Þær Bergrún A. Þorsteinsdóttir, aðstoðarskógarvörður á Hallormsstað og Guðný Vésteinsdóttir á Hallormsstað byrjuðu í fyrravor að gera ýmsar tilraunir með birkisafa. Tilraununum hafa þær haldið áfram í vetur og starfa nú undir heitinu Holt og heiðar. Ýmsar hugmyndir um vörur sem framleiða má úr safanum hafa orðið til hjá þeim stöllum í vetur.  

„Ein hugmyndin er að búa til birkisíróp og koma því á markað. Til þess þarf að sjóða birkisafann niður um 90%. Við fengum á dögunum styrk frá Atvinnumálasjóði Fljótsdalshéraðs fyrir birkisírópspotti. Við komum líklega til með að kaupa hann frá Alaska. Þetta verður þá fyrsti birkisírópspotturinn hér á landi," segir Bergrún.

„Við reiknum með að einbeita okkur að undirbúningi og tilraunum í vor og sumar. Erlendis er mikið framleitt af sírópi úr trjásafa en hlynsíróp er algengast. Eitt helsta framleiðslusvæði birkisírópsins er Alaska og þangað má sækja ýmsa þekkingu á þessu svið."

Í birkisafanum eru mikil steinefni, andoxunarefni og sykrur. Hann er því sagður hafa ýmis heilnæm áhrif, s.s. hafa yngingaráhrif, efla kynhvöt, bæla frjókornaofnæmi og hafa góð áhrif á húð, hár og neglur.

 

Texti: Esther Ösp Gunnarsdóttir, kynningarstjóri Skógræktar ríkisins