Loftmynda ehf. Hvorum tveggja er þakkað myndefnið.