Sums staðar er birkið í litlum en stækkandi flákum í brekkunum ofan árinnar
Mikil gróðurframvinda á óbeittu landi efst í austanverðum Austurdal
Lítil sem engin sauðfjárbeit er efst í austanverðum Austurdal í Skagafirði. Í ferð skógræktarmanna þar um í síðustu viku sást greinilega að birki á svæðinu er í mikilli framför. Birki í Stórahvammi mældist vera í 624 metra hæð yfir sjávarmáli og er að öllum líkindum það villta tré sem vex hæst yfir sjó á Íslandi.
Tveir starfsmenn Skógræktar ríkisins, Brynjar Skúlason og Pétur Halldórsson, gengu um efsta hluta Austurdals austan megin fimmtudaginn 21. ágúst. Gengið var frá gangnamannakofanum Grána við Geldingsá og niður að ánni Hölkná sem er hátt í 10 kílómetra ganga. Ferðin var farin til að safna upplýsingum um útbreiðslu birkis í Stórahvammi og Lönguhlíð. Söfnun þessi er hluti af kortlagningu skóglendis á Íslandi í verkefninu Íslenskri skógarúttekt. Stefnt er að því að kortlagningu birkiskóga á landinu ljúki á þessu hausti en meðal annars er eftir að skoða merkilegt birkiskóglendi neðar í Austurdal þar sem heitir Fagrahlíð. Þar vex allmikið af nokkurra metra háu birki.
Í göngunni um Stórahvamm og Lönguhlíð kom í ljós að birkið þar er greinilega að sækja í sig veðrið og sama má segja um t.d. gulvíði og loðvíði. Víða sáust um 20 cm langir árssprotar á birkinu eftir sumarið. Í mörgum tilfellum virtust trén vera að teygja sig upp í loftið og með sama áframhaldi ættu þau að líkjast meira trjám en runnum áður en langt um líður.
Fræmyndun á birki í yfir 500 metra hæð yfir sjó.">
Hæsta birkikjarrið var yfir fjögurra metra hátt en víða er það mun jarðlægara og ekki nema mittishátt. Víða mátti sjá að fræ væri að þroskast á birkinu og jafnvel litlar fræplöntur á stöku stað. Útbreiðsla birkisins efst í Austurdal kemur betur í ljós þegar farið hefur verið yfir gögnin sem safnað var en í grófum dráttum má segja að nokkuð samfellt birkikjarr sé á nokkurra kílómetra kafla á um 100 metra breiðri rönd með fram Austari-Jökulsá. Þarna vex birkið í 500-600 metra hæð yfir sjó.
Ekkert sauðfé sást á þessum slóðum og engin lambaspörð en þó mátti greina mjög nýleg spor eftir eina kind ofarlega. Ekki er ósennilegt að það sé eina sauðkindin sem þarna hefur gengið um í sumar því hvergi var hægt að greina merki um sauðfjárbeit á svæðinu og allur gróður ber þess merki að vera í mikilli framför. Augljósustu merkin voru, auk birkis og víðis, plöntur af tegundum sem alls staðar hverfa þar sem beit er að ráði, svo sem ætihvönn, blágresi og eyrarós. Mikið var til að mynda af ungum sáðplöntum af eyrarós upp um mela og móa. Loðvíðir og gulvíðir er líka mjög ræktarlegur þarna í brekkunum og sums staðar er beinlínis torfært um fyrir birki- og víðikjarri.
Hér sést vel hversu mikill munur er á gróðurfari austan ár þar sem engin beit er og vestan ár þar sem er talsverð beit.">
Handan Austari-Jökulsár er aftur á móti talsvert mikil sauðfjárbeit og sáust margar kindur þar í brekkunum ofan við ána. Ekki er annað að sjá en gróðurskilyrði séu svipuð þeim megin árinnar en þar var þó hvergi hægt að koma auga á birki og allur víðir var mjög jarðlægur. Þarna virtist því mega sjá augljósan mun á beittu og friðuðu landi.
Í bók sinni, Gróður á Íslandi, skrifaði Steindór Steindórsson náttúrufræðingur árið 1964: „Stórihvammur er hæsti fundarstaður birkis hér á landi, svo að kunnugt sé“. Samkvæmt nýjustu mælingum er talið víst að hávaxnasta tré á Íslandi sé á Kirkjubæjarklaustri eins og nýlega var greint frá hér á vefnum skogur.is. Aftur á móti má segja með nokkurri vissu að í Stórahvammi í Austurdal í Skagafirði sé hæsta villta tré á Íslandi - yfir sjó.
Áhugasömum má benda á grein Sigurðar Blöndals í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1984. Greinin heitir Fagrahlíð í Austurdal í Skagafirði. Sem fyrr segir er á döfinni að mæla þann skóg og forvitnilegt verður að sjá hvað sú mæling leiðir í ljós. Smellið hér til að lesa grein Sigurðar.
Brynjar skoðar efsta birkið í Austurdal. Það vex í 624 metra hæð og er í
greinilegum vexti með 10-20 cm langa sprota eftir sumarið.
Skyldu þetta vera hæstu tré á Íslandi - yfir sjó?