Í Hallormsstaðarskógi á Fljótsdalshéraði ræður listelskt fólk ríkjum, því að nú stendur til að halda í skóginum fjórðu myndlistarsýninguna að vori.
Í Hallormsstaðarskógi á Fljótsdalshéraði ræður listelskt fólk ríkjum, því að nú stendur til að halda í skóginum fjórðu myndlistarsýninguna að vori.
Sýningin mun bera heitið Fantasy Island 2004 og í henni taka þátt átta íslenskir og erlendir samtímalistamenn á rýmisverkum. Þeir eru Joep van Lieshout, Paul McCarthy, Jason Rhoades, Elin Wikström, Hannes Lárusson, sem jafnframt er sýningarstjóri Fantasy Island, Katrín Sigurðardóttir, Björn Roth og Þorvaldur Þorsteinsson, öll vel metnir samtímalistamenn og sum vel þekkt á alþjóðavettvangi.
Inntak sýningarinnar er rýmishugsun í fjölbreyttum myndum, oftast í samfélagslegu návígi. Þetta einkennir vinnubrögð listamannanna ásamt vissu óstýrilæti, óvæntu hugmyndaflugi og innri spennu, eins og segir í kynningu.
Óstýrilæti og óþol
Hannes Lárusson sýningarstjóri segir undirbúning sýningarhaldsins ganga vel. "Þetta er stór sýning á íslenskan mælikvarða. Verkin eru unnin með tilliti til umhverfisins í víðu samhengi og með sterkri félagslegri skírskotun. Þetta sýnist mér muni einkenna flest verkin sem verða á sýningunni."
Hannes segir verkin verða sett upp í kringum og við Trjásafnið á Hallormsstað, en eitt verk verði þó á Eiðum og tengist sýningunni. Sum þeirra verði mjög stór og yfirgripsmikil.
"Listamennirnir eiga að mörgu leyti saman" segir Hannes, spurður hvers vegna einmitt þessir listamenn völdust saman. "Það er umfangið og breiddin í vinnubrögðunum hjá flestum þessara listamanna sem tengir þá saman."Verk þeirra spanna mjög vítt svið innan myndlistarinnar og teygja sig jafnvel milli listgreina líka. Visst óstýrilæti og óþol einkennir þau einnig."
Hannes segir viðbúið að sýningin veki athygli út fyrir landsteinana og grannt sé fylgst með verkum þessara listamanna á alþjóðlega vísu.
Laðar fólk að skóginum
"Aðkoma okkar að myndlistarsýningum hér í Hallormsstað hófst upphaflega með hugmyndinni um að opna þjóðskógana fyrir almenningi, merkja þá og hafa í þeim viðburði sem laða fólk að skógunum" segir Þór Þorfinnsson skógarvörður Skógræktar ríksins á Hallormsstað. "Í kjölfarið kom þessi hugmynd um listsýningar upp. Fantasy Island er fjórða sýningin sem við höldum í skóginum á nokkurra ára tímabili. Þetta er ekki aðeins liður í að opna skógana og fá fólk til að koma, heldur erum við með þessu einnig að gefa listamönnum tækifæri til að sýna listina í öðruvísi umhverfi en þeir eru vanir. Listamenn hérlendir eru í það minnsta flestir vanastir sýningarsölum. Einnig vildum við kynna þeim íslenskan við sem efnivið í listsköpun."
Sýningin verður fjármögnuð með framlögum sjóða, fyrirtækja og einkaaðila, en fjárhagslegt umfang hennar liggur ekki ljóst fyrir. Skógræktin leggur til aðstöðu, vinnu með listamönnunum og efni úr skóginum ef listamenn vilja nýta sér það.
Þór segir að brátt sé von á fyrstu hugmyndum og skissum af verkunum frá listamönnunum og fari þá hans menn brátt á stúfana að búa í haginn fyrir verkin í skóginum.
Sýningin í Hallormsstað opnar um miðjan júní í sumar, en nokkru fyrr, eða 29. maí hefst sýning á frumgerðum og skissum tengdum verkunum. Listamennirnir munu vinna í skóginum að gerð eða uppsetningu verkanna fyrri hluta júnímánaðar.
Að Fantasy Island verkefninu standa Skógrækt ríkisins á Hallormsstað, Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri, Hannes Lárusson sýningarstjóri og Hekla Dögg Jónsdóttir, umsjónarmaður með framkvæmd sýningarinnar.
Fantasy Island er hluti af Listahátíð í Reykjavík í samstarfi við Menningarráð Austurlands.