Mikið af resveratróli í grenitegundum sem ræktaðar eru á Íslandi
Hannes Þór Hafsteinsson er nemi í matvælafræði við Háskóla Íslands og vinnur nú að meistaraverkefni á líftæknisviði. Þar hugar hann að því hvort fýsilegt er og mögulegt að framleiða andoxunarefnið resveratról úr íslenskum greniberki. Leiðbeinendur hans eru Björn Viðar Aðalbjörnsson, sérfræðingur á líftækni- og lífefnasviði MATÍS, og Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Resveratról er svokallað stilbeni, náttúrlegt fjölfenól sem finnst í ýmsum plöntum, meðal annars í vínberjum (Vitis vinifera) og japanssúru (Polygonum cuspidatum). Fjölfenól eru andoxunarefni sem gegna mikilvægu hlutverki við að draga úr oxun í frumum. Margar jurtir framleiða þetta efni þegar þær verða fyrir sýkingum af völdum baktería eða sveppa. Efnið er notað í heilsuvöruiðnaði en er nánast eingöngu framleitt úr rótum japanssúru eins og er.
Ekki er langt síðan menn komust að því að resveratról er að finna í greni-, lerki- og furutrjám. Eins og gefur að skilja er helst að finna þetta varnarefni í sýktum plöntum. Meðan sýkingar voru algengar í vínviðarplöntum var hlutfall efnisins um 30 millilítrar í hverjum lítra rauðvíns en nú orðið fer það sjaldan yfir 3-4 ml/l. Úr þurrkaðri rót japanssúru fást um 187 milligrömm af resveratróli úr hverju kílói en nú hefur komið í ljós að úr þurrkuðum greniberki má fá 460 millígrömm úr kílóinu. Þær grenitegundir sem gefa mest magn af efninu eru einmitt þær sem helst eru ræktaðar á Íslandi, til dæmis sitkagreni. Efnið finnst aðallega í innri berki trjánna og bestu trén til framleiðslu resveratróls eru óheilbrigð tré sem ekki henta til timburframleiðslu. Vinnsla resveratróls þyrfti því ekki aðs karast við viðarframleiðslu í íslenskum skógum.
Enn vantar mikið upp á að áhrif resveratróls á heilsu manna séu nægilega mikið rannsökuð. Ekki hefur verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að efnið veiti vörn gegn sjúkdómum en vísbendingar hafa fengist með tilraunum á rannsóknarstofum (in vitro), og dýratilraunum, að efnið hafi áhrif gegn öldrun, styrki hjarta og blóðrásarkerfi, vinni gegn krabbameini, auki frjósemi karla, verndi húðina, hamli gegn heilarýrnun og veiti líka vörn gegn bæði sykursýki og offitu. Eftir er þó að gera klínískar tilraunir á mönnum, bæði til að staðfesta skammtímaáhrif efnisins og langtímaáhrif.
Í iðnaði er resveratról notað í fæðubótarefni og heilsufæði, í húð- og snyrtivörur, gæludýravörur og í fyllingu tímans gæti það jafnvel nýst í lyfjaiðnaði.
Í meistaraverkefni sínu mælir Hannes Þór resveratrólinnihald í berki nokkurra grenitegunda á Íslandi, gerir mælingar á bæði heilbrigðum trjám og veikum, mælir á öllum árstímum og í öllum landshlutum. Þegar resveratról er unnið úr greniberki er börkurinn fyrst hreinsaður og þurrkaður. Vinnsluferlið getur verið mismunandi og eftir því fer hreinleiki efnisins sem getur verið frá 2% upp í 99%. Til að fá 99% hreinleika er beitt vinnsluferli sem er í 36 þrepum. Þar eru meðal annars notuð ensím í ferlinu. Markmiðið er að framleiða einkaleyfishæfa vöru og í vöruþróuninni verður athugað hvort sú vara sem kemur út sé hæf til að sækja um einkaleyfi fyrir. Hannes Þór vinnur með viðskiptafræðingi og verkfræðingi við að meta hagkvæmni hugsanlegrar framleiðslu en hér er til nokkurs að vinna því innflutningsverð á einu kílói af resveratróli frá Bandaríkjunum er um 200.000 krónur í heildsölu.
Verkefnið hefur fengið frumstyrk frá Tækniþróunarsjóði og í framhaldinu verður hugað að fleiri styrkjum og öðrum fjármögnunarleiðum.