Sull verði gull

Vera kann að uppgræðslu- og skógræktar­svæðið á Hólasandi norðan Mývatnssveitar megi eiga von á reglulegum sendingum næringarefna úr byggðinni á komandi árum. Talið er að lækka megi kostnað við fráveitu­fram­kvæmd­ir í sveitinni verulega með því að flytja salernisúrgang á Hóla­sand í stað þess að koma upp dýrum fráveitu­mann­virkj­um með hreinsibúnaði.

Ríkisútvarpið fjallaði um málið og ræddi við Þorstein Gunnarsson, sveitarstjóra Skútu­staða­hrepps, sem líst vel á þessa leið og telur hana vænlegri til árangurs en þær leiðir sem hingað til hafa verið kannaðar til að leysa frárennslismálin í Mývatnssveit.

Hólasandur var áður gróið land en blés upp og var orðið örfoka land á fyrri hluta síðustu aldar. Undanfarinn aldar­fjórðung hefur verið unnið að uppgræðslu og skógrækt á sandinum. Næringarskortur er einn stærsti þröskuldurinn að yfirstíga á sandinum og hefur reynst best að nota lúpínu og lerki við uppgræðslustarfið, tegundir sem nýta sér sam­býli við örverur og sveppi til að sækja sér næringarefni.

Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að efla næringarástand jarðvegsins. Vel hefur gefist að dreifa gori á sandinn og tilraunir eru gerðar með notkun moltu svo eitthvað sé nefnt. Í merkum tilraunum Landgræðslunnar og Hruna­manna­hrepps á Hrunamannaafrétti hefur komið í ljós að niðurlagning seyru í beran sand gerir að verkum að fræ sem leyn­ast í sandinum taka að spíra og græn slikja breiðist yfir sandinn á skömmum tíma. Í ljósi þessa árangurs er spenn­andi að sjá hvort úrgangur sem ella hefði verið erfitt og dýrt að koma í lóg geti ekki nýst til að flýta fyrir því að Hóla­sandur verði aftur að grænu og gjöfulu landi.

Þorsteinn talar um að „sull verði gull“ með þessu móti og það er líklega vel við hæfi í ljósi þess starfs sem samtökin Húsgull hafa unnið á Hólasandi auk opinberra stofnana, fyrirtækja, einstaklinga og annarra.

Í frétt Ríkisútvarpsins segir:

Fráveitumál hafa verið til vandræða við Mývatn og hefur fólk áhyggjur af áhrifum á lífríki. Skútustaðahreppur og rekstraraðilar vinna samkvæmt umbótaáætlun og hefur verið rætt um að koma upp hreinsistöðvum í þéttbýlis­kjörnunum, Reykjahlíð, Vogum og Skútustöðum.

Hagkvæmara en hreinsistöðvar

Ný hugmynd var kynnt á fundi sem haldinn var í Mývatnssveit á föstudag. Í henni felst að svartvatni, sem kem­ur úr salernum, verði safnað saman og flutt á Hólasand þar sem það verði nýtt sem næringarefni. „Þetta er tal­in mjög hagkvæm lausn ef maður ber saman við hreinsistöðvarnar og náttúrulega mun sjálfbærari lausn á allan hátt því þarna nýtast næringarefni til uppgræðslu,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaða­hrepps.

Kostnaður sveitarfélagsins vegna fráveituframkvæmda hefur verið áætlaður um 700 milljónir króna og hefur ver­ið rætt við stjórnvöld um fjármögnun. Þorsteinn segir þessa leið ódýrari en að setja upp hreinsistöðvar. „Það er auðvitað of snemmt að segja til um það, en þetta er umtalsverður sparnaður,“ segir Þorsteinn.

Vinna gull úr sulli

Landgræðslan á frumkvæði að þessari aðferð og hefur prófað hana í Hrunamannahreppi með góðum árangri. Samkvæmt lögum og reglum þarf að hreinsa 75% næringarefnanna en Þorsteinn segir að ef stóru rekstrar­aðilarnir hreinsi þeim mun betur sé hægt að komast hjá því að setja upp hreinsistöðvar í þéttbýli. Í því felist sparnaðurinn. Þorsteinn segir að málið sé á byrjunarstigi, en þetta sé nálgun sem honum hugnist vel og gæti leyst vandann. „Þarna er í raun verið að taka það sem sumir kalla sull og vinna þetta þannig að það sé nokkurs konar gull,“ segir Þorsteinn Gunnarsson.

PH