„Gróður og dýralíf, jarðvegur og veðrátta ræður allri þróun mannkynsins“
Mikill auður er í öllum þeim ljósmyndum sem Hákon Bjarnason tók á ferðum sínum um landið á löngum ferli sínum sem skógræktarstjóri. Gaman er að leita í þetta safn, finna myndir og taka nýjar frá sama sjónarhorni til að sjá hversu mikið landið hefur breyst með skógræktarstarfi síðan. Þá sést vel sú gróska sem fylgir skóginum og hvað landið tekur á sig heilbrigðan svip með auðugra og fjölbreyttara gróðurfari.
Fossinn litla sem sjá má hér á efstu myndunum tveimur til hægri er í Laugá neðan Svartagilshvamms þar sem áin rennur niður brekkurnar ofan við Haukadalsbæinn. Fyrir utan greniskóginn sem þarna vex og dafnar sjáum við að allur annar gróður er nú mun gróskumeiri en upp úr miðri síðustu öld þegar eldri myndin var tekin. Þá yngri tók Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, í síðustu viku. Rauðgrenireiturinn sem sést ofan við fossinn á myndinni er frá því um eða upp úr 1960.
Kirkjan í skóginum
Fyrsta kirkjan í Haukadal mun hafa verið reist árið 1030. Sú sem nú stendur var upphaflega reist á árunum 1842-43 en var rifin 1939 og endurbyggð á steyptum grunni. Endurbyggingin var kostuð með gjafafé frá Dananum Kristian Kirk sem gaf Skógrækt ríkisins jörðina Haukadal 1940. Þá var kirkjuskipið lengt og gluggum fjölgað.
Altaristafla, altari, bekkir og fleira var endurnýjað. Ásmundur Sveinsson skar altaristöfluna út í perutré og sýnir hún krossfestinguna. Kirkjan á silfurkaleik með patínu, altarisstjaka úr kopar og ljósahjálm. Haukadalskirkja er nú sóknarkirkja í Haukadal en heyrir undir Skálholt. Viðhald og endurbætur hafa verið kostaðar af Haukadalssókn.
Á eldri myndinni sem líklega er tekin á sjötta áratug síðustu aldar eru efnileg reynitré sem síðan hafa vaxið og dafnað. Nú er kirkjan í Haukadal umvafin fallegum skógi og steinsnar frá kirkjunni er aðalútivistarsvæði þeirra sem heimsækja Haukadalsskóg.
Brú á kafi í gróðri
Allólíkt er líka um að litast við litla brú í Haukadal frá því sem var þegar unnið var að brúarsmíðinni fyrir 60 árum eða svo. Við sjáum fábreytilegan gróður með jarðlægu kjarri eða hrísi á eldri myndinni en á þeirri yngri hefur birkið breiðst út og saman vaxa í sátt og samlyndi tegundirnar sem þarna voru fyrir og verðmætur íslenskur nytjaskógur með greni og furu.
Í blaðagrein sem Hákon Bjarnason skrifaði í Tímann 18. desember 1952 segir svo: „Með aukinni þekkingu á náttúrunni og lögmálum lífsins verður mönnum æ ljósara, hve mjög einstaklingar og þjóðfélög eru háð umhverfi sínu, hversu gróður og dýralíf, jarðvegur og veðrátta, ræður allri þróun mannkynsins. Hið gamla hreystiyrði, að maðurinn sé herra jarðarinnar, á sér enga staði. Hitt er sannara, að hann er skilgetið barn móður jarðar, og hann hlýtur því að verða að haga sér samkvæmt boði hennar. Að öðrum kosti verður hann ánauðugur þræll umhverfis síns og aðstæðna, leiðir ógæfu yfir sig en tortímingu yfir afkvæmi sín.“
Ætti Hákon Bjarnason afturkvæmt í Haukadal yrði hann vísast glaður að sjá þær breytingar sem hann tók þátt í að leggja grunninn að.