Mynd: Filippeyskir námsmenn raða sér meðfram lestarbrautum í Manila við upphaf skógræktarátaks filippeysku ríkisstjórnarinnar. Með átakinu er fyrirhugað að draga úr mengun í landinu með því að rækta skóg meðfram ríflega 3000 km hraðbraut. Í leiðinni stendur til að setja heimsmet í trjáplöntun. Mynd: AP fréttastofan / Bullit Marquez. Sjá nánar: Philippines hopes to break world record with mass tree-plantingPlanetsave.com).

Gloria Arroyo, forseti Filippseyja, og hundruð þúsunda annarra Filippseyinga tóku þátt í miklu trjáræktarátaki í gær í því skyni að draga úr loftmengun og settu um leið heimsmet í trjáplöntun.

Markmiðið var í fyrstu að planta hálfri milljón trjáa við 3.439 km langa vegi á Filippseyjum en umhverfisráðuneyti landsins sagði að líklega hefðu enn fleiri tré verið gróðursett. Um milljón Filippseyinga skráði sig í átakið.

Samkvæmt heimsmetabók Guinness var fyrra heimsmet í trjáplöntun sett á átján stöðum í indverska ríkinu Andhra Pradesh árið 2005. Um 300.500 trjám var þá plantað.

Umhverfisráðuneyti Filippseyja sagði að rannsókn í átta löndum Suðaustur-Asíu hefði leitt í ljós að loftmengunin væri næstmest á Filippseyjum. Um 70% loftmengunarinnar kæmu frá bílum.

Sérfræðingar segja að minnst tíu tré þurfi til að binda koltvísýringsútblástur frá einum bíl.

Heimild: Morgunblaðið, laugardaginn 26. ágúst 2006