Föstudaginn 4. maí undirrituðu landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins samstarfssamning um Hekluskóga og framlög ríkisins til verkefnisins. Undirritun fór fram í Gunnarsholti að viðstöddum fjölda gesta. Samningurinn er til 10 ára og framlag ríkisins rúmlega fimm hundruð milljónir króna.


Samkvæmt samningnum eru Hekluskógar sjálfstætt samstarfsverkefni, með sjálfstæða stjórn, um landgræðslu og endurheimt skóg- og kjarrlendis með innlendum tegundum á tæplega 100 þús ha norðan, vestan og sunnan Heklu. Höfuðmarkmið verkefnisins er endurheimt birkiskóga til að verjast afleiðingum öskugosa.


Reynslan hefur sýnt að skóglaust land þolir slík gos afar illa en birkiskógur hemur öskuna og hún hverfur í skógarbotninn. Þarna er því verið að reisa náttúrlegan varnargarð gegn náttúruhamförum. Auk þess munu þessar aðgerðir bæta landgæði, binda kolefni, stuðla að bættum  vatnsbúskap, auka verðmæti lands og skapa nýja möguleika í ferðamennsku.

Fjölmargir aðilar hafa tekið þátt í undirbúningi verkefnisins. Þeir eru: Landbúnaðarháskóli Íslands, landeigendur á Hekluskógasvæðinu, Landgræðsla ríkisins, Landgræðslusjóður, Náttúrufræðistofnun Íslands, Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélag Árnesinga, Skógræktarfélag Rangæinga og Suðurlandsskógar.

 

Heimasíða Hekluskóga er www.hekluskogar.is .