Á www.hekluskogar.is má lesa eftirfarandi.

 

Bifreiðaumboðið HEKLA hefur samið við Hekluskóga um að kolefnisjafna alla starfsemi fyrirtækisins frá og með deginum í dag. Einnig mun fyrirtækið láta Hekluskóga græða lönd og rækta upp skóga sem binda sem svarar kolefnislosun allra nýrra Volkswagenbíla fyrsta árið.

Samkomulag þessa efnis var undirritað í dag í höfuðstöðvum Heklu af Knúti G. Haukssyni, forstjóra Heklu og Ísólfi Gylfa Pálmasyni, formanni verkefnisstjórnar Hekluskóga. Við sama tækifæri var gengið frá kolefnisjöfnun fyrsta Volkswagenbílsins.


Í ræðu Knúts nefndi hann að skógrækt og landgræðsla væri einföld og áhrifarík aðferð til að bæta umhverfið og eyða óæskilegum áhrifum gróðurhúsalofttegunda. Ísólfur Gylfi kvað þetta samstarf afar mikilvægt fyrir Hekluskóga og að fyrir þetta framlag Heklu yrðu gróðursettar um 600 þúsund birkiplöntur sem skipt yrði í 1.000 litla lundi. Frá lundunum mun birkið dreifast um svæðið með fræi og lundirnir stækka. Að 35 árum liðnum mun þetta framlag Heklu hafa breiðst út um 800 hektara lands, sem er álíka svæði og sjálfur Hallormsstaðaskógur.

Síðan var fyrsti kolefnisjafnaði bíllinn afhentur og fylgdi honum lagleg birkiplanta ættuð úr uppsveitum Suðurlands.

Nánar um málið á vefsíðu Heklu.