Skógræktarstjóri flytur ávarp sitt á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands 2019 í Kópavogi. Ljósmynd: R…
Skógræktarstjóri flytur ávarp sitt á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands 2019 í Kópavogi. Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

 

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri flutti ávarp við upphaf aðalfundar Skógræktarfélags Íslands sem fram fór í Kópavogi 30. ágúst til 1. september 2019. Þar reifaði hann svör við nokkrum spurningum um þau verkefni sem eru fram undan í skógrækt á Íslandi og almennar framtíðarhorfur. Þröstur telur að nægilegt land sé til að auka skógrækt en huga verði að auknu hlutverki verktaka við gróðursetningu. Uppbygging sé fram undan hjá gróðrarstöðvum til að mæta vaxandi eftirspurn. Nóg sé til af fræi af helstu trjátegundum þótt betur þurfi að huga að framboði á stafafurufræi og vinna áfram að aukinni fræframleiðslu á Hrym. Til framtíðar þurfi að huga að útbreiðslu birkis hærra yfir sjó og endurskoða notkun á rússalerki með hlýnandi loftslagi. Jafnframt þurfi að huga að uppbyggingu timburauðlindarinnar, meðal annars svo timbur geti leyst steinsteypu af hólmi í byggingum. Erindi Þrastar fer hér á eftir í heild sinni.

 

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, Kópavogi, 29.-31. ágúst 2019

Ávarp skógræktarstjóra,
Þröstur Eysteinsson

Fyrir ári síðan sagði ég frá því að bjartir tímar væru fram undan í íslenskri skógrækt. Þá mátti ég ekki segja frá í neinum smáatriðum en þið hlóguð dátt þegar Jónatan gantaðist með það að um yrði að ræða milljarða króna. Skömmu seinna gerði ríkisstjórnin áætlunina opinbera og talaði þá um milljarða króna. Áætlunin nær að vísu ekki milljarði króna á ári fyrr en eftir fjögur ár og enn mun allmikið vatn renna til sjávar áður en við sjáum áætlunina standast. En við erum byrjuð á þessari vegferð og heilmikið hefur verið hugsað og undirbúið á liðnu ári.

Vaknað hafa ýmsar spurningar og við höfum reynt að svara þeim, fyrst með athugun á stöðunni og svo með aðgerðum er þörf er á. Þær eru t.d.:

Er nóg land fyrir alla þessa skógrækt?

Stutta svarið er; já auðvitað.
Skortur á landi verður ekki takmarkandi á komandi árum. Um 18.000 hektarar af landi sem ekki er búið að gróðursetja í eru samningsbundnir innan skógræktar á lögbýlum. Sumt af því eru úrtök og því verður ekki gróðursett í það allt, en segjum að gróðursett verði í 2/3 þess eða 12.000 hektara. Það land tekur við 30 milljónum plantna og dugar því í nokkur ár. Svo eru ný svæði alltaf að bætast við. Ég undirrita u.þ.b. einn nýjan skógræktarsamning á viku.

Svo eru það samstarfssvæðin með Landgræðslunni; Hekluskógar, Þorláksskógar, Hólasandur og fleiri. Þar er samanlagt eitthvað á annað hundrað þúsund hektara sem eru hæfir til skógræktar og munu því duga okkur alllengi líka.

Misjafnt er hvaða aðgang skógræktarfélög hafa að landi. Hjá sumum er það takmarkað og þar þarf að finna lausnir. Þá er komið að næstu spurningu.

Er til nægur mannafli til að gróðursetja?

Stutta svarið er; já en...
Það fer ekki alltaf saman, vinnuaflið og gróðursetningasvæði. Sum skógræktarfélög hafa margar vinnandi hendur en lítið land innan þægilegrar seilingar. Sums staðar er mikið land sem þarfnast aðgerða en fátt fólk á svæðinu. Það er kúnst að láta þetta fara saman. Skógræktarfélag Íslands hefur unnið mikið með þetta vandamál og þekkir það vel. Niðurstaðan er að gera út flokka gróðursetningarmanna, m.ö.o. að gerast verktakar í gróðursetningu fyrir þau skógræktarfélög þar sem ekki eru nægilega margir virkir sjálfboðaliðar. Það er nú svo með okkur flest sem höfum líka nóg annað að gera að tíminn sem við getum tekið frá til að gróðursetja er takmarkaður. Þetta þarf að viðurkennast og með aukinni gróðursetningu verður aukin þörf á verktökum til að vinna verkin. Við erum að skoða leiðir til að leysa þetta. Best er að innlendir aðilar gerist verktakar í gróðursetningu og þeir eru nokkrir. Erlendir verktakar hafa einnig sýnt áhuga. Þetta verður leyst.

Er nægileg aðstaða í gróðrarstöðvum til að framleiða allar plönturnar?

Stutta svarið er; já hingað til, en ekki þegar framleiðsla fer mikið yfir 5 milljónir plantna.
Þar hefur einkageirinn þó tekið við sér og er mikill undirbúningur í gangi. Sólskógar í Kjarna eru að reisa nýtt stórt gróðurhús og stefna í framleiðslugetu upp á ca. 5 milljónir plantna. Á Suðurlandi halda Kvistar áfram með sína framleiðslu. Þrír aðrir aðilar undirbúa nú að hefja skógarplöntuframleiðslu á næsta ári. Ég hef mun minni áhyggjur af þessum þætti en ég gerði fyrir ári síðan. Það er þó mikilvægt að áætlanir um fjármögnun standist nokkurn veginn svo þetta geti gengið.

Er til nóg fræ og græðlingaefni?

Stutta svarið er; já en ekki af öllum tegundum og við þurfum að vinna markvisst að því að bæta stöðuna.
Rússalerkifræ, sem er allt innflutt, er af skornum skammti og við getum því ekki aukið þá framleiðslu að ráði. Lerkiblendingurinn Hrymur kemur í staðinn í auknum mæli og við vinnum að því að auka fræframleiðslu á honum. Við vinnum einnig að því að auka græðlingaframleiðslu á alaskaösp og miðum þar við hina nýju ryðþolnu klóna sem Halldór Sverrisson hefur verið að velja. Þeir eru líka allir hraðvaxta og tiltölulega beinvaxnir og því munum við sjá meiri og betri asparskóga á komandi árum. Við leggjum áherslu á að afla stafafurufræs á hverju hausti og það hefur dugað hingað til en óvíst er að við náum að uppfylla þörfina á hverju ári eftir því sem hún eykst. Við eigum engan varaforða. Tilraunir með kynbætta stafafuru frá sænskum frægörðum lofa góðu og líklega munum við sjá stafafuru frá frægörðunum í Oppala og Nærlinge koma sterkar inn á komandi árum. Af sitkagreni eru til fræbirgðir til margra ára og þar getum við aukið framleiðsluna verulega. Þar þurfum við þó að gera betur í landvali – velja handa greninu brekkur en ekki flatlendi og gróðursetja það með stafafuru eða jafnvel bergfuru þar sem land er rýrt. Af birki eru einnig til góðar fræbirgðir og oftast hefur ekki reynst erfitt að safna fræi þegar þörf er á. Þar viljum við þó nota besta fáanlega efniviðinn, sem núna er Embla eða Bæjarstaðarúrval. Og þá kemur að síðustu spurningunni.

Hvað með framtíðina?

Birkikemba breiðist nú út um landið og birkiþéla enn hraðar. Báðar tegundirnar sækja meira á birki með tiltölulega stór blöð en á smáblöðótt birki. Það vill svo til að í viðleitni okkar, sérstaklega Þorsteins Tómassonar, til að kynbæta birki og draga þar með úr áhrifum fjalldrapagenanna í því, hefur birkið sem við viljum nú mest nota í skógrækt orðið blaðstærra en kjarrbirkið sem við viljum síður nota. Við erum enn að læra á þessi nýju kvikindi og vitum ekki hver allur skaðinn verður þegar upp er staðið. Við vitum að laufblöð verða brún og trén því lítil prýði í görðum, en um áhrif á vöxt eða kal, sem máli skipta í skógrækt, vitum við minna. Í versta falli geta síendurteknar árásir þessara kvikinda haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér, stórfelldan trjádauða. Og þegar þær eru búnar með gróðursetta stórblaða birkið ráðast þær á kjarrskógana. Kannski mála ég skrattann á vegginn en dæmi  eru um að nýir skaðvaldar hafi útrýmt trjátegundum sem ríkjandi skógartrjám, t.d. kanadaþöll, kastaníu og álmi. Íslenskt dæmi er útrýming furulúsar á skógarfuru sem gjaldgengu skógartré. Ekki er útilokað að birkiskógarnir lendi í miklum vanda, sérstaklega á láglendi, þegar hlýnar og aðstæður fyrir ýmsar pöddur og sveppsjúkdóma batna enn frekar. Birkiskógar þurfa að geta breiðst meira út í meiri hæð yfir sjávarmáli en hingað til. Við þurfum líka að íhuga vel hvort við viljum halda áfram að gróðursetja mikið birki á láglendi, fylgjast með þrifum þess og bregðast við þegar þörf er á.

Það sama er að segja um rússalerki, sem þegar sýnir vanaðlögun á láglendi og það víðar en á Suðurlandi. Við ættum hugsanlega nú þegar að hætta að gróðursetja það neðar en í ca. 200 m hæð yfir sjávarmáli, nota Hrym í staðinn á rýru landi sem helst hentar lerki. Framtíðin er síðan evrópulerki. Nú í vor sá Brynjar Skúlason um val á bestu einstaklingum evrópulerkis og græddi á til undirbúnings frægarðs fyrir evrópulerki hérlendis. Hann verður farinn að framleiða fræ eftir ca. 20 ár, þegar meðalhiti hefur hækkað um eina gráðu í viðbót og októbermánuður orðinn frostfrír víða um land í flestum árum. Við erum sem sagt að veðja á evrópulerki sem framtíðartré á Íslandi. Og degli verður sennilega næst.

Sitkagreni, stafafuru og alaskaösp höfum við minni áhyggjur af. Þau verða okkar tré um ókomin ár. Allt sem við þurfum að gera er að nota suðlægari kvæmi eftir því sem hlýnar.

Meðal þess sem Skógræktin, áður Skógrækt ríkisins og þar áður embætti skógræktarstjóra, hefur alltaf haft á sinni könnu er að stuðla að vernd og aukinni útbreiðslu náttúruskóga. Núverandi ráðherra skógræktarmála leggur sérstaka áherslu á þennan þátt skógræktar og við hjá Skógræktinni tökum undir það. Aukin útbreiðsla náttúruskóga er þó háð landnotkun, einkum breytingum á fyrirkomulagi sauðfjárbeitar og öðrum ákvörðunum um meðferð lands, sem við hjá Skógræktinni höfum ekki mikil áhrif á. Þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að ná að skapa aðstæður til aukinnar útbreiðslu náttúruskóga nást því ekki öðruvísi en að vinna með öðrum aðilum sem áhrif hafa á landnotkun og með því að taka þátt í samfélagsumræðunni um þessi mál, sem ég kallaði leðjuslag á Facebook um daginn. Það er hlutverk Skógræktarinnar og ekki síst hlutverk mitt sem skógræktarstjóra að taka þátt í þeirri umræðu og halda þar fram sjónarmiðum sem stuðla að aukinni útbreiðslu skóga, náttúruskóga sem annarra. Sumum kann að finnast að þau sjónarmið stangist stundum á við aðra hagsmuni, svo sem hefðir í sauðfjárrækt eða friðlýsingar á auðnum en það verður bara svo að vera. Þetta er okkar hlutverk og okkar rödd í samfélagsumræðunni.             

Heimsbyggðin er loksins að átta sig á alvarleika loftslagsröskunar og stjórnvöld eru víða loksins að bregðast við. Fyrstu viðbrögð eru að hvetja til valkvæðra aðgerða, eins og að kolefnisjafna sig með því að gróðursetja tré. Það mun þó ekki duga og við erum þegar að sjá vísbendingar um harðari aðgerðir eins og hækkun vissra skatta og síðan boð og bönn. Allt er undir. Meðal þess sem þarf að laga er notkun steinsteypu í byggingum, því sementsvinnsla losar mjög mikinn koltvísýring út í andrúmsloftið. Við höfum þó annað gott byggingarefni í staðinn – timbur – sem bindur kolefni frekar en að losa það. Ég spái því að á seinni helmingi þessarar aldar verði komnar verulegar hömlur á notkun steinsteypu. Afleiðingar þess verða að timburverð mun snarhækka vegna aukinnar eftirspurnar. Dýrt verður og jafnvel erfitt að flytja það inn. Þá verður gott að eiga sína eigin timburauðlind. Það er nú ekki bara æskilegt að byggja upp slíka auðlind – það er bráðnauðsynlegt fyrir framtíð okkar. Við þurfum að stórauka skógrækt til timburframleiðslu og það strax, með sitkagreni, alaskaösp, stafafuru og lerki. Það er mikið í húfi. 

Tengdar fréttir:

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson