Nýverið opnaði verkefnið Northern WoodHeat heimasíðu.

http://www.northernwoodheat.net/

Ísland, Finnland og Skotland standa saman að verkefninu sem er hluti af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (NPP). Áherslur þjóðanna þriggja, sem að verkefninu standa, eru mismunandi enda aðstæður ólíkar.

Í fréttatilkynningu kemur fram að í Finnlandi framleiðir skógurinn um 20% af þeirri orku sem þar er notuð. Finnsku þátttakendurnir koma fyrst og fremst að verkefninu sem ráðgjafar.
Skotland hefur gríðarlegra hagsmuna að gæta. Þar er orkuverð hátt og dreifikerfi raforku er að verða of lítið fyrir fyrirsjáanlega orkunotkun. Skotar eiga ennfremur mikið hráefni í skógum sem ekki hentar vel í annan iðnað.

Á Íslandi er þörf fyrir markað fyrir grisjunarafurðir bændaskógræktarinnar. Tilgangur verkefnisins hér á landi er að gera viðarkyndingu að raunhæfum valkosti á lághitasvæðum, einkum í dreifbýli. Með því er vilji til að slá nokkrar flugur í einu höggi, þ.e. lækka orkukostnað neytenda. Stuðla að grisjun ungskóga og gera þá verðmætari. Fjölga atvinnutækifærum í dreifbýli og nýta umhverfisvæna orku, að því er segir í tilkynningu.

Íslensku þátttakendurnir í þessu verkefni eru Héraðsskógar, Skógrækt ríkisins á Hallormsstað og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og leggja þessir aðilar fjármagn og vinnu til verkefnisins. Auk þess eru Orkusjóður, NPP, Byggðastofnun og Framleiðnisjóður Landbúnaðarins fjárhagslegir bakhjarlar.