Eitt af því sem í boði var á Skógardeginum mikla í ár var leiðsögn í bogfimi. Ljósmynd: Anna Birna J…
Eitt af því sem í boði var á Skógardeginum mikla í ár var leiðsögn í bogfimi. Ljósmynd: Anna Birna Jakobsdóttir

Bjarki Sigurðsson, verkstjóri hjá Skógræktinni Hallormsstað, hreppti Íslandsmeistaratitilinn í skógarhöggi á Skógardeginum mikla sem fram fór í blíðuveðri á Hallormsstað 23. júní. Í 14 km skógarhlaupi komu fyrst í mark Jón Jónsson á tímanum 1.04.39 og Bergey Stefánsdóttir á 1.09.40. Talið er að allt að 2.000 manns hafi komið á hátíðina.

Skógardagurinn mikli var nú haldinn á Jónsmessunni í 14. skiptið í góðu veðri að vanda. Þór Þorfinnsson skógarvörður telur að um 1.800 til 2.000 gestir hafi komið í skóginn þennan dag. Dagskráin var fjölbreytt, Íslandsmót í skógarhöggi, skógarhlaup, söngfuglarnir Magni Ásgeirsson og Hlynur Jökulsson stigu á svið ásamt nemendum úr Fellaskóla og Króatíska kórnum. Sauðfjárbændur kynntu grillað lambakjöt. Að venju ætluðu nautabændur að bjóða upp á heilgrillað nautakjöt en svo óheppilega vildi til að nóttina fyrir hátíðina kviknaði í 250 kílóa kvígu sem komin var á grillið og brann hún til kaldra kola. Ekkert er þó hæft í því að svartgrenitré í skóginum hafi eyðilagst í eldinum.

Börnin lærðu tálgun, reyndu sig í bogfimi og ýmsum þrautum sem útbúnar höfðu verið úr viði skógarins. Eins og venja er var boðið upp á eldbakaðar lummur og ketilkaffi.

Skipuleggjendur Skógardagsins mikla þakka öllum bakhjörlum hátíðarinnar kærlega fyrir stuðninginn. Að deginum stóðu auk Skógræktarinnar Félag skógarbænda á Austurlandi, Félag sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum og Félag nautgripabænda á Héraði og Fjörðum.

Úrslit í Íslandsmeistaramótinu í skógarhöggi

  1. Bjarki Sigurðsson
  2. Kristján Már Magnússon
  3. Sigfús Jörgen oddsson og Lárus Heiðarsson

Úrslit í 14 km skógarhlaupi

Karlar

  1. Jón Jónsson                        01.04.39
  2. Valur Þórsson                     01.06.02
  3. Þórir Óskarsson                 01.10.31

 Konur

  1. Bergey Stefánsdóttir       01.09.40
  2. Guðlaug ÞórhallSdóttir   01.24.37
  3. Martina Kasparowa          01.30.12
 
Texti: Þór Þorfinnsson og Pétur Halldórsson
Myndir frá Skógardeginum mikla: Anna Birna Jakobsdóttir
Myndir af hlaupurum: